Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 19:32:05 (516)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er komið að því að ræða frumvarp til laga um Ríkisútvarp ohf. Eins og fram hefur komið í ræðum þeirra þingmanna sem tekið hafa til máls fram að þessu er þetta þriðja rekstrarformið sem lagt er til á Ríkisútvarpinu því að það virðist vera, eins og ég hef svo sem sagt áður, sáluhjálparatriði fyrir þennan ríkisstjórnarmeirihluta að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það virðist vera meginatriði málsins en ekki hitt að gera Ríkisútvarpinu kleift að standa undir menningarlegum skyldum sínum og þeim markmiðum sem allir þeir sem hafa að rekstri Ríkisútvarpsins komið hingað til hafa viljað setja því og hafa viljað keppa að.

Það er afar miður að þetta mál skuli hafa farið í þann hnút sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur siglt því í vegna þess að Ríkisútvarpið og menningarstofnanir þjóðarinnar eiga það skilið að við á hinu háa Alþingi fjöllum um skyldur þessara menningarstofnana af víðsýni og skilningi og ekki síst að við sitjum saman við borðið og reynum að ná bestu fáanlegu niðurstöðu.

Því miður hefur því ekki verið að heilsa í þessu máli. Hér hefur óbilgirni ríkt og einstrengingsháttur, að því er ég vil meina Sjálfstæðisflokksins sem dregur þennan vagn, og Framsóknarflokkurinn hefur þurft að láta yfir sig ganga eitt og annað í málinu sem ég geri ekki ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn sé mjög ánægður með, enda hafa heyrst óánægjuraddir innan úr þeim flokki sem mér finnst skipta máli að sé hlustað á. Mér finnst eins og þingmenn Framsóknarflokksins séu að skella skollaeyrum við röddum, nokkuð áberandi röddum innan flokksins, meðal flokksmanna sinna. Ég vildi óska að það þyrftu framsóknarþingmenn ekki að gera, því að ég teldi vera mun gáfulegra að verki staðið ef við sætum hér, eins og ég sagði, saman við borðið og reyndum að skapa bestu fáanlegu niðurstöðu fyrir Ríkisútvarpið og fyrir menningu þjóðarinnar.

Frú forseti. Ég er hugsi yfir fyrstu setningunni í greinargerð frumvarpsins, þ.e. þar sem ráðherrann lýsir sjónarmiðum sínum, því að ég geri ráð fyrir að hér sé ráðherrann að tala í umræddri greinargerð sem er nokkuð löng og viðamikil. Það er ekki fyrsta setningin í greinargerðinni heldur fyrsta setningin í 2. kafla greinargerðarinnar sem fjallar um meginefni frumvarpsins.

Sú setning hljómar, með leyfi forseta:

„Helstu nýmæli með frumvarpi þessu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er ráðgert að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið …“

Meginefnið er sem sagt fólgið í því að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið. Ég verð hugsi yfir þessari setningu, ekki af því að ég skilji hana ekki heldur vegna þess að ég held að þarna sé kannski kjarni málsins í því ósætti og því sundurlyndi sem er til staðar vegna málsins. Það fer fyrir brjóstið á mér að sjá í opinberu þingskjali þá yfirlýsingu að það sé helsta markmið ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið.

Hvers vegna skyldi maður leggja niður stofnun af þessu tagi? Hefur stofnunin verið óþekk? Hefur hún verið frek á fjármuni? Hefur þar ríkt óstjórn, þarf að refsa henni? Er hún til óþurftar? Er hún slæm? Þessum spurningum, frú forseti, mundi ég öllum svara neitandi og ég vona að flestir sem í þessum sal sitja geri það líka. Stofnunin hefur ekki verið slæm. Þar hefur ekki ríkt óstjórn. Þar hafa menn reynt að gera sitt besta við afar erfiðar aðstæður. Þær hafa verið erfiðar pólitískt séð og þær hafa verið erfiðar fjárhagslega.

