Leiga aflaheimilda

Miðvikudaginn 11. október 2006, kl. 14:48:06 (373)


133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

leiga aflaheimilda.

179. mál
[14:48]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála fyrirspyrjanda um að við þurfum að hafa vakandi auga fyrir því fyrirkomulagi sem við höfum varðandi leigu á aflaheimildum. Ljóst er, eins og við höfum verið að tala um í þessari umræðu, að leiguverðið er ótrúlega hátt og mjög hátt með hliðsjón af því verði sem fæst fyrir fiskinn og það vekur með manni ýmsar spurningar sem ég kann út af fyrir sig ekki svör við. Komið hafa fram alls konar ábendingar í þessum efnum. Þeir eru til sem telja t.d. að það fyrirkomulag sem við höfum um takmarkanir á framsali leiði til þess að þetta verð sé hærra en það þyrfti að vera. Ástæðurnar fyrir takmörkununum eru hins vegar margvíslegar, m.a. þær — ekki einu — en m.a. þær að sjómenn hafa lagt á það mikla áherslu að reyna að draga úr þessu leiguframsali, minnka það, og það hefur gert það að verkum að við erum með sérstakar reglur sem stuðla að því.

Það er hægt að hugsa sér að reyna að setja einhvers konar hámarksverð á aflaheimildir en ég hygg að menn yrðu tiltölulega fljótir að fara fram hjá því með einhverjum hætti og ég held að það sé ekki sú leið sem við eigum að fara. Ég skildi hv. fyrirspyrjanda þannig að hann væri í raun að ýta þeirri leið til baka, var hins vegar að velta fyrir sér hvort hægt væri að finna eðlilegri leið til að búa til markaðsverð á þessum heimildum. Ég er núna, eins og ég sagði áðan, að láta skoða það sérstaklega hvort reyna eigi að styrkja lagalega þann þátt ef á þarf að halda og a.m.k. tryggja það að Verðlagsstofu skiptaverðs, sem sjómenn og útvegsmenn leggja mikla áherslu á að starfi áfram, verði falið það aukna eftirlit sem þarf að fylgja ef menn ætla að fylgjast með því hvort menn fari nákvæmlega að kjarasamningum.

Það er alveg ljóst, ef hv. þm. Jón Gunnarsson hefur á réttu að standa, að það er auðvitað mjög alvarlegt ef menn eru að brjóta samninga og brjóta lög. Þá þurfum við að hafa einhver eftirlitstæki til að fylgjast með því og þessi hluti eftirlitsiðnaðarins er eitthvað sem við flest, held ég, viljum varðveita. Ég tel að ef við styrkjum þetta er það eitt skref í þá átt að reyna að tryggja að þessi verðmyndun verði eðlileg því að ljóst er að sá sem brýtur lögin í þessum efnum býr sér til allt annað samkeppnislegt forskot og stuðlar (Forseti hringir.) að því að hækka leiguverð á fiski.