Þjónusta á öldrunarstofnunum

Miðvikudaginn 11. október 2006, kl. 14:31:15 (366)


133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

þjónusta á öldrunarstofnunum.

118. mál
[14:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að þvotturinn þarf að vera á hreinu. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að öldrunarstofnunum er skylt að veita þessa þjónustu. Það kom jafnframt fram að einhver misbrestur er á því að hún sé veitt.

En þó ég hafi í dag sérstaklega kosið að ræða um skyldur öldrunarstofnananna vegna þvotta vistmanna þá er það aðeins ein birtingarmynd þeirrar mismununar sem viðgengst í annars ágætri þjónustu öldrunarstofnana við aldraða. Þvottur er hluti af grunnþjónustu og það þarf að ganga eftir því við stofnanir að þær sinni þeim skyldum sem þær fá greitt fyrir að sinna.

Það skortir verulega á að stjórnvöld setji lágmarkskröfur um magn og gæði þjónustu og aðbúnaðar íbúa á stofnunum sem veita öldruðum þjónustu. Samningar við sjálfseignarstofnanir sem reka hjúkrunarheimili á daggjöldum frá ríkinu geyma engin viðmið eða lágmarkskröfur svo sem um rými, aðbúnað eða umönnun. Þetta er haft beint eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða.

Eina undantekningin er hjúkrunarheimilið Sóltún í Reykjavík, en samningur við heimilið er til fyrirmyndar þar sem aðbúnaður og þjónusta er skilgreind til hlítar.

Virðulegi forseti. Það þarf að skilgreina lágmarksrými í fermetrum, þjónustu og þjálfun sem aldraðir eiga rétt á, félagsstarf, lágmarksumönnun, menntun og þjálfun starfsmanna. Þá fyrst geta stjórnvöld fullyrt að það gæti jafnræðis í þjónustu við aldraða á stofnunum. Samkvæmt stefnumótun heilbrigðisráðuneytisins í öldrunarmálum er verið að skoða að færa ábyrgð á rekstri öldrunarstofnana til sveitarfélaga. Ég fullyrði að sveitarfélögin muni ekki líta við þessum málaflokki fyrr en þessi viðmið hafa verið sett og greiðsla fylgir.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera forgangsverkefni heilbrigðisráðuneytisins að skilgreina og samræma lágmarkskröfur um þjónustu og aðbúnað á öldrunarstofnunum og gera þjónustusamning um rekstur þjónustunnar við þá aðila sem reka öldrunarstofnanir.