Ég vil meina að það fólk sem haldið hefur uppi merki þeirrar merku ríkisstofnunar áratugum saman hafi verið fórnfúsara og útsjónarsamara en margir sem starfa og farið hafa með opinbert fé. Ég er sannfærð um að þá spennitreyju sem Ríkisútvarpið er í núna fjárhagslega megi rekja fyrst og síðast til vilja eða öllu heldur skorts á vilja stjórnarflokkanna, ríkisstjórnarinnar, stjórnarmeirihlutans á Alþingi til þess að gera betur við stofnunina. Það hefur ekki verið vilji hjá stjórnarmeirihlutanum til að veita lofti undir vængi Ríkisútvarpsins og þeirra sem þar starfa. Þess vegna hefur stofnuninni verið haldið í kreppu fjársveltis. Þess vegna hefur stjórnarmeirihlutinn á Alþingi fellt mörg ár í röð tillögu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að auknir fjármunir yrðu settir í Ríkisútvarpið, fyrst og fremst til þess að auka hlut innlendrar dagskrárgerðar í efni Ríkisútvarps og sjónvarps.

Ég hef því þá kenningu, frú forseti, að hér sé sterkur vilji ríkisstjórnarmeirihlutans í þessum efnum að svelta þessa ríkisstofnun, þessa merku ríkisstofnun til hlýðni inn á þá braut sem hér er verið að fara og leggja upp með. Þetta eru ekki fögur ummæli, frú forseti, ég viðurkenni það. Þau eru afar alvarleg og þetta væru að mínu mati ekki eftirsóknarverð eftirmæli. Ég vona satt að segja, eins og ég hef vonað áður, að umræðan í þinginu geti orðið til þess að koma almennilegri hreyfingu á málið, þ.e. að grafist verði almennilega fyrir rætur þessara hluta til að þjóðinni verði það ljóst hvað það er sem að baki býr. Þegar öllu er á botninn hvolft skortir enn sannfærandi rök frá stjórnarmeirihlutanum og hæstv. menntamálaráðherra fyrir því að þær breytingar sem lagðar eru til skuli gerðar.

Hv. þm. Mörður Árnason fór afar vel yfir þetta í ræðu sinni áðan hvað það er sem borið er á borð fyrir okkur í þeim efnum en jafnframt gagnrýndi þingmaðurinn það að rökin væru ekki haldgóð og það hlyti að búa þarna meira að baki en sagt er eða látið er í veðri vaka.

Frú forseti. Það kemur upp hjá mér og örugglega miklu fleiri Íslendingum ákveðin nostalgía eða fortíðarfíkn þegar fjallað er um Ríkisútvarpið og það í afar jákvæðri merkingu þess orðs. Öll eigum við einhverjar minningar frá bernsku okkar þar sem við sátum við Ríkisútvarpið eða hlustuðum á útvarpið og það talaði til okkar og það greypti sig inn í hug okkar og hjörtu það sem sagt var. Einhvers staðar eru því rótfastar minningar frá bernskuárunum tengdar Ríkisútvarpinu sem einhver konar stólpar sem hægt var að treysta á, sem einhvers fyrirbæris sem var hluti af heimilislífinu, hluti af uppeldi manns, hluti af þeirri væntumþykju sem manni var innprentuð, hluti af þeirri menningu sem maður hefur innbyrt, hluti af alheimskúltúr. Ég er algjörlega sannfærð um að þessi hlýja sem fólk ber í garð Ríkisútvarpsins er eitthvað sem ber að varðveita og hún er eitthvað sem gæti verið í hættu, ekki bara með breyttu rekstrarformi heldur líka með breyttum tíðaranda. Ef við teljum eftirsóknarvert að skapa minningar meðal íslenskra barna sem væru ámóta og þær sem við eigum í dag, eigum við þá ekki frekar að standa vörð um það sem bjó minninguna til innra með okkur heldur en að fórna því? Mitt svar við því er jú, auðvitað eigum við að varðveita þetta sérstaka við Ríkisútvarpið. Það liggur í augum uppi með þeim breytingum sem verið er að fara út í og hér er verið að boða, að þetta sérstaka við Ríkisútvarpið gæti verið í hættu ef farið verður inn á þá braut sem hér er lagt til.

Við búum vissulega við breytta tíma. Íslensk börn alast ekki upp við sömu hluti og ég ólst upp við eða þeir sem í þessum sal sitja, allir komnir vel af barnsaldri. Það er ekki þar með sagt að þessir breyttu tímar séu endilega svo mikið betri en þeir tímar sem við hin lifðum þegar við vorum að vaxa upp og vaxa úr grasi. Það er heldur ekki þar með sagt að allt sem er að taka við af því sem var sé merkilegra eða betra en það sem áður var og það er ekki þar með sagt að við þurfum endilega að hraða eða auka á möguleika hinnar nýju tækni eða hins nýja tíðaranda að taka yfir þann gamla.

