Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 19:01:37 (6209)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson varði lengstum tíma í að ræða um þær breytingar á stjórnarskránni sem að einhverju leyti gufuðu upp og mun minni tíma í þær breytingar sem menn deila um innan stjórnarliðsins hvort séu raunverulegar breytingar eða ekki. Ég veit eða tel mig vita að Jón Kristjánsson beri fyrir brjósti hag sjávarbyggða sem hafa farið gríðarlega illa út úr kvótakerfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og mig langar að spyrja hv. þingmann hverju þetta breyti t.d. fyrir Stöðvarfjörð eða Bakkafjörð svo að einhver dæmi séu tekin, þessar grundvallarbreytingar sem hæstv. byggðamálaráðherra þykist vera að bera hér fram. Hann segir að þetta séu grundvallarbreytingar og skjóti nýjum og traustum stoðum undir það hvernig nýtingu þessara sjávarauðlinda verður háttað.

Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hv. þingmanni hverju þetta breyti t.d. fyrir Stöðvarfjörð, Bakkafjörð eða Djúpavog, byggðir sem hafa farið gríðarlega illa út úr stjórnarstefnu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Mér finnst hann skulda fólkinu í þessum byggðum nokkrar skýringar á því hvaða breytingar Framsóknarflokkurinn er að boða. Eru þetta sýndarbreytingar eða eru þetta raunverulegar breytingar, herra forseti?