Varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra

Miðvikudaginn 04. október 2006, kl. 14:45:50 (36)


133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:45]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þessar umræður eru fróðlegar og gagnlegar. Stjórnarandstaðan efndi til blaðamannafundar við upphaf þings og sagði að hún yrði samstiga á þessu þingi og að menn mundu sjá það í þingstörfum að hún stæði saman í öllum meginmálum. Það sem komið hefur fram í umræðum í dag er að stjórnarandstaðan er alls ekki samstiga þegar litið er til varnar- og öryggismála. Verður þó seint talið að þau séu ekki eitt af þeim meginmálum sem við stjórnmálamönnum blasa þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir og móta sína stefnu.

Hv. síðasti ræðumaður, fulltrúi Frjálslynda flokksins, boðaði að hann teldi að það þyrfti að ganga lengra en kemur fram í stefnu ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í yfirlýsingu hennar um aðgerðir og ný verkefni af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hann vill ganga lengra en þar er lagt til auk þess sem hann vill vera í NATO og telur að samningurinn sem við gerðum við Bandaríkjamenn núna sé fullnægjandi fyrir varnir landsins.

Fulltrúi Vinstri grænna var sömu skoðunar og áður, að Íslendingar þyrftu í raun ekki að gera neitt til að tryggja öryggi sitt og varnir og gætu gefið almenna yfirlýsingu um friðlýsingu og þá væri þessu máli í raun og veru lokið, ekki þyrfti annað en árétta þá yfirlýsingu reglulega til að við tryggðum öryggi okkar. Þó tók hann undir það sem kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi verksvið hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og stofnunum þess sem ég mun e.t.v. víkja að hér á eftir.

Það sem kom mest á óvart var yfirlýsing formanns Samfylkingarinnar. Formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir að Samfylkingin mundi ekki taka pólitíska ábyrgð á því samkomulagi sem gert hefði verið við Bandaríkin, hvorki nú né í framtíðinni. Þegar Íslendingar gerðust aðilar að NATO 1959 klofnaði Alþýðuflokkurinn. Hluti alþýðuflokksmanna treysti sér ekki til að samþykkja aðild Íslands að NATO, m.a. vegna þess að hann taldi að Íslendingar hefðu ekki nógu miklar upplýsingar um hvað fælist í aðildinni. En þegar varnarsamningurinn var gerður 1951 var Alþýðuflokkurinn sameinaður, þá stóðu allir alþýðuflokksmenn að því að samþykkja varnarsamninginn á þingi. Þeir sögðu að sá munur væri á stöðunni 1949 og þá, að 1951 lægju allar upplýsingar fyrir. Það væru ekki nein leyndarmál sem menn þyrftu að horfast í augu við þegar þeir stæðu frammi fyrir því að samþykkja varnarsamninginn.

Ég spyr þingmenn: Voru varnaráætlanir samkvæmt þeim samningi lagðar fram? Voru þær birtar öðrum en íslenskum stjórnvöldum? Var öðruvísi staðið að gerð þess samnings og þeim áætlunum sem þar voru birtar en nú var gert? Nei, það var ekki gert. Þeim samningi fylgdu einnig ákveðin skjöl sem hafa verið trúnaðarmál og leyndarmál í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna eins og á við þá varnaráætlun sem nú hefur verið kynnt og menn hafa rætt um. (Gripið fram í: Alþýðuflokkurinn fékk að sjá meira.) Alþýðuflokkurinn stóð að því og var einn af þremur lýðræðisflokkum, eins og það var sagt á tímum kalda stríðsins, sem stóðu að aðildinni að NATO og varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Það sem við heyrum nú, þegar kalda stríðinu er lokið og við erum að kynna þetta samkomulag við Bandaríkin og þær niðurstöður sem fyrir liggja, er að einn þessara flokka dregur sig úr þessu hefðbundna samstarfi þessara þriggja flokka sem stóðu saman alla tíð á tímum kalda stríðsins. Formaður flokksins kemur í ræðustól á Alþingi og segir: Við munum ekki axla pólitíska ábyrgð vegna þessa samkomulags. Við munum ekki gangast undir það að styðja það samkomulag sem gert hefur verið um varnar- og öryggismál þjóðarinnar. Þetta finnst mér stóra atriðið sem komið hefur fram í þessum umræðum. Það er þess eðlis að það pólitíska umhverfi sem við störfum í breytist þegar litið er til öryggis- og varnarmálanna, ef einn flokkur eins og Samfylkingin dregur sig frá því samstarfi og vill ekki taka þátt í að bera ábyrgð á þeim samningi sem gerður hefur verið um hvernig öryggi lands og þjóðar er tryggt.