Mér hefur verið hugleikin í þessari umræðu grein sem ég rakst á í Lesbók Morgunblaðsins síðasta sumar, hún birtist þar þann 17. júní og er eftir Elfu Ýr Gylfadóttur sem var sérfræðingur útvarpsréttarnefndarinnar, þ.e. fjölmiðlanefndarinnar sem starfaði á vegum menntamálaráðherra og skilaði af sér þeirri skýrslu sem fjölmiðlafrumvarpið, sem við ræðum auðvitað líka í þessari spyrðu, gat af sér. Elfa Ýr er afar vel að sér og hefur kynnt sér mjög vel málefni fjölmiðla og hún fjallar um það í greininni á hvern hátt tíðarandinn er að breytast og á hvern hátt það kunni að vera stórum ríkisfjölmiðlum í óhag og komi sjálfstæðum einkafjölmiðlum til góða. Mig langar til að vitna aðeins til greinar Elfu Ýrar Gylfadóttur þar sem hún er að fjalla um ríkisfjölmiðla á tímamótum.

Þar segir hún, með leyfi forseta:

„Í þjóðfélagi síðnútímans“ — sem er þýðing Elfu á „póstmódernisma“ — „reyna ríkisfjölmiðlar Evrópu að finna sér nýjan farveg. Ljósvakamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum frá því ríkisfjölmiðlar voru í einokunarstöðu. Samkeppnin við einkamiðla hefur knúið ríkisfjölmiðla til að endurskilgreina hlutverk sitt, hagræða, færa sjónvarpsefni, dagskrá og efnisframleiðslu til nútímahorfs og rökstyðja tilvist sína á samkeppnismarkaði. Þeir verða að varpa af sér þungri brynju stofnanabrags þess nútíma sem skapaði þá og laga sig að síbreytilegu markaðsumhverfi upplýsingasamfélagsins. Nú er helsta einkenni á fjölmiðlamarkaði í Evrópu tvíkeppni milli ríkisfjölmiðla annars vegar og einkamiðla hins vegar.“

Ég verð hugsi yfir orðanotkuninni hér og nú tek ég það skýrt fram að ég ætla Elfu ekki neinar annarlegar hugmyndir eða hugsanir í þessum efnum. En í þeim greinum sem maður les um þessi mál nú til dags heyrir maður einmitt mjög gjarnan talað um ríkisfjölmiðla í einokunarstöðu. Maður les um að það sé lífsnauðsynlegt að ríkisfjölmiðlarnir endurskilgreini sig, þeir þurfi að hagræða, það þurfi að færa sjónvarpsefni, dagskrána eða efnisframleiðsluna til nútímahorfs. Það er talað um að þessir ríkisfjölmiðlar þurfi að varpa af sér þungri brynju stofnanabrags til að þeir geti lagað sig að síbreytilegu markaðsumhverfi upplýsingasamfélagsins. Það er svo létt og leikandi að vera í svona síbreytilegu markaðsumhverfi á meðan það er ofsalega þunglamalegt og ömurlegt að vera í brynju stofnanabrags.

Ég viðurkenni að þetta eru sjónarmið sem njóta verulegrar fylgni, þ.e. margir styðja þessi sjónarmið og telja í alvöru að ríkisstofnanir þurfi að vera svo þunglamalegar. En í allri þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og hjá öllum þeim stjórnarþingmönnum sem reynt hafa að svara spurningunni um það hvort ekki sé hægt að létta þessari þungu brynju stofnanabrags af Ríkisútvarpinu án þess að breyta því í hlutafélag hefur orðið fátt um svör. Því miður hafa menn ekki getað fundið orðum sínum stað í þessum efnum. Það hafa ekki komið fram nein sannfærandi sjónarmið um að þessi léttleiki geti ekki orðið Ríkisútvarpsins án þess að rekstrarformi stofnunarinnar verði breytt.

