Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 18:12:30 (6193)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:12]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hver er að drepa umræðunni á dreif? Mér finnst spurningin réttmæt. Hér spyr ég einfaldrar spurningar: Hver verður grundvallarbreytingin fyrir þann sem stundar þennan atvinnuveg? Hæstv. ráðherra treystir sér ekki til að svara því, alls ekki. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra ef hann treystir sér til þess að koma á ný í pontu og svara, sem ég er alls ekkert viss um miðað við hve stuttaralegt svar hans var í andsvarinu: Getur hann fallist á þá breytingartillögu sem við í Frjálslynda flokknum hyggjumst leggja fram, þ.e. um að Íslendingar standi jafnfætis gagnvart því að jafnræðisregla gildi við nýtingu fiskveiðiauðlindar landsmanna? Getur hann fallist á það? Getur hann fallist á að atvinnufrelsi í þessum atvinnuvegi verði tryggt? Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra byggðamála (Forseti hringir.) svari þessari spurningu.