Almenn hegningarlög

Föstudaginn 16. mars 2007, kl. 12:34:11 (6599)


133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[12:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég kem einungis til að lýsa stuðningi við þetta frumvarp og þær breytingar sem verið er að gera. Allt það sem hv. þm. Ágúst Ólafur mælti áðan fyrir hönd Samfylkingarinnar er fullkomlega réttmætt. Frelsi einstaklingsins verður aldrei varið nema með lögum. Réttarríkið sem skiptir okkur svo miklu máli hvílir á sterkum lögum og við þurfum menn til að framfylgja lögunum. Þetta er rammi og umgerð réttarríkisins.

Það hefur komið fram við umfjöllun nefndarinnar um þetta mál að lögreglumenn sæta í vaxandi mæli áreiti og ofbeldi í starfi sínu og reyndar þeir sem gegna skyldum störfum eins og tollverðir. Í starfi sínu lenda þeir líka í margvíslegu umhverfi sem gerir það að verkum að þeir þurfa oft sjálfir að grípa til harðra aðgerða. Þá er oft erfitt að finna það einstigi sem feta verður. Það mæðir mjög og reynir á dómgreind manna. Ég tel að okkur sem felum lögreglumönnum að sinna þessum mikilvægu störfum beri að skapa þeim mjög trygga og trausta refsivernd. Þess vegna styð ég það fullkomlega að verið sé að auka hana með þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Ég er almennt talað, frú forseti, ákaflega ánægður með lögregluliðið. Mér finnst það hafa þróast vel og í vaxandi mæli tekur það þátt í ýmsum samfélagslegum verkefnum. Ég er t.d. ánægður með þær áherslur sem ég hef lesið og heyrt af hendi nýs lögreglustjóra í hinu nýja sameinaða lögregluumdæmi á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að áherslurnar sem hafa komið fram í kjölfar breytingarinnar, sem ég hef reyndar stutt árum saman, séu ákaflega jákvæðar.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson rakti áðan ýmsar upplýsingar sem komu fram við vinnu nefndarinnar sem leiddi til þess að mér brá í brún. Það kemur í ljós að lögreglumenn, tollverðir svo ekki sé nú minnst á fangaverði sem frumvarpið tekur líka til, eru í vaxandi mæli andlag ofbeldis af hálfu þeirra sem þeir þurfa að kljást við í starfi sínu. Áreitið sem þeir verða fyrir og álagið sem fylgir því miður breyttum samfélagsháttum hefur leitt til þess að það sér á andlegri heilsu þeirra. Það kemur t.d. í ljós, sem ég hafði ekki hugmynd um, að lögreglumenn búa að meðaltali við 10 árum skemmri lífaldur en aðrar stéttir og þó ég hafi ekki handbærar tölur yfir tollverði og fangaverði þá ímynda ég mér að það sjái líka á heilsu þeirra manna sökum þess mikilvæga og erfiða starfs sem þeir sinna. Þetta finnst mér vera dæmi sem við hljótum að láta hafa áhrif á okkur og upplýsingar sem hljóta að verða til þess að við verðum að taka höndum saman um að treysta ramma þeirrar umgjarðar sem þessar mikilvægu starfsstéttir starfa innan.

Oft og tíðum er hart deilt á þessa menn vegna þess að þeir þurfa í okkar umboði stundum að beita hörku og krafti og jafnvel valdi til að stilla til friðar og sjá til þess að lögum sé framfylgt. Samfélagið hefur þróast með þeim hætti að ofbeldi fer því miður hvarvetna vaxandi, líka á okkar litla og saklausa landi. Þetta eru þær stéttir sem lenda öðrum stéttum frekar í því að takast á við skipulagða glæpastarfsemi, sem teygir anga sína líka til litla Íslands, í hinu alþjóðlega umhverfi. Fregnirnar sem við lesum í fjölmiðlum bera í vaxandi mæli blæ af þessu breytta umhverfi. Því segi ég það að þegar hér liggur fyrir tillaga um að styrkja umhverfi þeirra með því að efla og auka refsivernd þeirra styð ég það alveg heils hugar og fullkomlega. Þetta eru stéttir sem oft og tíðum njóta ekki sannmælis. Lögregluliðið er einn af grundvallarásunum sem sér til þess að samfélag okkar fari eftir ferlum réttarríkisins og við verðum að hugsa til þeirra manna sem þar eru í framlínunni og oft og tíðum uppskera vanþakklæti og stundum mjög harðar ásakanir sem eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson reifaði áðan eru í fæstum tilvikum á rökum reistar. Það þýðir ekki að þessir ágætu starfsmenn ríkisins verði ekki að gæta sín í hvívetna, en það finnst mér þeir hafa gert. Málsvarar þeirra sem hafa talað máli þeirra hafa gert það af samfélagslegri ábyrgð og mér sýnist sem þróunin á öllu í kringum lögregluliðið hafi verið mjög jákvæð. Þess vegna, frú forseti, lýsi ég eindregnum stuðningi við að þetta mál verði samþykkt og ég tel að Alþingi eigi að efla og glæða skilning sinn á mikilvægi þessara starfa sem því miður liggur oft í láginni.