Útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög

Fimmtudaginn 02. nóvember 2006, kl. 15:06:15 (896)


133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:06]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og fulltrúi okkar flokks í nefndinni sem samdi skýrsluna sem þetta frumvarp á rætur til að rekja fór yfir frumvarpið áðan og ég hef ekki miklu við það að bæta. Ég vil þó, vegna þess að ég verð væntanlega einn af þeim samfylkingarmönnum sem fer yfir frumvarpið í menntamálanaefnd, bæta nokkrum atriðum við sem þörf er á að nefna.

Í umræðunni, sem ég hef ekki átt kost á að fylgjast með að öllu leyti, hafa menn eðlilega nefnt forsögu málsins. Ég get ekki rakið hana að fullu, þótt vert væri, á þeim tíma sem ég hef til ráðstöfunar. En frumvarpið sem nú liggur fyrir sýnir árangurinn af feikilegri vinnu eða baráttu okkar samfylkingarmanna og annarra stjórnarandstæðinga á þinginu og fjölda fólks í kringum fjölmiðlana á landinu, þjóðarhreyfingarinnar sem spratt upp í þessu máli og þess vilja sem allur almenningur lét í ljós þegar fjölmiðlamálið fyrra kom inn í þingið og inn í samfélagið, fyrra frumvarpið sem að lokum þurfti forseta Íslands til að stöðva. Hann ákvað að bera ákvörðun stjórnarmeirihlutans um þá lagasetningu undir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu og tók þar djarfa ákvörðun og rétta að ég hygg. Það er skynsamlegt að minna á að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem þá sat, sem er reyndar sami stjórnarmeirihluti og nú er og sama ríkisstjórn og nú situr, þorðu ekki í þá atkvæðagreiðslu. Þannig endaði það mál. Ríkisstjórnin þorði ekki í þá atkvæðagreiðslu sem forsetinn hafði sent málið til.

Að hugsa sér, forseti, fyrir aðeins rúmum tveimur árum, vorið 2004, samþykkti meiri hluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, meiri hluti „Sjálfstæðisframsóknarflokksins“ lög frá Alþingi um þetta inngrip í tjáningarfrelsi og atvinnulíf, afar hæpin lög gagnvart stjórnarskránni, lög sem beindust gegn einu fyrirtæki sérstaklega, lög sem hefðu getað skemmt fjölmiðlun til langframa. Í sögulegu ljósi er frumvarpið sem hér liggur fyrir áfellisdómur yfir þeim lögum og því æði sem rann á stjórnarmeirihlutann þá mánuði. Það sýnir líka að stjórnarandstaðan og aðrir fulltrúar skynsemi og framsýni í fjölmiðlamálinu höfðu á réttu að standa.

Með umræðu sem byggist á fræðilegum forsendum og lýðræðislegum vinnubrögðum var hægt að ná talsverðri sátt og vinna samfélaginu og framtíðinni verulegt gagn eins og fram kemur í þessu frumvarpi og skýrslunni sem að baki liggur, sem að mörgu leyti eru mjög merkileg plögg. Áður vildu menn ekki hlusta, þá þurfti forsetann til, sem fer með löggjafarvaldið ásamt Alþingi, til að þingmenn og ráðherrar stjórnarliðsins loksins vöknuðu upp af þeim draumi sem þeir höfðu legið í.

Ég ætla nú að reyna að fjalla um frumvarpið sjálft en það verður auðvitað að gerast í ljósi þess fyrirvara sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem töluðu áðan, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson, höfðu þegar fjölmiðlaskýrslunni var skilað í apríl 2005. Þá lýstu þau því yfir að þau hefðu teygt sig í átt að samkomulagi um þetta og reynt sættir í því ljósi. — Nú ætla ég að biðja hv. þm. Eirík Jónsson að rétta mér fjölmiðlaskýrsluna sem mun vera á borði mínu, blá bók. Ég þakka honum fyrir og lofa að trufla hann ekki aftur við þingstörf hans. — En í bókun sinni sögðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar að þeir væru þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að ná sátt um heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem tæki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Þeir sögðu að slíkt væri einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið færi fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf sem nú er orðin hugsanleg. Þau sögðu þetta, með leyfi forseta:

„Sjálfstætt almannaútvarp stuðlar að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni og er forsenda þess að fjölmiðlar geti gegnt aðhaldshlutverki og verið útverðir lýðræðis í samfélaginu. Það er mat okkar að eigi að nást víðtæk sátt í samfélaginu um almenna rammalöggjöf um fjölmiðla, eignarhald og starfsumhverfi verði að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar.“

Þau segja síðan í bókun sinni að þau skrifi undir þessa skýrslu, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson, í því trausti að ásættanleg niðurstaða náist um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins. Það er í því ljósi sem við göngum nú til þessarar vinnu, stjórnarandstæðingar í þinginu. Rétt er að minna á það að við þekkjum núna vinnulagið við meðferð frumvarpsins um Ríkisútvarpið eins og það hefur verið hingað til, sem menn þekktu ekki þá. Ráðherra og stjórnarmeirihlutinn hafa hrakist með það frumvarp frá umræðu til umræðu, breytt því a.m.k. fimm sinnum en framtíð Ríkisútvarpsins er enn í tvísýnu eins og fulltrúarnir þrír sögðu í bókun sinni að væri fyrirsjáanlegt. Ríkisútvarpinu á að breyta í hlutafélag án þess að fyrir því hafi verið færð nokkur rök sem mark er á takandi og þar eiga áfram að vera pólitísk yfirráð. Þar á sem sagt ekki að vera faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum og með því er spillt því trausti sem ríkir milli Ríkisútvarpsins og eigenda þess, þ.e. þjóðarinnar. Í þessu ljósi fer umræðan fram í dag. Fjölmiðlamálið er nátengt Ríkisútvarpsmálinu. Frumvörpin verða auðvitað samferða gegnum þingið og ég sé ekki betur en afgreiðsla þessara mála sé háð því að samstaða náist um bæði málin í sameiningu. Það er minn skilningur.

Ég sagði við 1. umr. um Ríkisútvarpið, og það sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, einnig, að ef hæstv. menntamálaráðherra tekur burt háeffið, tvo bókstafi úr frumvarpinu, og er tilbúinn til umræðu um allar leiðir þá erum við það líka. Þá er allt til umræðu upp á nýtt. Við lögðum til þessa leið til samstöðu og sátta um Ríkisútvarpið en ráðherrann neitaði því í þeirri umræðu. Nú er það að vísu ekki endanlegt. Ráðherra hefur áður þverneitað við 1. umr. því sem hún hefur verið beðin um en að lokum fallist á skynsamlegar lausnir. Það getur því verið að hún sé að hugsa sig um. Tilboðið stendur a.m.k. af minni hálfu og okkar í Samfylkingunni.

Við í Samfylkingunni höfum flutt fjögur mál í þinginu um fjölmiðla á þessu kjörtímabili. Við fluttum, sem er kannski merkasta almenna málið, í mars 2004 tillögu um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Að því stóðu hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Ásgeir Friðgeirsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Jóhann Ársælsson, auk mín sem var 3. flutningsmaður. Þetta var aðaltillaga okkar. Þar sögðum við að ráðin til að bregðast við hættum af samþjöppun á fjölmiðlavettvangi væru fyrst og fremst eftirlit með samkeppnisforsendum, sérákvæði um gagnsæi í eignarhaldi og rekstri líka að ákveðnu leyti og sjálfstætt öflugt almannaútvarp.

Annað málið sem við fluttum á þinginu á þessu kjörtímabili var um vernd heimildarmanna fjölmiðla og um bótarétt höfunda og heimildarmanna. Þetta voru raunar tvö mál. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir átti jafnframt frumkvæði að því máli og var 1. flutningsmaður þess ásamt hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Það kom fram í október 2003, merkilegt mál sem hefur vakið verðskuldaða athygli og Bryndís vann mjög gott starf í málinu. Þegar maður lítur yfir þessi frumvörp hennar sér maður hvað við höfum misst mikils, samfylkingarmenn, þótt vissulega höfum við fengið ákaflega góðan þingmann í staðinn fyrir hana. Þetta mál hefur síðan verið endurflutt tvisvar eftir að hún yfirgaf þingið.

Þriðja fjölmiðlamál okkar var þingsályktunartillaga um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp sem ég bar fram sem 1. flutningsmaður, ásamt hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, Jóhanni Ársælssyni, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Helga Hjörvar, í desember 2004. Þetta er megintillaga okkar um ríkisútvarpsmálin. Þar voru þau mál reifuð. Við gengum út frá almannaútvarpi. Við nefndum margar leiðir um það hvernig það gæti starfað. Við sögðum hins vegar að það yrði að vera sjálfstætt og það yrði að vera öflugt. Þessi þingsályktunartillaga hefði einmitt verið gott grundvallarplagg fyrir almennt samstarf hér í þinginu meðal stjórnmálaflokkanna um Ríkisútvarpið.

