Leiga aflaheimilda

Miðvikudaginn 11. október 2006, kl. 14:38:11 (369)


133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

leiga aflaheimilda.

179. mál
[14:38]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu sem lýtur að máli sem heilmikið hefur verið rætt og fjallað um í sjávarútveginum á umliðnum allmörgum árum.

Við þekkjum af reynslunni að við höfum farið í ýmsa hringi í þeim efnum hvernig við teljum skynsamlegast að haga þessum viðskiptum. Við þekkjum að það sem uppi hefur verið er kannski fyrst og fremst tvennt eða þrennt.

Í fyrsta lagi er það spurningin um framsal á aflaheimildum sem deilur hafa staðið um. Í öðru lagi það sem hefur verið áhersluatriði frá hagsmunasamtökum sjómanna sem er að koma í veg fyrir að sjómenn taki þátt í kaupum á aflaheimildum. Loks er það spurning hv. þm. Gunnars Örlygssonar: Hvernig getur það staðist að þetta háa leiguverð sé við lýði til samanburðar við það verð sem fæst fyrir fiskinn?

Ég held að ég sé ekki einn um að undrast það mjög hvernig þetta leiguverð hefur verið að þróast. Það er alveg ljóst mál að það er engin einhlít skýring á því. Það kom fram í máli hv. þingmanns að viðskipti með aflaheimildir eru mjög miklar. Með öðrum orðum, framboðið á aflaheimildunum er heilmikið. Menn hafa spurt sig þeirra spurninga hvort um sé að ræða samráð útgerðarmanna til að tryggja að verðlag á aflaheimildum sé svo hátt sem raun ber vitni. Að mínu mati hefur okkur ekki tekist að sýna fram á að eitthvað slíkt sé í gangi.

Á sínum tíma var ákveðið með lögum frá 25. mars 1998 að setja upp sérstakt fyrirkomulag sem kallaðist kvótaþing og var ætlunin að reyna að tryggja að þessi viðskipti færu fram með þeim hætti að það væri erfitt fyrir menn að hafa áhrif á kvótaverðið. Hugmyndin var sú að líkja eftir verðfyrirkomulagi sem við þekkjum á ýmsum öðrum vettvangi, t.d. á skuldabréfum, hlutabréfum eða einhverju slíku.

Niðurstaðan eftir tveggja eða þriggja ára reynslu af þessu fyrirkomulagi var hins vegar sú að það var samstaða um það bæði meðal útvegsmanna og sjómanna að þetta fyrirkomulag reyndist ekki vel. Á þeim grundvelli var síðan flutt frumvarp og það gert að lögum sem kváðu á um að afnema kvótaþingið.

Kvótaþingið hljómaði vel í upphafi og mjög margir bundu miklar vonir við að þetta væri það fyrirkomulag sem við ættum að hafa varðandi þessi viðskipti en reynslan varð sem sagt önnur. Í framhaldi af því voru sett lög sem við þekkjum sem eru í meginatriðum þau lög sem gilda í dag um kjaramál sjómanna og fleira. Það kemur fram að í stað þess fyrirkomulags sem hafði verið við lýði yrði áskilið að Fiskistofa heimili ekki flutning aflamarks milli fiskiskipa nema fyrir lægi staðfesting frá Verðlagsstofu skiptaverðs um samning um uppgjör á aflahlut sjómanna.

Það eru síðan mjög ítarlegar reglur nákvæmlega hvernig staðið er að kvótaviðskiptunum. Það er gengið úr skugga um að fyrir liggi samningur útgerðarmanna og áhafnar. Það eru ýmsar aðrar kvaðir sem ég gæti rakið ef tími væri til en menn þekkja og geta lesið um í lögunum.

Að mati sjómanna og útvegsmanna hefur þetta fyrirkomulag ekki reynst illa. Að minnsta kosti hefur það komið fram hjá forustumönnum sjómanna að þau brögð sem voru að því að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum hafi verið minni. Þetta hafi að því leytinu náð tilgangi sínum.

Það er þó til athugunar og ég hef verið að vinna því núna að undanförnu að kanna sérstaklega hvort breyta ætti lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna með það að markmiði að leggja þá ótvíræðu skyldu á Verðlagsstofu skiptaverðs að ganga úr skugga um hvort samningum um uppgjör væri fylgt. Það yrði þá heimilt að fella úr gildi þá samninga sem ekki væri fylgt.

Með þessu móti væri flutningur aflamarks af viðkomandi fiskiskipi stöðvaður. Þetta er gert til að reyna að koma til móts við þau sjónarmið sem m.a. benda á að ef um það sé að ræða að menn sniðgangi þessi lög eða reyni að fara fram hjá þeim með einhverjum hætti, þá stuðli það ásamt öðru að því að hækka verð á leiguheimildum. Þannig að þeir sem ekki fari eftir þessum reglum hafi möguleika á að bjóða hærra í leiguverð á aflaheimildum og pressi þannig upp verðið á aflaheimildum.

Nú vitum við ekki hvort þetta sé algengt eða hafi mikil áhrif en það er auðvitað ljóst mál að ef þetta eru nokkur tilvik þá hefur það þessi áhrif og stuðlar að því að hækka verðið.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að í lögunum um skiptaverð og greiðslumiðlun eru mjög ströng ákvæði í þessum efnum sem menn eiga auðvitað að fara eftir. Við höfum hins vegar kannski ekki haft nægileg úrræði til að fylgja þessu eftir og Verðlagsstofa skiptaverðs hefur ekki talið að henni bæri að fylgja þessu eftir með þeim hætti sem ég er að tala um hér.

Að mínu mati gæti þetta stuðlað að því sem ég held að hv. þingmaður hafi m.a. verið að leggja áherslu á og ég hygg að á þessu máli sé áhugi meðal þeirra aðila sem að málinu koma, sem er úrskurðarnefnd innan Verðlagsstofu skiptaverðs (Forseti hringir.) og í eiga sæti fulltrúar sjómanna og útvegsmanna.