Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 23:25:36 (6920)


133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[23:25]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með konungsúrskurði 22. nóvember 1913 voru settar reglur um sérfána innan lands og á skipum í landhelgi Íslands. Með sambandslögunum 1918 var gefinn út konungsúrskurður um fullgildan þjóðfána. Á þeim tíma var Alþingi skipað mönnum sem höfðu tekið virkan þátt í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og barist af alefli fyrir því að við skyldum ráða málum okkar sjálf. Af einhverjum ástæðum töldu þeir ekki ástæðu til að koma þjóðfánanum fyrir í þingsalnum, þurfti ekki á því að halda til þess að muna hverrar þjóðar þeir voru.

Ég sé á þessari tillögu að 31 þingmaður hefur flutt tillögu til þingsályktunar um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis. Auðvitað er ég þingræðissinni og beygi mig fyrir því. Ég vek á hinn bóginn athygli á að ekki liggur fyrir hvernig þessi hugmynd muni útfærð, hversu stór fáninn skuli vera eða hvar hann skuli vera. Ég hef einu sinni tekið þátt í því, þegar tillögu samhljóða þessari var vísað til forsætisnefndar, með innanhússarkitektum að reyna að glöggva mig á hvar hægt yrði að koma fánanum fyrir í þingsalnum. Það gekk ekki vel.

Ég sé að það kemur hingað maður og réttir mér mynd af þjóðfánanum. [Hlátur í þingsal.] Ég verð að segja með fullri virðingu fyrir hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að þessi þjóðfáni verður, eins og honum er hér stillt upp, mjög í gangveginum og hætt við að umgengni um hann verði ekki eins og ég hugsa mér að umgengni um þjóðfána eigi að vera. En eins og ég segi, ég beygi mig auðvitað fyrir meiri hluta og ég get ekki fengið mig til að greiða atkvæði gegn þjóðfánanum, gegn hinum íslenska fána.

Á hinn bóginn átta ég mig ekki á því að frekari nauðsyn sé til þess nú en þegar við fengum fullveldið 1918 að setja fánann hingað inn. Ef hann mætti verða til þess að minna þingmenn á að reynast þjóð sinni vel þá er það ekki til einskis sem þessi tillaga yrði samþykkt.