Málefni aldraðra

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 19:20:11 (6843)


133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:20]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér greinir ráðherrann og Landssamband eldri borgara á því að farið hafa fram þó nokkur bréfaskipti milli Landssambands eldri borgara og ráðherra vegna þess að ráðherra hefur lagt til að greitt verði úr sjóðnum 6,6 milljónir í þetta tilraunaverkefni sem ráðherrann nefndi í andsvari við mig og samkvæmt því sem segir í bréfi Landssambands eldri borgara hafi það ekki verið tekið upp í sjóðstjórninni, sem á að ákvarða hvaða greiðslur eigi að fara úr sjóðnum. Þarna greinir ráðherra og landssambandið á, sem á fulltrúa í sjóðnum og fulltrúi þess í sjóðnum kannast ekki við að sjóðurinn hafi fjallað um þetta eða lagt þetta til. Auðvitað þarf að leysa úr því hver hefur á réttu að standa. Það er náttúrlega ekki eðlilegt að ráðherra leggi til greiðslur úr sjóðnum ef sjóðurinn á að hafa frumkvæði að því.

Hvað varðar þetta tilraunaverkefni — ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að þetta er fínasta verkefni og nauðsynlegt, en ég veit ekki betur en að Tryggingastofnun ríkisins eigi að annast nákvæmlega það sem lagt er til í þessu tilraunaverkefni, þ.e. að upplýsa eldri borgara um réttindi sín o.s.frv. Hvers vegna er ekki bara almennileg fjárveiting til Tryggingastofnunar ríkisins til að hún geti sinnt upplýsingahlutverki sínu frekar en að taka peninga úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að koma á einhverju tilraunaverkefni, hversu gott sem það nú er? Tryggingastofnun ríkisins hefur þetta með höndum og getur vel annast það ef hún fær fjárveitingar til þess.