Ég hef tilhneigingu til að ætla eða halda að t.d. með verulega auknu fjármagni inn í innlenda dagskrárgerð mundi verða til ákveðinn léttleiki í stofnuninni. Mín kenning er sú að þetta þunglamalega yfirbragð sem menn gera athugasemdir við geti að hluta til verið því að kenna að stofnunin hefur ekki fengið það fóður eða þá viðurkenningu sem stjórnvöld höfðu eðli málsins samkvæmt átt að láta henni í té fyrir löngu. Það ætti fyrir löngu að vera búið að létta þeirri byrði af Ríkisútvarpinu að þurfa að safna skuldum og standa stöðugt í skuld við ríkissjóð. Það hefði fyrir löngu átt að vera búið að létta af því samviskubiti sem fólk hefur gagnvart því að vera þvílík byrði á ríkissjóði — ríkissjóði sem er sameign okkar landsmanna, sú uppspretta fjármuna sem við viljum nota til að styrkja og styðja við íslenska menningu. Ég held því fram fullum fetum að viljaskortur stjórnvalda til þess að efla Ríkisútvarpið í því rekstrarformi sem það er í núna hafi verið tilfinnanlegur. Viljaskorturinn hefur verið tilfinnanlegur og engin haldbær rök hafa að mínu mati komið fram sem krefja okkur um það að ganga þau svipugöng að fara inn í það að búa til þetta rekstrarform, hlutafélagaformið yfir Ríkisútvarpið.

Ég hef verið að spyrja svona í kringum mig — þegar fólk spyr hvað ég sé að gera í dag segi ég að ég sé að búa mig undir að taka þátt í umræðunni um Ríkisútvarpið ohf. Fólk hváir: Oh hvað? Ohf. Og hvað er það? Er það nokkur von þó að fólk spyrji: Er það ofurhlutafélag? Nei, það er ekki ofurhlutafélag, það er opinbert hlutafélag sem á að vísu að heyra undir upplýsingalög, sem er breyting frá því sem áður var skrifað inn í hugmyndafræði og hugmyndir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, og það ber að þakka það. Það ber sannarlega að þakka það. Það ber sannarlega að þakka þær breytingar sem hafa orðið á þessu frumvarpi í meðförum þingsins. Þær eru nokkrar. Allar hafa þær verið til bóta. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir það áðan í ræðu sinni hverjar þær eru helstar og undir það vil ég taka. En það breytir því ekki að meginröksemdirnar, þ.e. meginmál frumvarpsins, það að leggja eigi niður ríkisstofnunina Ríkisútvarp og stofna hlutafélag um reksturinn, hafa ekki verið rökstuddar að mínu mati á fullnægjandi hátt af þeim sem hér draga vagninn.

Það hefur auðvitað líka verið óhönduglega að verki staðið hjá stjórnarmeirihlutanum við það að knýja fram þær breytingar sem hér eru lagðar til. Fyrr í dag voru ræddar samfélagslegar skyldur okkar gagnvart fátæku fólki. Mér fyndist að umræða af því tagi, þ.e. um samfélagslegar skyldur okkar gagnvart menningunni og gagnvart starfsfólki í opinberri þágu og opinberri þjónustu, þyrfti að fara fram í tengslum við umræður um þetta frumvarp. Við höfum reynt að taka þá þætti inn í umræðuna í þau fyrri skipti sem við höfum fjallað um Ríkisútvarpið og mögulegar breytingar á rekstrarformi þess fram að þessu. Þar hafa skoðanaskiptin geigað og okkur hefur gengið afar illa að skiptast á skoðunum við stjórnarmeirihlutann um slík mál.

Hægri sinnuð stjórnvöld hafa að mínu mati, þau hægri sinnuðu stjórnvöld sem við búum hér við, gert í því að gera Ríkisútvarpinu erfitt fyrir, gera það þunglamalegt í augum þjóðarinnar, búa til í kringum það áru steinrunninnar ríkisstofnunar í því augnamiði að fá þjóðina, og þess vegna starfsfólkið og okkur hér, með á þennan vagn, það muni létta svo rosalega mikið á þessari þunglamalegu ríkisstofnun að fá hlutafélagaformið af himnum sent. Mér finnst ótrúverðugt, frú forseti, að ekki sé hægt að létta undir með Ríkisútvarpinu og gera fólki sem þar starfar lífið auðveldara án þess að farið sé út í þær breytingar sem hér eru lagðar til varðandi rekstrarformið.

