Kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun

Miðvikudaginn 01. nóvember 2006, kl. 13:32:00 (799)


133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:32]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi fá að nota tækifærið í upphafi þingfundar og inna hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra eftir því sem við höfum fregnað í morgun að ríkið hafi keypt hluta Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun, en sem kunnugt er hefur þetta stóra mál lengi verið í deiglunni. Hér virðast vera á ferðinni algjör reyfarakaup af hálfu ríkisins, því að Reykjavíkurborg og Akureyri fá aðeins 30 milljarða fyrir sinn hlut. Sérstaka athygli vekur að í samningnum virðist vera ákvæði um að ef ríkisvaldið selji Landsvirkjun öðrum aðila muni seljendurnir njóta góðs af því. Það hlýtur að vekja spurningar hjá okkur í þinginu hvort eitthvað slíkt standi til af hálfu iðnaðarráðherra, að selja Landsvirkjun til einkaaðila, fyrst þetta ákvæði er inni og hvort hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra telur yfir höfuð að það komi til greina að selja einkaaðilum það sem nú er orðið ríkisins eign, Landsvirkjun.

Sömuleiðis hljótum við að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort það komi til álita að renna saman við Landsvirkjun Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins og skapa þannig algeran einokunaraðila nánast á öllum sviðum raforkuframleiðslunnar í landinu eða hvort iðnaðarráðherra telur ekki nauðsynlegt að skapa einhverjar samkeppnisaðstæður á þessum markaði, og með hvaða hætti hann sér skipan raforkumála fyrir sér nú þegar ríkið er orðið nær allsráðandi á þessum markaði með því að eiga algerlega Landsvirkjum. Við hljótum líka að spyrja hvort ábyrgðum sé þá létt af Reykvíkingum vegna Kárahnjúkavirkjunar með því samkomulagi sem nú hefur verið gert um kaup ríkisins á Landsvirkjun eða hvort Reykvíkingar sitji eftir sem áður í tvöfaldri ábyrgð fyrir Kárahnjúkavirkjun, annars vegar í gegnum ríkisvaldið og hins vegar í gegnum borgina. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra.