Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 16:39:26 (488)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að halda mig við fundarstjórn forseta og röð þessara mála á dagskránni sem ég tók hér upp í byrjun. Ég ætla ekki að fara út í efnisumræður eins og t.d. hv. síðasti ræðumaður, Sigurður Kári Kristjánsson, — búinn að halda hér að vísu tvær mjög athyglisverðar efnislegar ræður um þetta mál. Í þeirri fyrri gerði hann grein fyrir vinnu menntamálanefndar og breytingartillögum í einstökum atriðum. Það var mjög fróðlegt en kannski ekki beinlínis, undir liðnum um fundarstjórn forseta, það sem mest liggur á að ræða. (Gripið fram í.)

Ég hlýt líka að vekja á því athygli að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, brýtur hér blað í þingsögunni. Ég hef aldrei orðið fyrir því áður að vera sakaður um málþóf í umræðu sem er ekki hafin. Ég held að það sé algert nýmæli (Gripið fram í.) að slíkar ásakanir séu komnar upp af hálfu meiri hlutans áður en ein einasta efnislega ræða hefur verið flutt um málið. Það komu hér fram vel rökstuddar óskir um að forseti svaraði fyrir röð dagskrármála og hvers vegna ekki væri byrjað á að ræða almennu löggjöfina fyrst. Svör forseta voru þau ein að menntamálaráðherra kysi að hafa þetta svona. Það eru ekki efnisleg rök, það er ekki rökstuðningur fyrir því hvers vegna efni máls liggi þannig að það sé eðlilegra að byrja á sérlögum um Ríkisútvarpið heldur en að ræða fyrst hina almennu fjölmiðlalöggjöf. Það er í fullkomnu samræmi við afstöðu stjórnarandstöðunnar í gegnum þetta mál allan tímann. Þess vegna var óskað eftir því að fjölmiðlalöggjöfin kæmi fyrir þingið, til þess að menn hefðu hinar almennu leikreglur á borðinu áður en þeir færu að ræða um málefni Ríkisútvarpsins. Þar af leiðandi er það alveg rökrétt í samræmi við þær áherslur sem hér hafa verið hafðar uppi allt frá því á vordögum 2004 að menn nálgist hlutina með þessum hætti og fyrst séu rædd hin almennu fjölmiðlalög.

Ég hlýt líka að taka undir að það væri sjálfsögð kurteisi af hálfu forustu þingsins að hafa hér á dagskránni, þó að það væri þá 8. og síðasta dagskrármálið, frumvarp frá þingmönnum eða þingflokki sem fyrir liggur um málefni Ríkisútvarpsins. Það er nú ansi mikil þjónkun satt best að segja undir framkvæmdarvaldið að geta ekki einu sinni leyft frumkvæði þingmanna á þingmálum sem varða nákvæmlega það sem er þá á dagskrá að vera með á dagskránni. Það mundi nú ekki saka, herra forseti, að gera það.

Varðandi óskir ráðherra og númer þingskjalanna hér, sem eru nr. 56, 57 og 58, þá breytir það að sjálfsögðu engu um í hvaða röð menn geta gert samkomulag um að taka þau fyrir og það er það sem þetta snýst um. Af hverju var ekki reynt að leita samkomulags a.m.k. þó um það í hvaða röð málin kæmu til umræðu? Það er ekkert sem bannar mönnum að gera slíkt samkomulag nema ef niðurstaðan er einfaldlega sú að ráðherra vill það ekki, það á að þröngva einkavæðingu Ríkisútvarpsins í gegn fyrst og þá er ráðherra ekki að biðja um neitt samstarf, enga samvinnu, engan frið um þessi mál. Hún er að velja leið átaka og deilna og þá hefur það sínar afleiðingar.