Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 19. október 2006, kl. 13:54:41 (742)


133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

almenn hegningarlög.

20. mál
[13:54]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú hefur hæstv. dómsmálaráðherra mælt að nýju fyrir frumvarpi um breyting á almennum hegningarlögum og varðar málið fyrst og fremst kynferðisbrot. Þetta er ekki nýtt af nálinni og ég veit að mjög spennandi tímar eru fram undan í hv. allsherjarnefnd við að fara í gegnum það. Líka vil ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir afar gott vinnulag í málinu, þ.e. að standa fyrir umræðum, fá umsagnir í gegnum netið og annað til að styðja það besta í málinu og sjá í rauninni hvar mætti gera betur. Ég vil því fagna þessu nýja vinnulagi.

Ég veit að frumvarpið mun klárast hjá okkur í hv. allsherjarnefnd og í rauninni er allt gott í þessu frumvarpi. Auðvitað er það svo að sumir vilja ganga aðeins lengra í vissum málum, t.d. um fyrningarfrestinn í kynferðisafbrotum, hvort hann eigi að vera þannig að enginn fyrningarfrestur sé. Jafnframt þekkjum við öll umræðuna um sænsku leiðina varðandi vændið. Það munum við ræða í hv. allsherjarnefnd og kalla til sérfræðinga og fá skýrslur.

Ég er mjög ánægð með að ekki sé lengur brotlegt að selja líkama sinn því það er í rauninni fyrst og fremst félagslegur vandi sem á að mæta með félagslegum úrræðum. Því fagna ég mjög að við skulum vera komin þangað. Ég hef alla tíð talað fyrir því að þetta yrði tekið úr hegningarlögunum.

Það er gríðarlega margt sem er gott í frumvarpinu. Ég vil minnast á t.d. kynferðislega misnotkun varðandi einstaklinga í bágu ástandi. Ég hef unnið mjög lengi meðal fatlaðra og auðvitað hafa komið upp tilfelli á slíkum stofnunum. Gerðar hafa verið um það skýrslur, sem eru trúnaðarmál, en auðvitað hefur þetta gerst hér eins og alls staðar annars staðar í heiminum. Þessi mál eru því mjög vandmeðfarin og mjög mikilvægt að þyngja allar refsingar í slíkum tilfellum.

Mér finnst líka afar jákvætt að kynfrelsi fólks sé virt. Nauðgun er mjög alvarlegur glæpur og mjög alvarlegt mál og tekið er á því í frumvarpinu. Í því er falin ákveðin virðing við þá sem í því lenda.

Ég hef tekið það upp margoft á Alþingi í sambandi við vændið að við megum ekki gleyma ungu drengjunum sem lenda í því. Við munum reyna að halda þeirri umræðu dálítið til haga í nefndinni til að tryggja að málefni ungra drengja í nauðgunarmálum séu líka uppi á yfirborðinu, þó svo að í 99% tilfella séum við yfirleitt að tala um konur. Ég er því mjög ánægð með að við séum ekki alveg að fara aftur með því að kynleysa, þ.e. að tala um karla og konur í sama vetfangi, það er afar brýnt.

Ég tel einnig afar mikilvægt að setja inn, og spurning hvort það yrði þá gert í greinargerð eða í nefndaráliti, þennan gríðarlega mikilvæga stuðning við það unga fólk sem gerist brotlegt gagnvart enn yngri börnum. Þá er ég að hugsa um hlutverk Barnaverndarstofu, sem er gríðarlega mikilvægt þar. Slík mál koma til kasta hennar þar sem þau ungmenni eru send eða fá meðferð í gegnum þær stofnanir sem á hennar vegum eru. Við þurfum einmitt að ræða hvort við verðum ekki að fastsetja meðferðina í lögum.

Að fyrningarfresturinn miðist við 18 ára aldur en ekki 14 ára eins og er í lögunum — við þekkjum umræðuna um hvort yfir höfuð eigi að vera fyrningarfrestur í mjög alvarlegum kynferðismisnotkunarmálum og sifjaspellsmálum. Þetta er umræða sem við munum taka og ég bendi í því sambandi á undirskriftasöfnun hjá samtökunum Blátt áfram. Þetta eru hópar sem við þurfum að styrkja með öllum þeim ráðum sem okkur eru möguleg.

Ég lít svo á að ég þurfi ekki að setja á langa ræðu. Þetta er afar spennandi og brýnt mál, alvarlegt eins og ég sagði, og við þurfum að gera það vel. Ég veit að hv. allsherjarnefnd mun gera það og við gerum þá ekki annað en að koma með breytingartillögur um það sem okkur finnst ganga of skammt. En ég vil fagna frumvarpinu enn einu sinni.