Almenn hegningarlög

Föstudaginn 16. mars 2007, kl. 12:16:27 (6597)


133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[12:16]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Ég styð hjartanlega þær breytingar sem verið er að gera til að styrkja lögregluþjóna í sínum mikilvægu störfum. Það er mikilvægt að öryggisgæslan í landinu sé öflug og fagmannlega unnin því að eðli hennar er að stuðla að almannaheill og öryggi þegnanna. Því er mjög alvarlegt ef ráðist er á lögreglumenn, tollþjóna eða fangelsisverði sem eru að sinna störfum sínum af skyldurækni og við því eiga vitaskuld að vera harðari refsiákvæði og viðurlög en við öðrum brotum.

Hæstv. forseti. Það liggur þunnur þráður hvað varðar öryggisgæslu, þ.e. á milli þess að halda aftur af ofbeldismönnum og koma að óeirðum, vera í miðbæ Reykjavíkurborgar um helgar og finna óróa og ógn sem liggur í umhverfinu, og þess að sýna stillingu og bregðast rétt við og hugsanlega að bregðast við á þann hátt að það æsi upp eða efli andspyrnu og óróa og hugsanlega frekari árásir á lögregluna en þyrfti að vera. Þetta er vel þekkt. Sem betur fer höfum við fram undir þetta lifað í þjóðfélagi þar sem við höfum talið okkur geta gengið örugg um göturnar. Við höfum talið okkur örugg í miðbæ höfuðborgarinnar og annars staðar um helgar. En nú er það ekki svo. Ráðist er á blásaklaust fólk að tilefnislausu og það barið til óbóta. Eins verður lögreglan, sem sinnir gæslustörfum, fyrir miklu áreiti og hótunum. Er nú svo komið að lögregluþjónar þurfa að vera tveir á ferð hið minnsta og tilbúnir til þess að bregðast við áreiti sem var ekki hér fyrir fáum árum.

Við erum heldur ekki vön því að almenningur efni til mótmæla eða uppþota. Þau fáu mótmæli og uppþot sem hafa orðið eru skráð í Íslandssöguna, eins og þegar ríkisstjórnin og þingið kom okkur inn í NATO. Það er eitt helsta dæmið sem vitnað er til. En margt breytist, bæði betri vitund þjóðarinnar og vöktun á því sem okkur er kært — er ég þá að tala um umhverfismálin — og síðan sú alþjóðlega hreyfing eða vakning sem hefur verið víða erlendis hjá almenningi, þ.e. að fólk lætur í sér heyra ef því er misboðið. Nýlegustu uppþot eða mótmæli af þessum toga eru nýafstaðin í nágrannalandi okkar Danmörku, í Kaupmannahöfn, þar sem lögreglan stóð allt að því í bardaga hreinlega við hóp fólks sem ætlaði sér að verja þar húsnæði með öllum ráðum. Þar kom til snarpra átaka og í raun var hernaðarástand á ákveðnu svæði í Kaupmannahöfn og lögreglan þurfti meira að segja að kalla til liðsauka frá Svíþjóð. Þetta eru harkaleg viðbrögð við ákveðnum aðgerðum sem við megum búast við að berist hingað til lands. Við höfum reyndar orðið vör við það. Til dæmis hafa Íslendingar mótmælt kröftuglega. Helmingur þjóðarinnar lýsti sig andvígan Kárahnjúkavirkjun. Stór hópur fólks mótmælti á Austurvelli fyrir utan Alþingishúsið heilan vetur. Það mótmælti því að lög um Kárahnjúkavirkjun og stóriðju á Austurlandi yrðu samþykkt á Alþingi. Hópur fólks fór austur á land til að mótmæla virkjunarframkvæmdunum og langstærsti hluti þessa hóps kom til þess að mótmæla friðsamlega. Þau eru teljandi á fingrum annarrar handar atvikin sem segja mætti um að fáir einstaklingar hafi farið út fyrir friðsamlegan ramma. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að halda því fram — eftir að hafa verið á svæðinu og heyrt frásagnir fólks af viðbrögðum lögreglunnar og öryggissveita á Austurlandi gagnvart þessu fólki sem var að stórum hluta ungt — að viðbrögð lögreglunnar hafi verið allt of harkaleg.

Þarna vil ég að við stöldrum við, hæstv. forseti. Um leið og við viljum vernda lögregluna og öryggisverði og tollverði fyrir ógnunum og hótunum og meiðingum þá er ljóst að staðreyndin er sú að ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Ef of harkalega er brugðist við, ef tekið er á móti þar sem eðlileg mótmæli fara fram á friðsamlegan hátt og engin hætta er á að mótmælendur valdi öðrum líkamlegu tjóni eða skaða, nema þá helst sjálfum sér, þá er mikilvægt að fara með gát. Við þurfum að gæta þess að sú vernd sem við viljum veita lögreglunni verði ekki til þess að styrkja stjórn lögregluembættanna, sýslumannsembættanna, þannig að þessu verði haldið áfram og að viðbrögð við mótmælum verði jafnharkaleg og þau voru gagnvart þessum hópi og einstaklingum fyrir austan. Þá er ég að tala um langstærsta hluta þeirra sem voru að mótmæla.

Hvað varðar vopnaburð þá tek ég undir og hvet til þess að farið verði að þeim vinnureglum sem komið hafa frá lögreglumönnum sjálfum, þ.e. að almennt verði enginn vopnaburður hjá lögreglunni heldur eingöngu hjá sérsveitum og að öllum slíkum æfingum verði haldið í skefjum.

Að þessu vildi ég koma í þessu máli, þ.e. að eins mikilvægt og það er að tryggja öryggi lögreglunnar þá er jafnmikilvægt að tryggja öryggi borgaranna og það að friðsamleg mótmæli séu viðurkennd og að farið sé að málum með virðingu og gát og ekki stuðlað að því að efna til eða æsa til frekari átaka en ástæða er til. Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi.

Aðeins um stöðu lögreglunnar: Ég tel að á flestum sviðum þurfi lögregluembættin að fá liðsauka, sérstaklega í götulögregluna og eins til almennra starfa, til að geta sinnt því hlutverki sem þeim ber. Ég get aftur tekið dæmi af Austurlandi og þeim miklu umsvifum sem þar hafa verið undanfarin ár. Lögregluembættið þar hefði þurft að fá miklu meiri liðsstyrk til að sinna almennum eftirlitsstörfum, almennum löggæslustörfum, til þess að fylgjast með þeirri miklu umferð, þeim miklu þungaflutningum og þeim mikla fólksfjölda sem komið hefur inn á svæðið við þær sérstöku aðstæður sem ríkja þegar vinnubúðir eru reistar fyrir mörg þúsund manns. Ég tel að svæðið hefði þurft á miklu fleiri lögregluþjónum að halda einmitt til þess að gæta hagsmuna almennings og stuðla að almennu öryggi borgaranna og sérstaklega umferðarinnar.