Ekki hefur einasta verið alið á því að hér sé um þunglamalega ríkisstofnun að ræða heldur hefur líka verið gert í því að mínu mati að koma óorði á afnotagjöldin. Um þau hefur verið talað á afar neikvæðan hátt sem skylduáskrift. Það er skylduáskrift að ríkismiðlinum. Þvílíkt og annað eins. Það er þvílík byrði að þurfa að dragnast með þessa skylduáskrift. Jafnvel þeir sem aldrei horfa á Ríkissjónvarpið þurfa að borga skylduáskrift. Stjórnvöld hafa ekki verið að hjálpa neitt til í þeim efnum að létta þessum neikvæða blæ, þessu neikvæða orðspori af afnotagjöldunum. Öðru nær. Þau hafa farið með í þennan leiðangur, að gera fólk meðvitað óánægt með afnotagjöldin, og nú kemur hæstv. menntamálaráðherra með þá lausn að leggja nefskatt á þjóðina.

Engin rök hafa verið færð fram í þessum sal fyrir því að nefskattur verði svo miklu vinsælli en afnotagjöld, engin rök. Og það eru auðvitað ekki til nein rök fyrir því að nefskatturinn verði svo miklu vinsælli en afnotagjöld. Er eitthvað sem kemur í veg fyrir að nefskatturinn fái á sig orðspor skylduáskriftar? Það er ekkert því til fyrirstöðu. Það er meira að segja mjög líklegt að það komi mjög fljótt. Reyndar hefur okkur í menntamálanefnd verið bent á ýmsar vísbendingar um að nefskatturinn sé, þar sem hann hefur verið við lýði, ekki síður óvinsæll og jafnvel óvinsælli en dæmigerð afnotagjöld. Hvers vegna gæti það verið? Jú, í mínum huga eru afnotagjöldin þess eðlis að fólk finnur fyrir því á eigin skinni og í eigin buddu, í eigin reikningi, í hverjum mánuði að það er að greiða til Ríkisútvarpsins ákveðna prósentu sem gerir því kleift að samsama sig í Ríkisútvarpinu og fá mánaðarlega staðfestingu á því að það eigi eitthvað í því. Við, þjóðin, eigum Ríkisútvarpið og við finnum fyrir því gegnum afnotagjöldin.

Mér finnst afnotagjaldastofninn heilbrigð leið til að afla tekna fyrir dagskrárgerð Ríkisútvarps og sjónvarps. Mér finnst það leið sem gerir þjóðina meðvitaða um þá ábyrgð sem hún ber gagnvart Ríkisútvarpinu og um það á hvern hátt Ríkisútvarpið á að standa undir þeirri ábyrgð. Þjóðin getur sem sagt í gegnum afnotagjöldin auðveldlega fundið að hún getur gert kröfur til stofnunarinnar, hún á hana. Ég óttast að þessi tengsl rofni þegar við erum farin að greiða nefskatt sem við finnum fyrir á annan hátt. Þá er það bara inni í skattahítinni, inni í skattframtalinu, og við getum öll verið neikvæð út í skattana og allt það, agnúast út í þá — þó að ég sé þeirrar skoðunar að þeir sem hafa vinnu eigi að vera stoltir af því að geta borgað skatta, þeir eru þá ekki atvinnulausir á meðan. Á sama hátt er ég sannfærð um að stærstur hluti þjóðarinnar, ef hann yrði spurður, fyndi fyrir þessum tengslum milli sín og Ríkisútvarpsins.

Nú er ekki þar með sagt, frú forseti, að ég hafi alltaf verið afskaplega ánægð með allt sem hefur gerst innan Ríkisútvarpsins eða að ég telji að þar megi ekki færa hluti til betri vegar. Það er ekki svo. Ríkisútvarpið getur auðvitað gert margt til að færast nær nútímanum eða ganga í endurnýjun lífdaga. Það má blása miklu lífi í þessa stofnun eins og allar stofnanir. Það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að sjá til þess að sá jarðvegur sé til staðar sem gerir stofnunum kleift að njóta sín.

Ég hef fylgst vel með frá því að samkeppni var innleidd á fjölmiðlamarkaði og kannski eitt orð um það. Mér þykir alltaf fremur miður og hvimleitt þegar menn tala um að frelsi hafi verið innleitt á fjölmiðlamarkaði. Það eru í mínum huga mikil öfugmæli að þegar einkaaðilum var heimilaður útvarps- og sjónvarpsrekstur — sem mér þótti sjálfsagt mál og hefur alltaf þótt sjálfsagt mál að eigi að vera til staðar — hafi upphafist frelsi, að frelsi hafi verið innleitt á fjölmiðlamarkaði. Ég er ekki búin að skanna greinargerð þess frumvarps sem hér liggur fyrir til að athuga hvort orðinu „frelsi“ bregði fyrir í þeim texta. En það er allt of oft að mínu mati að við fáum setningu af því tagi að frelsi hafi verið innleitt á fjölmiðlamarkaði þegar einkaaðilar fengu heimild til að reka fjölmiðil — eins og við höfum verið svo rosalega ófrjáls með Ríkisútvarpið á þeim tíma. Það eru mikil öfugmæli og því ekki rétt að mínu mati að tala þannig um hlutina og enn ein aðferð kannski sem þeir sem vilja gera þjóðina óánægða með Ríkisútvarpið beita til að ala á þeirri óánægju.

