Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 18:47:08 (6206)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:47]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er þetta komið á hreint að tillaga vinnuhópsins var efnislega tillaga auðlindanefndarinnar og til þess lögð fram í stjórnarskrárnefndinni að hún fengi þar tilhlýðilega umræðu, sem því miður gat aldrei farið fram. (Gripið fram í: Af hverju?)

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji að núverandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnar á Íslandi veiti þeim sem fara með veiðiheimildir enga stjórnarskrárvernd. Eiga þeir sem stunda sjávarútvegsstarfsemi á Íslandi enga vernd í 72. gr. stjórnarskrárinnar að mati hv. þingmanns?

Hvað ætlar hv. þingmaður að gera fái menn hugmyndir auðlindanefndarinnar inn í stjórnarskrá? Ætlar hann að fara út í tímabundnar heimildir eða ætlar hann að innkalla heimildirnar og hvað á þá að fyrna réttindin á löngum tíma?