Almenn hegningarlög

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 18:11:00 (6820)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[18:11]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni eitt mikilvægasta lagafrumvarp sem við göngum til atkvæða um í dag. Hér eru lagðar til margar nauðsynlegar breytingar á kynferðisafbrotakafla íslenskra laga, og til stórtíðinda telst að hér er að myndast þverpólitísk samstaða um afnám fyrningarfrests við alvarlegustu kynferðisafbrotum gegn börnum. Fyrir því máli hefur varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, barist í mörg ár. Hann hefur flutt um það sérstakt frumvarp á fjórum þingum og er sérstök ástæða til að óska hv. þingmanni til hamingju með þetta mál þótt að sjálfsögðu hafi margir aðrir lagt baráttu hans lið. 27 þúsund Íslendingar hafa undirritað áskorun til Alþingis um að þetta nái hér í gegn.

Hér er um að ræða mikinn sigur fyrir mannréttindabaráttu á Íslandi. Hér er um að ræða alvarlegustu og ljótustu glæpi sem framdir eru í veröldinni og að sjálfsögðu hlýtur það að vera öllum þeim mikið fagnaðarefni sem hafa barist fyrir breytingum á þessum lögum og að þessir kynferðisglæpir gagnvart börnunum verði aldrei fyrnanlegir þegar um er að ræða alvarlegustu glæpina. Að sjálfsögðu er það einnig sérstakt ánægjuefni þegar myndast þverpólitísk samstaða á hinu háa Alþingi á meðal allra stjórnmálaflokkanna um að standa saman að svo mikilvægum mannréttindabótum, svo mikilvægum lagabreytingum sem hér um ræðir. Það er til fyrirmyndar og það er ástæða til að óska Alþingi til hamingju með það á sínum síðasta starfsdegi á þessu kjörtímabili af því að allt of sjaldan nær Alþingi saman um að mynda þverpólitíska samstöðu um að mikilvæg réttindamál og mannréttindamál nái fram að ganga burt séð frá því hver hefur fyrir þeim barist og hver er upphafs- eða hvatamaður að málunum.

Hér er um að ræða frábært dæmi um samstöðu allra stjórnmálamanna og allra stjórnmálaflokka á Alþingi um að alvarlegustu kynferðisafbrotin gagnvart börnum fyrnist aldrei. Það er mikill sigur fyrir mannréttindabaráttunni og ég óska Alþingi aftur til hamingju með það.