Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 15. mars 2007, kl. 16:23:43 (6498)


133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:23]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áðan var ég skammaður af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir það að verja Framsóknarflokkinn og minnast eitthvað á aðra flokka. Nú hlustum við hér alveg á dæmalausa ræðu um ekki neitt og svívirðingar um Framsóknarflokkinn og rangtúlkanir fram og til baka. Auðvitað þarf ég ekki að verja Framsóknarflokkinn við svona aðstæður því að hann hefur ekkert gert af sér. Þetta er náttúrlega bara makalaus málflutningur sem hér hendir hv. þingmann að tala um allt og ekkert. Hann er að tíunda inn í umræðu um sauðfjársamning grein sem Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, skrifaði. Þar hygg ég að hann hafi verið að skrifa um það sem hefur verið að gerast allt frá Holtavörðuheiði og austur á Hvolsvöll, hjá 70–80% þjóðarinnar, þróun sem allir flokkar berjast gegn og vilja hafa öðruvísi. Minn formaður nefnir t.d. mjög mikið jarðgangagerð til þess að styrkja byggðir og laga, ef ég á að fara út í þá umræðu.

Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann. Ég vil hins vegar segja þegar hann minnist á Evrópusambandið að ég hygg að hinn mikli samningur, EES-samningurinn, sem var auðvitað deilt um og varð að veruleika, sé okkar viðskiptabrú. Ég vil halda mig við hann og sé hann sem okkar viðskiptabrú til Evrópu og eftir honum verðum við að vinna. Við erum auðvitað þátttakendur í alþjóðasamningum eins og WTO. Þaðan kemur ýmislegt í þróun mála hingað. Ég vil bara biðja um að ekki sé verið að flengjast um þennan víða völl og tala um allt annað. Það var sagt við mann þegar maður var barn: Segðu satt og stattu við orð þín. Ég held að það væri betra að ræða við mig meðan ég er hér heldur en að vera að fjalla um einhverjar greinar sem ekki eru hér til umræðu. Gangi (Forseti hringir.) hv. þingmanni vel í hans málum en ég ætla ekki að deila við hann um svona himinskautaræðu.