Ég hef ekki verið sátt við útvarpsráð heldur. Ég stend að frumvarpi sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja og hafa lagt fram. Þetta er sennilega þriðja árið sem við leggjum það fram. Þar gerum við ráð fyrir að hægt sé að breyta Ríkisútvarpinu innan þess ramma sem stofnunin býr við og innan þeirra laga sem hún býr við í dag, þ.e. að ekki þurfi að breyta henni úr ríkisstofnun í hlutafélag til þess að aflétta pólitískum afskiptum útvarpsráðs af mannaráðningum eða dagskrá eða íhlutun í innri mál Ríkisútvarpsins. Það er í okkar huga hægt að fara mjög skapandi leiðir í þeim efnum að búa til útvarpsráð og yfirstjórn yfir þessa skapandi stofnun sem yrði í meiri sátt við tíðarandann og kannski óskir og þarfir þjóðarinnar og ekki síst óskir og þarfir starfsfólksins heldur en það útvarpsráð sem hefur verið til staðar samkvæmt núgildandi lögum. En þó svo þessu útvarpsráði, sem við höfum búið við hingað til, verði sagt upp og það aflagt er ekki þar með sagt að útvarpsstjóranum, einvaldinum sem samkvæmt þessu frumvarpi á að ráða yfir stofnunina, takist eitthvað betur til. Eins og bent hefur verið á má færa rök að því að þessi útvarpsstjóri sé ráðinn pólitískri ráðningu því það er hæstv. menntamálaráðherra, sem eðli málsins samkvæmt er pólitískur fram í fingurgóma, að skipa það fólk sem ræður útvarpsstjórann. Ég held því að það sé ákveðin hætta á ferðum sem tryggi ekki breiða og skapandi stjórn eins og þær hugmyndir sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram.

Við teljum það vera stofnuninni og hlutverki hennar til góða að hafa breiða stjórn sem gæti ólíkra sjónarmiða, ólíkra og breiðra hagsmuna sem eiga rætur í samfélaginu öllu, menningarsamfélaginu, atvinnusamfélaginu og hinu pólitíska samfélagi. Því þegar fólk er sett niður við sama borð og það á að koma sér saman um, þó það séu margir, meginatriði varðandi svona öfluga stofnun eins og Ríkisútvarpið er sem hefur svo miklu menningarhlutverki að gegna, þá eigi það og sé það eðli málsins samkvæmt gefandi að starfa í slíkri stjórn. Alveg eins og við sem störfum í pólitík teljum að það sé og eigi að vera gefandi að starfa í pólitík þó að við í stjórnarandstöðunni óskum þess oft að stjórnarmeirihlutinn sýni meiri víðsýni og meiri vilja til samtals og samráðs við stjórnarandstöðuna en raun ber vitni. Af því við teljum að samtalið á milli andstæðra fylkinga geti verið skapandi.

En það þarf þá að vera vilji til að ná sameiginlegri niðurstöðu og þann vilja hefur skort í þessu máli hjá stjórnvöldum, tilfinnanlega. Ég verð að segja að mér þykir það mjög miður því ég er sannfærð um að ef við hefðum ákveðið að setjast niður við sama borð, þessar fylkingar sem við höfum skipað okkur í í þessum sal í málinu, hefði verið hægt að ná farsælli niðurstöðu ef menn hefðu lagt af þennan einbeitta vilja sem ekkert virðist ætla að hagga, þ.e. að ekkert sé hægt að gera fyrir Ríkisútvarpið nema breyta því í hlutafélag.

