Þjónusta á öldrunarstofnunum

Miðvikudaginn 11. október 2006, kl. 14:33:23 (367)


133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

þjónusta á öldrunarstofnunum.

118. mál
[14:33]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þessar stofnanir eiga að sjá um þvottana. Það eru þrjár sem svöruðu því að þær gerðu það ekki, þ.e. Skógarbær, Sunnuhlíð og Sóltún. Við munum skriflega koma með ábendingar um að því þurfi að kippa í lag. Þær eiga að sjá um þessi mál, eins og kom hér skýrt fram í góðri ræðu hv. þm. Þórdísar Sigurðardóttur. Þannig að við munum ganga eftir því.

Ég vil hins vegar benda á að það er nýbúið að vinna að stefnumótun í heilbrigðisráðuneytinu þar sem fram kemur að við viljum fara yfir í alveg nýja hugmyndafræði varðandi þjónustuna við aldraða. Við erum að stofna faghóp sem mun koma með tillögur um hvernig það verður gert. Sá faghópur á að skilgreina kröfur um húsnæði, umönnun, þjónustu og aðstöðu. Þetta er auðvitað grundvöllurinn fyrir því skrefi sem við viljum síðan taka sem er að vistmenn fái aukið sjálfræði. Þannig að þeir muni greiða fyrir ákveðna þætti.

Við förum þá út úr því kerfi sem er í dag þar sem fjármagn sem viðkomandi hefur fer að talsverðu leyti í gegnum Tryggingastofnun ríkisins og kemur aldrei í vasa viðkomandi vistmanns. Grundvöllur þess að við getum farið út úr því kerfi sem ríkir í dag er að við getum skilgreint kröfur um aðbúnað, aðstöðu, mat, þjónustu og annað slíkt til þess að fólk geti þá farið að greiða sjálft fyrir þá þjónustu. Þá skapast líka meira val og væntanlega meiri samkeppni á milli stofnana um þjónustuna.

En ég vil hér að lokum, virðulegi forseti, þakka fyrir fyrirspurnina því hún gaf okkur upplýsingar sem okkur voru ekki ljósar og við munum bregðast við þeim.