Almenn hegningarlög

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 18:14:22 (6821)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[18:14]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og ég lýsti í ræðu minni áðan hef ég ákveðnar efasemdir um orðun 1. málsl. í 194. gr. almennra hegningarlaga. Athugasemdir mínar lúta í fyrsta lagi að því að ég tel að hér hefði verið hægt að taka veigameira skref og stærra í átt til þess að tryggja verndarhagsmuni og réttarstöðu kynfrelsis kvenna. Ég er sömuleiðis efins um það að nefndin bæti þarna inn aftur orðalaginu „annars konar ólögmæt nauðung“ og vísaði ég í ræðu minni áðan til efasemda sem við fengum frá umsagnaraðilum. Ég sit hjá, og við gerum það, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, við þessa breytingartillögu en vegna þess að ég tel að við náum ekki lengra í þessu máli hér og nú ætlum við samt að styðja greinina þegar hún verður hún borin upp svo breytt til atkvæða.