Almenn hegningarlög

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 21:31:54 (6878)


133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[21:31]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp við 3. umr. rétt til að geta þess að við 2. umr. málsins voru gerðar breytingar í samræmi við tillögur allsherjarnefndar á málinu. Við það breyttist röð þeirra greina sem frumvarpið hefur að geyma. Því mun ég við 3. umr. leggja fram viðbótarbreytingartillögu til að tryggja að tilvísun við gildistökuákvæði frumvarpsins til 1. gr. verði breytt til samræmis við þær breytingar sem voru gerðar eftir 2. umr. og að tilvísunin taki mið af þeim breytingum með því að þar verði ekki lengur vísað til 1. gr. frumvarpsins heldur er nauðsynlegt að breyta greininni þannig að hún vísi til 2. gr.

Þannig mun gildistökuákvæðið hvað varðar þau brot sem munu framvegis fyrnast frá 18 ára aldursmarki brotaþola gilda þannig að það gildi sem sagt einnig um brot sem framin eru fyrir gildistöku laganna, enda sé fyrningarfresturinn ekki hafinn. Fyrningarfrestur í málum má ekki vera byrjaður að líða til að 18 ára aldursmarkið samkvæmt lagafrumvarpinu taki gildi.

Hins vegar erum við að gera aðra breytingu hér eftir 2. umr. á málinu sem felur það í sér að hluti þessara brota, þ.e. alvarlegustu brota, verða ófyrnanleg og hvað þau brot snertir munu gilda almennar lögskýringarreglur um lagaskilin.