Fjarskipti

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 14:16:23 (6774)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

fjarskipti.

436. mál
[14:16]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, frá samgöngunefnd.

Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund og fjöldi umsagna barst til nefndarinnar.

Megintilgangur þessa frumvarps er að auka öryggi í fjarskiptum og neytendavernd og styrkja þau ákvæði fjarskiptalaga, nr. 81/2003, sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs. Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er rýmkun á skilgreiningu hugtaksins fjarskiptaþjónusta með því að fella tölvupóstsþjónustu og netaðgang þar undir. Einnig er lagt til að kveðið verði á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að skjalfesta hvernig staðið er að upplýsingaöryggi. Þá er lagt til að bannað verði að koma fyrir njósnahugbúnaði, vefhlerunarbúnaði eða öðrum slíkum búnaði í endabúnaði notenda án vitundar þeirra og að reglur um óumbeðin fjarskipti verði einnig látnar gilda um smáskilaboð. Auk framangreinds eru lögð til ýmis ákvæði um neytendavernd, m.a. um að fjarskiptafyrirtækjum sé óheimilt að semja við áskrifendur um lengri binditíma en sex mánuði.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Lagðar eru til smávægilegar orðalagsbreytingar í b-lið 8. gr. frumvarpsins.

2. Lagt er til að 3. mgr. b-liðar 9. gr. frumvarpsins verði skipt upp í tvær málsgreinar þannig að síðari málsliður ákvæðisins verði sérstök málsgrein. Er þetta gert í því skyni að tryggja skýrari framsetningu ákvæðisins.

3. Auk þess er lagt til að bætt verði við ákvæðið að notandi hafi rétt til að hafna notkun njósnahugbúnaðar, vefhlerunarbúnaðar eða annars slíks búnaðar sem komið er fyrir í endabúnaði hans til að fá aðgang að upplýsingum, safna földum upplýsingum eða fylgjast með athöfnum hans. Er þetta í samræmi við ákvæði 3. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og einkalífsvernd í fjarskiptum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kristján L. Möller, Guðjón Hjörleifsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Jón Kristjánsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.