Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 15. mars 2007, kl. 15:16:11 (6484)


133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:16]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það væri hægt að hafa langt mál um þróunina sem ég gerði að umtalsefni áðan, þ.e. hvernig framkvæmdarvaldið hefur stöðugt verið að færa sig upp á skaftið á kostnað löggjafarvaldsins. Ég geri ráð fyrir að hæstv. landbúnaðarráðherra fái betri tíma til að velta því fyrir sér þegar fer að hægjast um eftir 12. maí og geti þá í rólegheitum skoðað þessa þróun. Eins og ég sagði áðan hef ég trú á því að hæstv. ráðherra muni bregða nokkuð þegar hann fer að skoða stöðuna, hvernig hún var þegar hann kom fyrst inn á þing og hvernig hún er í dag hvað þetta varðar.

Það er greinilega erfitt fyrir hæstv. ráðherra að setja sig í þær stellingar að það sé hægt að hafa eitthvert samráð varðandi samningagerð sem þessa. Það eru til ýmsar útgáfur af því. Ekki er verið að ætlast til þess í þessu sambandi að fulltrúar allra flokka séu í þeirri samninganefnd sem hittir t.d. fulltrúa bænda heldur væri hægt að hafa samráðsnefnd sem baknefnd sem hægt væri að fara með mál til og ræða. Þannig væri hægt að skapa samstöðu um málið og koma nýrri hugsun að. Hins vegar er það alveg ljóst að ábyrgðin mun liggja hjá meiri hlutanum.

Það er alveg rétt, þannig að ég gleymi því ekki, að ég hugsa að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi náð samstöðu um mjög mörg mál með alls konar samráði (Landbrh.: Gott.) og trúlega fleiri mál en margir aðrir hæstv. ráðherrar. Ég held samt sem áður að hæstv. ráðherra nái ekki langt með þennan merkilega áróður sinn sem mér liggur við að segja að sé sögulegur því að nú er árið 2007 og ég hélt að Rússagrýlan væri dauð. En lengi lifir hjá einum.