Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 16:13:39 (476)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:13]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek ábendingar síðasta hv. ræðumanns afar alvarlega og mun því stytta mál mitt eins og kostur er. Mér finnst hins vegar rétt að aðeins sé rifjað upp hver forsaga þeirra mála sem núna koma fyrir þingið er.

Frumvarp um Ríkisútvarpið hefur tvisvar verið tekið til umræðu á þinginu og fengið mjög mikla og ítarlega umræðu eins og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þekkja sérstaklega og einnig hv. 7. þm. Reykv. s., Mörður Árnason. Þeim er það ljóst að þetta mál hefur fengið mjög mikla og ítarlega umræðu hérna. Það var hins vegar í samkomulagi í vor að afgreiðslu þess var skotið á frest fram á haustið m.a. til þess að hægt væri að taka til umræðu á sama tíma fjölmiðlafrumvarpið svonefnda sem felur í sér breytingu á samkeppnislögum og útvarpslögum. Krafa stjórnarandstöðunnar síðasta vetur um að þessi mál þyrfti að ræða saman var mjög hávær, það væri algjörlega ófært að ræða um Ríkisútvarpið nema fjölmiðlalögin væru komin fram. Þegar þau voru komin fram var ekki nóg að þau væru til í þingskjali heldur þurfti líka að taka þau til umræðu á sama tíma.

Nú ber svo við að það er ekki hægt að taka þau saman, það verður að taka málin hvert í sínu lagi. Þá er einhver ákveðin regla á því í þeirra huga að eðlilegra sé að byrja á því máli sem minni umræðu hefur hlotið hér í þinginu en skjóta á frest því sem hefur fengið mikla umfjöllun, það er sett á undan sem ekki hefur fengið sömu umfjöllun. Þetta er auðvitað fundarbragðaleikfimi sem ber þess merki að menn vilja tefja fyrir afgreiðslu mála hérna og ég held að forseti hafi hárrétt fyrir sér þegar hann tekur þá ákvörðun að breyta ekki út frá þeirri röð sem hér hefur verið boðuð.