Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 19. október 2006, kl. 13:51:56 (741)


133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

almenn hegningarlög.

20. mál
[13:51]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Frumvarpið er samið að frumkvæði mínu af Ragnheiði Bragadóttur prófessor og felur í sér endurskoðun á ákvæðum laganna um eftirtalin brot: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, kynferðisbrot gegn börnum og vændi.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi í kjölfar kynningar bæði á heimasíðu ráðuneytisins og umræðu í málstofu í Háskóla Íslands. Frumvarpið er nú lagt fram óbreytt og er það von mín að það verði samþykkt á Alþingi á þessu löggjafarþingi. Ég mun því ekki hafa framsöguræðu mína langa því að ég tel að þingmönnum sé vel ljóst hvað í frumvarpinu felst.

Helstu nýmælin eru:

Lagt er til að hugtakið nauðgun verði rýmkað mjög frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að önnur kynferðisnauðung og misnotkun á bágu andlegu ástandi og því að þolandinn getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans teljist nauðgun. Við það munu brot þessi varða mun þyngri refsingu en nú er, eða fangelsi frá einu ári og allt að 16 árum í stað fangelsis allt að sex árum.

Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um nokkur atriði sem verka skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir nauðgun. Eitt þeirra er ungur aldur þolenda.

Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni.

Í þriðja lagi að refsing fyrir samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára verði þyngd og verði refsimörkin hin sömu og fyrir nauðgun, þ.e. fangelsi frá einu ári og allt að 16 árum. Með því er lögð áhersla á hve alvarleg þessi brot eru þegar þau beinast gegn börnum og tel ég þá nauðgun og kynmök við börn yngri en 14 ára alvarlegustu kynferðisbrotin í stað nauðgunar einnar áður.

Í fjórða lagi að lögfest verði ákvæði um heimild til refsilækkunar eða refsibrottfalls ef sá sem gerist sekur um samræði eða önnur kynferðismök gagnvart barni yngra en 14 ára er sjálfur á svipuðum aldri og þroskastigi og barnið.

Í fimmta lagi að upphaf fyrningarfrests kynferðisbrota miðist við 18 ára aldur brotaþola en ekki 14 ára eins og nú er. Refsihámark fyrir kynferðislega áreitni gegn börnum verði hækkað þannig að brot gegn yngstu börnunum munu fyrnast á lengri tíma en samkvæmt núgildandi lögum.

Í sjötta lagi að ákvæði 1. mgr. 206. gr. um refsingu fyrir að stunda vændi sér til framfærslu falli niður. Þess í stað verði lögfest ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.