Eins og ég hef sagt koma fram þrjár ólíkar skoðanir hjá stjórnarandstöðunni þótt hún hafi við upphaf þings lýst því yfir á sérstökum blaðamannafundi að hún ætlaði að starfa saman og mynda eina heild þannig að menn sæju að það væri skýr kostur fyrir kjósendur við lok þings þegar menn þyrftu síðan að ganga til atkvæða. Í fyrsta stóra málinu sem við ræðum á þinginu þegar kemur að öryggis- og varnarmálunum þá splundrast þessi samstaða, flokkarnir fara í allar áttir og einn flokkurinn, stærstur í þessari fylkingu, dregur sig til baka og vill ekki einu sinni standa að þeirri stefnu sem hann hefur stutt á tímum kalda stríðsins í varnar- og öryggismálum. Hann segist ekki treysta sér til að taka pólitíska ábyrgð á þessum samningi og þessari niðurstöðu. En þeim mun frekar ættu menn að taka ábyrga afstöðu, ef þeir treystu sé ekki til þess á tímum kalda stríðsins eins og þeir sem voru í Alþýðubandalaginu og eru núna komnir í Samfylkinguna, þeir þingmenn ættu fremur að vera reiðubúnir til að axla ábyrgð í öryggis- og varnarmálum á skynsamlegum forsendum. Alþýðubandalagið treysti sér aldrei til þess á tímum kalda stríðsins eins og við vitum en það er greinilegt að sá armur ræður núna stefnumörkun Samfylkingarinnar í öryggis- og varnarmálum.

Varðandi þá þætti sem lúta sérstaklega að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins þá er, eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra, lagt til að stofnað verði sérstakt ráð ráðherra til að fara með yfirstjórn á málum sem mundu falla undir lög um almannavarnir. Þessi lög mundu ná til öryggismála hvort heldur vegna náttúruhamfara eða vegna hættu af manna völdum. Frumvarpið verður vonandi lagt fram hér á þingi á þessum vetri og menn fá þar betra tækifæri til að ræða þennan þátt. Síðan er, eins og segir í þessari yfirlýsingu:

„Samhliða því sem unnið er að nýskipan lögreglumála, verður samstarf lögreglu, Landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita aukið enn frekar, þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kann að verða þörf í landinu.“

Hér er vikið að því að ekki er lengur ákvæði í lögum sem var í lögreglulögum sem heimilar að skipuleggja og kalla út varalið ef á þarf að halda. Þarna er vakið máls á nauðsyn þess að þetta verði lögheimilað, hvort heldur í lögum um almannavarnir eða með breytingu á lögreglulögum.

Í 4. tölulið yfirlýsingarinnar er talað um að tryggt verði að íslensk stjórnvöld hafi lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og alþjóðastofnanir þar sem skipst verði á trúnaðarupplýsingum. Í þessu tilliti er náttúrlega brýnna en nokkru sinni fyrr fyrir íslensk stjórnvöld að hafa aðgang að þeim stofnunum og geta skipst á upplýsingum við stofnanir sem leggja mat á hættu og draga fram áhættuþætti til að unnt verði að fylgjast með því að varnarfyrirkomulag í landinu samræmist ávallt þeim sjónarmiðum sem nauðsynlegt er að taka tillit til þegar öryggis borgaranna er gætt.

Þarna er síðan vikið að hinu öfluga og örugga fjarskiptakerfi sem við erum að byggja upp og efla enn frekar og rætt um eflingu Landhelgisgæslunnar, þ.e. vikið að nýrri flugvél, nýju varðskipi og að þyrlur verði keyptar þegar útboð hefur farið fram vegna kaupa á þeim, ef svo fer fram sem horfir. Við erum að leggja á ráðin í þessari yfirlýsingu um stóreflingu af okkar hálfu á gæslu öryggis okkar og höfum þegar mótað skýra stefnu í því. Við höfum mótað skýra stefnu varðandi alla þætti sem hafa komið fram þegar við stöndum á þessum tímamótum að varnarliðið fer og við högum varnarviðskiptunum við Bandaríkin á annan veg en áður í ljósi breyttra aðstæðna.

Á tímum kalda stríðsins var lögð áhersla á framvarnir og að herafli væri skipulagður þannig að hann væri á ákveðnum stöðum þar sem hætta var talin á átökum eins og við sáum t.d. í Vestur-Þýskalandi og hér á Norður-Atlantshafi. Nú eru aðstæður allt aðrar. Þá skilgreina menn hættuna á annan veg og skipuleggja heraflann með öðrum hætti. Þá er lögð áhersla á hreyfanleika og sveigjanleika. Þetta samkomulag sem við höfum gert við Bandaríkjamenn tekur mið af þeirri meginvarnarstefnu. Innan þeirrar varnarstefnu er það samkomulag gert sem hér er verið að kynna og ræða. Þær áætlanir sem við munum líta til við varnir landsins taka að sjálfsögðu einnig mið af þeirri meginstefnu. Að sjálfsögðu geta menn, frá almennum sjónarmiðum, áttað sig á því í hverju slíkar áætlanir eru fólgnar þótt ekki sé verið að stafa nákvæmlega hvernig þær eigi að framkvæma ef svo hörmulega færi að á þær reyndi.