Frú forseti. Á það hefur verið bent í umræðunni að stjórnarmeirihlutinn tali tveimur tungum. Hefur það verið rifjað upp að meira að segja hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, hafi flutt þingmál á sínum tíma sem gerði ráð fyrir að Ríkisútvarpið yrði selt. Það er mjög eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn og stjórnarþingmenn séu gagnrýndir fyrir að tala tveimur tungum í þessu máli því Sjálfstæðisflokknum hefur verið legið á hálsi fyrir það og talsmönnum þessa frumvarps, að undir þessari rekstrarformsbreytingu liggi ásetningur um að selja Ríkisútvarpið. Þetta hafa sjálfstæðismenn og hæstv. menntamálaráðherra ævinlega svarið af sér hátt og skýrt. Það er ekki af því að við höfum ekki heyrt þær yfirlýsingar sem hafa komið héðan úr þessum stóli og frá fjölmiðlum og víðar varðandi þetta atriði, heldur treystum við ekki orðum stjórnarliða eða hæstv. menntamálaráðherra þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar. Hvers vegna treystum við ekki Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum? Jú, ósköp einfaldlega vegna þess að sporin hræða.

Það var svarið hér og sárt við lagt úr þessum ræðustóli og í fjölmiðlum og öllum þeim póstum sem hefur verið svarið og sárt við lagt að Ríkisútvarpið yrði ekki selt, að Síminn yrði ekki seldur þegar hann var hlutafélagavæddur. Svo þekkja allir sem eru í þessum sal eftirleikinn í þeim efnum og þjóðin þekkir eftirleikinn. Má ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hún sé ánægð með þá niðurstöðu sem sala Símans hefur fært okkur og fært þjóðinni. Nú er fyrirtækið á markaði með grunnnetið, bitbein sjálfstæðu fyrirtækjanna sem eru að keppa við Símann. Það var auðvitað ekki við það komandi að stjórnarmeirihlutinn færi inn á það spor sem hér var reynt að koma þeim inn á, að aðskilja grunnnetið og tryggja að það væri í almannaeigu, áfram í þjóðareigu, enda hluti af mikilvægri almannaþjónustu, alveg á sama hátt og Ríkisútvarpið og framleiðsla þess á menningarefni og tengsl Ríkisútvarpsins við þjóðina eru hluti af mikilvægri almannaþjónustu, og hafa þess vegna að mínu mati ekkert að gera í hlutafélagaformið.

Ef við með því erum að opna á möguleikana á að ríkisstjórn, ekki þessi ríkisstjórn — ég er ekki að segja að þessi ríkisstjórn komi til með að ætla að selja Ríkisútvarpið, ég trúi hæstv. menntamálaráðherra þegar hún segir að núverandi stjórnvöld hafi ekki í hyggju að selja Ríkisútvarpið. En þessi hæstv. menntamálaráðherra verður ekki í ríkisstjórn alltaf og kannski ekki bara á næsta kjörtímabili. Ég vil reyndar leyfa mér að segja vonandi ekki á næsta kjörtímabili, en það er nú af öðrum ástæðum.

Hins vegar tel ég verulega hættu á að þannig innréttuð stjórnvöld eftir eitt kjörtímabil, tvö eða þrjú gætu mjög auðveldlega ákveðið að selja Ríkisútvarpið og þessi gjörningur mundi auðvelda það. Þess vegna segi ég úr þessum ræðustóli: Ég vara við því að þjóðin og þingmenn styðji þessi áform því það auðveldar þeim stjórnvöldum sem það vilja að selja Ríkisútvarpið þegar þar að kemur, þegar það dettur í menn.

Það kann að vera, frú forseti, að þess verði ekki langt að bíða. Það kann að gerast fyrr en varir að slík stjórnvöld komist til valda. Það segir líka sína sögu að ákveðnir sjálfstæðismenn hafa tekið upp hanskann fyrir þau sjónarmið sem ég og við í stjórnarandstöðunni tölum fyrir. Það var athyglisvert þegar Fréttablaðið birti leiðara í apríl í vor þegar Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, velti upp spurningu um þá menningarstefnu sem lægi að baki þeim tillögum um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins og sagði í leiðaranum, með leyfi forseta:

„… að eini sjálfstæði tilgangur ríkisútvarps er menningarlegt hlutverk þess. … En að uppistöðu til hefur rekstur Rásar 2 og sjónvarpsins verið markaðsvara sem deila má um hvort er betri eða verri en einkarekin fyrirtæki á þessu sviði hafa boðið upp á.“

Síðar í leiðaranum segir Þorsteinn Pálsson:

„Annaðhvort er undirbúningurinn í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform að reka hér menningarútvarp og sjónvarp …“

Hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, svaraði því til í frétt í NFS 5. apríl 2006 að hún væri algerlega ósammála Þorsteini Pálssyni hvað þetta varðaði og sagði að maður yrði auðvitað að hafa í huga að þarna talaði og skrifaði ritstjóri fjölmiðlasamsteypu sem væri í mikilli samkeppni, m.a. við Ríkisútvarpið.

