Málefni aldraðra

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 19:23:59 (6845)


133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Frammistaða hæstv. heilbrigðisráðherra í þessari umræðu og í þessu máli bendir til að hún hafi verið of lengi í ríkisstjórn. Hún er hætt að skynja muninn á sjálfri sér sem persónu og því embætti sem hún gegnir. Hún svarar hv. þingmanni með því að fyrst hv. þingmaður væri hér að væla um þetta og kvaka — fyrst Landssamband eldri borgara er með eitthvert múður bara hætti ég þessu verkefni. Þá fáið þið það bara framan í ykkur að ég hefni mín og hætti þessu drasli.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er orðin þannig að hún metur það ekki hvaða fé hún er að fara með, hvort hún er að fara með almennt skattfé sem Alþingi hefur úthlutað til ákveðinna hluta, og hún hefur fengið hlut af því sem við köllum vasapeninga ráðherra og getur veitt úr, og hefur aðrar holur og glufur sem eðlilegt er að fara í til að útvega peninga, hún gerir ekki greinarmun á því og síðan þeim sem allir skattborgarar á Íslandi borga í 6.314 kr. á ári og heitir Framkvæmdasjóður aldraðra en ekki rekstrarsjóður aldraðra, sem við erum búin að leiðrétta, og heldur ekki uppbyggingaröldrunarþjónustusjóður aldraðra, heitir ekki söngsjóður aldraðra eða óperusjóður aldraðra, heldur Framkvæmdasjóður aldraðra. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur engan rétt til þess að taka fé úr honum nema til að veita það í framkvæmdir og einhver þau verkefni sem þeim tengjast algjörlega náið.

Það er sérkennilegt að heilbrigðisráðherra ætli að leiðrétta fréttina. Það getur vel verið að eitthvað hafi misfarist, ég ætla ekki að tala hér fyrir Fréttablaðið eða blaðamanninn, en það hefur varla misfarist í þessari frétt að Garðar Cortes óperukórstjóri segist ekki hafa verið nokkurs staðar að syngja á öldrunarstofnunum, eins og heilbrigðisráðherra heldur fram, heldur var Óperukórinn að syngja á Landspítalanum.

Það er því rétt að endurtaka þá spurningu til heilbrigðisráðherra: Er verið að úthluta úr sjóðnum núna þessar vikurnar með sama hætti og hefur verið áður þegar Óperukórinn, (Forseti hringir.) Kvenréttindafélagið, Lionsklúbburinn, Tónaljón o.fl. (Forseti hringir.) fengu þessa (Forseti hringir.) styrki eins og þeir væru teknir af vasapeningum hjá ráðherranum?