Ríkisútvarpið ohf.

Þriðjudaginn 17. október 2006, kl. 16:54:02 (602)


133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:54]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nánast hlægilegt að Sigurður Kári Kristjánsson, hv. formaður menntamálanefndar, komi í stólinn hvað eftir annað og rífi af sér sáttarhendurnar og kasti þeim um salinn eins og hver annar aumingi. Staðreyndin er sú að aldrei hefur verið boðið upp á neina sátt í þessu máli. Það var komið með þetta frumvarp inn í þingið í hittiðfyrra án nokkurs samráðs við nokkurn mann. Það þurfti að pressa til að fá að vita hverjir hefðu samið það. Það kom í ljós að það voru tveir lögfræðingar úti í bæ sem höfðu að vísu ágætt vit á fyrirtækjarekstri en ekki hundsvit á fjölmiðlarekstri. Það hefur ekki verið boðið upp á eina einustu sátt í þessu máli.

Við og aðrir í samfélaginu höfum bent á stóra galla í málinu. Það hefur komið fyrir að annaðhvort menntamálaráðherra á sumrin eða menntamálanefndarformaðurinn og meiri hluti hans á veturna hafa tekið eitthvert mark á því. Það má t.d. segja um safnefnið og fleira af því tagi.

Auðvitað benti sjálft Evrópusambandið á hinn stærsta galla í þessu frumvarpi í fyrstu gerð þess og er vonandi enn að. Því það hefur blessunarlega haft vit fyrir íslenskum stjórnvöldum upp á síðkastið.

Nú skal gerð sú mikla undantekning að í vor var vissulega rétt fram ein sáttarhönd. Þá féllst sem sagt meiri hluti menntamálanefndar á þau rök okkar, eitt af þremur aðalatriðunum í málflutningi okkar fyrir utan málefni starfsmanna og fjármögnunina, að upplýsingalög þyrftu að gilda í slíku fyrirtæki, ef taka ætti eitthvert minnsta mark á því að þetta væri eitthvað annað en fyrirtæki sem væri verið að leiða til slátrunar í söluáformum.

Um hin atriðin hefur aldrei verið boðin nein sátt. Um hlutafélagsformið hefur aldrei verið nein sátt. Það hefur verið sine qua non, án þess ekkert. Og um stjórnkerfi sem gerir ráð fyrir áframhaldandi ósjálfstæði og pólitískri undirokun útvarpsins og er varin með hlutafélagsforminu (Forseti hringir.) hefur heldur aldrei verið nein sátt eða boðin.