Íslenskur ríkisborgararéttur

Föstudaginn 16. mars 2007, kl. 20:12:57 (6672)


133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[20:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég sit í allsherjarnefnd sem áheyrnarfulltrúi og við höfum sammælst í gegnum meðferð málsins, ég og hv. þingmenn Samfylkingarinnar, þannig að ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum báðar breytingartillögur Samfylkingarinnar í málinu og teljum það vera afar dapurleg skilaboð til útlendinga sem vilja búa hjá okkur á Íslandi að fólki skuli gert erfiðara fyrir með því að hækka þetta viðmið í þrjú ár varðandi það að fólk hafi þurft að leita sér aðstoðar vegna fjárhagserfiðleika. Eðli málsins samkvæmt er eðlilegt að það komi upp á í lífi fólks sem er að koma undir sig fótunum í nýju landi og nýrri menningu.

Við teljum eðlilegt að þingheimur hugleiði hvort b-liður breytingartillögunnar sé ekki þess eðlis í ljósi þess sem sagt hefur verið um nýja ríkisborgara á Íslandi að það eigi að hverfa frá þrengingunni og fylgja þeirri breytingartillögu sem hér er lögð fram. Sömuleiðis varðandi aðstæður flóttamanna og fólks sem hefur fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum, að hluta til er meiri hlutinn að leggja til að farið verði að umsögn Mannréttindaskrifstofu en ekki að öllu leyti, einungis að litlum hluta.

Hér eru tvær mjög góðar breytingartillögur á ferðinni og munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðja þær.