Bann við botnvörpuveiðum

Miðvikudaginn 11. október 2006, kl. 15:02:51 (380)


133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[15:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör og þakka innlegg hv. þingmanna í þessa umræðu. Hér er um hættulegt mál að ræða og það er mjög vandmeðfarið. Allir eru sammála um að vernda þurfi viðkvæmt vistkerfi sjávar.

Fjölmiðlaumræðan hér hefur snúist um það að Bandaríkjamenn séu hlynntir þessu banni en samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér er um misskilning að ræða og ég vona að svo sé. Það er mjög mikilvægt að Bandaríkjamenn séu sammála okkur.

Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvert er mat hans á því að umhverfissinnar, sem oft eru með einfaldan en ekki alltaf skynsaman boðskap, séu farnir að hafa meiri ítök á alþjóðavísu er kemur að stjórn fiskveiða?

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort rétt sé að í fyrri hluta umræðnanna hafi af Íslands hálfu verið lögð áhersla á að halda þeirri nálgun sem samþykkt var með fiskveiðiályktun allsherjarþingsins haustið 2004, þ.e. að beina því til fánaríkja og svæðastofnana að bæta stjórn botnfiskveiða á úthafinu og að svo miklu leyti sem frekari hnattrænna aðgerða sé talin þörf beri að fela FAO það hlutverk enda sé um afar tæknilegt og flókið mál að ræða. Hvaða veiðiaðferðir eru skaðlegar og hvaða hlutar hafsbotnsins þarfnast verndar? Er ekki eðlilegast að allsherjarþingið geti m.a. beint því til FAO að semja tæknilegar leiðbeiningarreglur um botnfiskveiðar á úthafinu og kalla til fundar þau ríki sem stunda slíkar veiðar?