Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 17:45:03 (6175)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var einfaldlega svo að þessu máli var dreift hér á fimmtudag og við áttum fund með hæstv. forsætisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra sama dag, kl. sex, minnir mig. Við vildum gjarnan fá að kynna okkur málið og töldum að ekki væru efni til þess af okkar hálfu að fara inn í umræðu um það á föstudegi án þess að fá að fara yfir það og ræða það við lögmenn og skiptast á skoðunum um skilning á textanum. Við ætluðum varla að trúa því að þetta væri eins í pottinn búið og okkur virðist síðar að hafi verið.

Hvort að við leggjumst eitthvað sérstaklega á sveif með LÍÚ þá ætla ég ekki að taka neina sérstaka afstöðu með því. Hins vegar get ég alveg lýst því yfir að LÍÚ er ekki sökudólgur í þessu máli. Það eru lögin sem við setjum á hv. Alþingi sem gera það að verkum að menn eru smátt og smátt að telja sig eignast hér eignarrétt út á aðferðina sem er notuð. Það er við því sem við vörum. Við erum engir sérstakir óvinir LÍÚ eða vinir, LÍÚ eru bara hagsmunasamtök í þessu landi eins og önnur hagsmunasamtök. Við leggjumst hvorki gegn þeim né með þeim, við leggjumst með þjóðinni í þessu máli, alveg einarðlega með þjóðinni, það er hún sem á þennan rétt og það er það sem okkur sem þingmönnum sem sverjum eið að stjórnarskránni ber að vernda, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)