Áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 13:52:24 (6329)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:52]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samfylkingin hefur lengi gagnrýnt það hvernig nauðsynleg uppbygging verk- og tæknináms hefur mætt algjörum afgangi hjá menntamálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Það er því alveg ljóst að eitthvað þarf að gera og nú er þolinmæði atvinnulífs og forstöðumanna skólanna þrotin. Því er þessi fyrirhugaða sameining til komin. Þessi sameining getur að mínu mati vel komið til greina sem liður í því að breyta fyrirkomulagi verk- og tæknináms hér á landi. Þetta þarf auðvitað að skoða í menntapólitísku samhengi.

Það hefur komið fram í máli skólameistara Iðnskólans í Reykjavík að hann vilji byggja upp fagháskólastig innan skólans. Er þetta viðhorf í samræmi við það sem fram kom í skýrslu starfsnámsnefndarinnar um brýna vöntun á slíku skólastigi hér á landi. Því er ég hjartanlega sammála, það sárvantar slíkt skólastig hér á landi. Fagháskólastig, þar sem til verður eðlilegt framhald af iðn- og verknámi sem á sama tíma styrkir það nám á framhaldsskólastigi.

Í ljósi þessa þykir mér vert að rifja hér upp að ekki er langt síðan hæstv. menntamálaráðherra lagði niður slíkan fagháskóla með niðurlagningu Tækniháskóla Íslands. Þar var Tækniháskólinn gefinn Háskólanum í Reykjavík. Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík var afar vanhugsuð og stórkostleg menntapólitísk mistök. Tækniháskólinn, sem var í raun fagháskóli, er horfinn og því þarf að stofna nýjan. Óðagotið við sameiningu var slíkt að hæstv. menntamálaráðherra var ekki til viðræðu við okkur í Samfylkingunni á sínum tíma um að skoða mögulega sameiningu Tækniháskólans við aðra skóla en Háskólann í Reykjavík. Sameining Tækniháskólans við t.d. iðnskólana hefði því getað verið mun betri kostur en nei, ráðherrann var ekki til viðræðu um neitt annað en sameina hann HR sem hefur skilið eftir eyðu í skólakerfinu sem þarf nú að fylla með nýjum fagháskóla. Þetta er að mínu mati skýrt dæmi um þann flumbrugang sem oft einkennir störf hæstv. menntamálaráðherra.

Ég segi því: Vöndum til verka, höfum víðtækt samráð við atvinnulífið og þá einnig samtök launamanna. Hefjumst handa við uppbyggingu öflugs verk- og tæknináms á framhaldsskólastigi og á fagháskólastigi. Látum 16 ára sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins lokið og nýja tíma taka við. (Forseti hringir.) Við í Samfylkingunni erum tilbúin til þessara verka.