Ríkisútvarpið ohf.

Þriðjudaginn 17. október 2006, kl. 16:40:22 (593)


133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hefur ríkt víðtæk sátt um Ríkisútvarpið. Þó er það svo að ýmsir, ekki síst úr pólitískum ranni hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, hafa mótmælt því að fjármagna opinbera stofnun í heimi fjölmiðlanna. Telur hv. þingmaður að víðtækari sátt verði um nefskatt til stofnunar sem hefur verið fjarlægð þjóðinni með þessum nýju lögum? Telur hv. þingmaður að víðtæk sátt verði um nefskattinn? Er hann mjög eindreginn og sannfærður talsmaður nefskatts til að fjármagna Ríkisútvarpið?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hann réttlæti pólitíska stjórn yfir stofnuninni sem endurspeglar stjórnarmeirihlutann hverju sinni, sem fær það hlutverk að ráða alvald yfir mannahaldi og allri dagskrárgerð og er síðan háður þessari pólitísku stjórn að því leyti að hún getur einnig rekið hann. Finnst honum þetta vera eðlilegir og lýðræðislegir stjórnarhættir? Ég óska eftir svörum við þessum spurningum.