Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 20:16:53 (520)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:16]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir gott að heyra það og vita að Framsóknarflokkurinn treystir fólki. Ég geri það líka. Ég held að við höfum öll innbyggða þá tilhneigingu að vilja treysta fólki. Þess vegna og einmitt þess vegna hefði ég viljað að við öll í þessum sal, ólík sem við erum, með ólík pólitísk sjónarmið, hefðum sest saman yfir það verkefni að hjálpa Ríkisútvarpinu að ganga í endurnýjun lífdaga. Við hefðum ekki náð sátt um hlutafélagaformið en við hefðum kannski náð sátt um að stofnunin fengi loft í vængina af því að við treystum fólki.

En Sjálfstæðisflokkurinn treysti okkur ekki til að setjast yfir þetta mál. Sjálfstæðisflokkurinn treysti ekki þeim ólíku sjónarmiðum sem eru í þessum sal fyrir því verkefni að búa til umgjörð eða jarðveg fyrir Ríkisútvarpið þar sem það gæti blómstrað. Það er mergurinn málsins. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ekki treystir fólkinu.

Hverjir hafa klifað á því að það eigi að selja Ríkisútvarpið? Það eru sjálfstæðismenn, ekki hvað síst ungir sjálfstæðismenn. Ályktun eftir ályktun hefur verið samþykkt hjá SUS og Heimdalli um að selja eigi Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Margir SUS-ararnir eru orðnir fullorðnir núna og komnir í eldri deildina. Einhvers staðar blundar enn með því fólki sá vilji að selja Ríkisútvarpið í fyllingu tímans. Þetta er skref í þá átt. Framsóknarflokkurinn verður að fara að opna augu sín fyrir því. Það er þó sennilega of seint. Já, sennilega er það of seint. En þjóðin á möguleika á að opna augu sín fyrir því og þá á þjóðin þann möguleika að kjósa aðra ráðamenn í ráðherrastólana í næstu alþingiskosningum. Það er ekki svo langt í þær. Stjórnarandstaðan er tilbúin.