Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 19:04:46 (6211)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:04]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algerlega ósammála hv. þingmanni. Þetta mál á einmitt að skoðast í ljósi þess hve illa kvótakerfið hefur gefist. Ég er á því að hv. þingmaður ætti að líta til þeirra staða sem ég benti á. Þar er fólkið sem hann er umbjóðandi fyrir. Þetta kerfi hefur gefist afskaplega illa og að heyra hv. þingmann halda því fram að þetta sé einhver undirstaða fyrir tækninýjungar og þróun þessa útvegs er af og frá.

Staðreyndirnar blasa við. Skuldir sjávarútvegsins hafa aukist, þær hafa þrefaldast á síðustu 12 árum og á meðan hafa tekjurnar ekkert aukist. Hvað eru menn að tala um einhvern árangur af þessu þegar við veiðum helmingi færri þorska en við gerðum áður en við tókum þetta kerfi í gagnið? Kerfið var búið til til þess að byggja upp fiskstofnana (Forseti hringir.) og einnig til að tryggja byggð í landinu. Hvorugt þessara markmiða hefur gengið eftir og það eru staðlausir stafir að halda því fram, (Forseti hringir.) sama hvernig á það er litið, herra forseti.