Kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun

Miðvikudaginn 01. nóvember 2006, kl. 13:40:27 (803)


133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað lýst því yfir að hún sé andvíg því að verið sé að versla eða selja hluti Reykjavíkur eða Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur verið þannig félagsleg eign í opinberri eigu ríkis og þessara sveitarfélaga. Eignamyndun af hálfu Reykjavíkurborgar eða Akureyrar hefur verið með þeim sérstæða hætti að það hefur nánast gerst af sjálfu sér án þess að þessir aðilar hafi beint lagt þar mikið fjármagn til. Í raun var aðeins um eignarform að ræða af hálfu þjóðarinnar allrar. Þessu á nú að fara að breyta. Það er ekki sanngjarnt gagnvart íbúum landsins að þetta sé framkvæmt með þessum hætti.

Í öðru lagi hefur það ítrekað komið fram á Alþingi í umræðum fyrr bæði í fyrra og hittiðfyrra um einkavæðingu í raforkukerfinu að einn liður í því væri að ríkið næði til sín hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun þannig að þá opnaðist leið til að einkavæða og selja fyrirtækið. Fyrr væri ekki hægt að taka það á dagskrá. Það er marklítið þó að hæstv. núverandi iðnaðarráðherra segi að ekki standi til að selja fyrirtækið. Það má vel vera að það standi ekki til á morgun. En hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins lýstu því yfir hér bæði í fyrra og hittiðfyrra að það væri í sjálfu sér áform þeirra til framtíðar litið að einkavæða og selja fyrirtækið. Sá vilji hefur því verið ljós. Við erum þess vegna að stíga skref í enn þá frekari einkavæðingu raforkugeirans nákvæmlega hliðstætt og þegar við fórum í gang með Símann. Landssíminn var einkavæddur, Landssíminn var hlutafélagavæddur undir yfirlýsingu um að hann yrði aldrei seldur en var svo seldur nokkrum árum seinna. Við erum að fara inn á sömu braut hér. Þetta er hættuleg braut, þetta er röng braut og aðferðafræðin öll til skammar (Forseti hringir.) varðandi þennan málatilbúnað allan. Við þurfum að koma í veg fyrir að þetta gerist, frú forseti.