Þetta segir okkur talsvert um hvað er í sjálfu sér langt í land að ná um þessi áform sátt og niðurstöðu. Ég hefði haldið að hér hefði mátt standa betur að verki heldur en gert hefur verið.

Mér hefur líka fundist athyglisvert að rifja upp leiðara úr Morgunblaðinu frá því 7. desember 2005 og ég hef kannski vitnað í þennan leiðara áður úr þessum ræðustóli. En í þeim leiðara fullyrðir leiðarahöfundur að Morgunblaðið hafi aldrei verið í þeim hópi sem vilji einkavæða Ríkisútvarpið þótt blaðið hafi hins vegar lýst þeirri skoðun að rétt væri að selja Rás 2 og ríkið ætti ekki að vera í samkeppni við aðrar afþreyingarstöðvar á sviði hljóðvarps.

Það er auðvitað ekki óeðlilegt að hér komi upp umræðan um Rás 2 sem margir vilja telja að sé eingöngu samkeppnismiðill við stöðvar á hinum opna markaði þó svo ég sé því fullkomlega ósammála og hafi rökstutt það mál mitt með því að Rás 2 hafi verulegu hlutverki að gegna varðandi nýja íslenska tónlist sem eðlilegt sé að ríkisútvarp sinni. Ég minnist þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi tekið undir þau sjónarmið mín.

Ég hefði líka talið eðlilegt að það ætti að efla Ríkisútvarpið á sviði íþróttanna. Ég teldi það mjög athugandi að Ríkisútvarpið eigi möguleika á að opna sjálfstæða íþróttarás. Í mínu tilfelli er það ekki af því að ég hafi svo mikinn áhuga á íþróttum heldur vegna þess að ég hef svo mikinn áhuga á að horfa á eitthvað annan en íþróttir í sjónvarpinu og finnst sá tími sem þær taka upp frá almennri sjónvarpsdagskrá allt of dýrmætur. Ég teldi full efni standa til þess að þjóð sem telur ekki nema um 300.000 manns reki ríkisfjölmiðil sem hefur ráð á að búa til sjálfstæða íþróttarás. Ég tel líka að ríkisfjölmiðill á borð við Ríkisútvarpið eigi að senda beint frá fundum Alþingis á sérstakri útvarpsrás. Þannig að fólk sem hefur tök á að hlusta í dagsins önn geti hlustað á útsendingar á útvarpsrás frá fundum Alþingis. Það sé ekki nóg að senda það út eins og gert er núna í hléi á milli dagskráratriða um miðjan daginn í sjónvarpinu eða fyrir þá sem hafa aðgang á breiðbandinu, því það eru ekki allir sem hafa tök á að fylgjast með fundunum í sjónvarpi en hefðu kannski gaman af að gera það í útvarpi.

Þingmál liggur frammi í sölum Alþingis um þetta sem Frjálslyndi flokkurinn á frumkvæði að og ég hef fengið að vera meðflutningsmaður að því á þessu þingi. Ég hefði talið að það væri eitt af þeim málum sem hefði átt að ræða í spyrðu í umræðu um Ríkisútvarpið, hlutverk þess og möguleika. En eins og kom fram í umræðunni um fundarstjórn forseta áður en þessi umræða hófst var ekki vilji til að taka önnur frumvörp sem varða málefni Ríkisútvarpsins inn í umræðuna.

Svo í lokin og af því ég var með opinn leiðara úr Morgunblaðinu frá 7. desember vil ég taka fram að ritstjóri Morgunblaðsins eða leiðarahöfundur tekur undir þau sjónarmið sem ég talaði um áðan varðandi útvarpsstjórann og hversu valdamikill hann gæti orðið. Ég leyfi mér að halda að þar séu sjónarmið uppi sem hæstv. menntamálaráðherra ætti að íhuga og leggja við hlustir því þar talar jú einstaklingur sem er á hennar eigin bandi pólitískt.

Ég læt fyrri ræðu minni lokið og lýsi því yfir að ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá með seinni ræðu.