Fjórða þingmálið sem við höfum flutt á þessu kjörtímabili um fjölmiðlamál er frumvarp sem ég bar fram sem 1. flutningsmaður í fyrra, ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Jóhanni Ársælssyni og Helga Hjörvar, í febrúar á þessu ári. Það frumvarp er auðvitað samhljóða nokkurn veginn því sem sagt er um þá hluti hér í skýrslunni og var flutt til að leggja áherslu á að þátturinn um flutningsgetu og flutningsrétt er brýnasti hlutinn af þeim efnisþáttum sem í þessari skýrslu felast. Þegar það var flutt var ekki vitað hver yrðu afdrif frumvarpsins, hvort það yrði samið eða flutt og þess vegna var þetta sett fram hér á sjálfstæðan hátt.

Fjórir meginflokkar í þessu frumvarpi hljóta að teljast, í fyrsta lagi, vel á minnst, flutningsskylda og flutningsréttur. Ég segi að það sé brýnast og ég tel að í því skamma yfirliti sem ég hef getað gefið mér séu góðar reglur á ferðinni og góð vinna hjá frumvarpshöfundum sjálfum. Mér þykir í raun og veru, eins og í fyrra, koma til greina að afgreiða það sérstaklega hvað sem öðru líður.

Í öðru lagi nefni ég ritstjórnarlegt sjálfstæði og gagnsæi í eignarhaldi fjölmiðla. Um það fjallaði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vel hér áðan. Þetta hefur verið einn af okkar helstu punktum í þessu máli, samfylkingarmanna. Auðvitað getur ritstjórnarlegt sjálfstæði aldrei orðið tryggt með þeim hætti og ráðum sem hér er um að ræða en við eigum að styðja við hefðir á ritstjórnum og í blaðamennsku og við eigum að styrkja hið faglega markmið í innlendri og alþjóðlegri blaðamennsku. Við eigum að gera það þótt það kosti að eigendum sé gert erfiðara fyrir að ráða sínu fólki.

Þetta hefur verið gagnrýnt og það er auðvitað sjálfsagt að skoða fyrirkomulagið og lagareglurnar betur. En ég geri ekkert með kjarnann í þeirri gagnrýni sem heyrst hefur á reglurnar um þetta hér í frumvarpinu, sem er sú að blaðamenn séu einhvers konar róbótar sem eiga að gera það sem þeim er sagt. Blaðamennska er sérstakt fag, ólíkt öllum öðrum, lýtur eigin lögmálum. Það verður að taka tillit til þess. Það er kjarninn í fjölmiðluninni. Vondir blaðamenn eru vissulega til en það eru líka til vondir þingmenn án þess að það í sjálfu sér eigi að skerða rétt hinna góðu og þá viðmiðun sem við höfum.

Í þriðja lagi er svo stjórnsýslan þar sem sú leið er valin að hafa nýja og endurskapaða útvarpsréttarnefnd. Þetta er rétt að fara vel yfir. Menn hafa líka rætt um Póst- og fjarskiptastofnun, eða fjölmiðladeild þar og sérstaka fjölmiðlastofnun, og þetta þarf að gaumgæfa vandlega.

Í fjórða lagi eru svo eignarhaldsreglur, ákaflega ítarlegar og mikil ákvæði fram og aftur um þær. Þá er fyrst að segja að þessar eignarhaldsreglur eru auðvitað langt í burtu frá ákvæðum fyrra frumvarps um þetta efni, Fjölmiðlafrumvarpsins með stóru F-i, þótt þessi leið sé farin.

Næst er að segja að við samfylkingarmenn höfum ekki haft mikla trú á þessari leið. Við höfum þó aldrei útilokað hana. Við föllumst á þær reglur í Evrópu að stjórnvöld hafi rétt til að grípa meira inn í sjálfstæði og svigrúm atvinnufyrirtækja á sviði fjölmiðlunar en annarra atvinnufyrirtækja. Við föllumst á það, höfum alltaf gert og lagt fram tillögur sem út á það ganga. Við höfum hins vegar þá grundvallarafstöðu að hlutverk stjórnvalda og stjórnmálamanna sé að setja reglur og búa til ramma, leikreglur og ramma en miklu síður boð og bönn, og það sé ekki nema að annað gangi ekki og það sé sýnt að það gangi ekki. Við viljum ekki fara, nema tilneydd, bannleiðina í þessum efnum eða öðrum. Reynum fyrst leikreglur og ramma og virðum regluna um meðalhóf.

Þetta hefur kannski snúist við frá því sem áður var alltaf talað um, að vinstri menn vildu beita ríkisvaldinu til að banna, hefta, handtaka, og ég veit ekki hvað og hvað valt upp úr hægri mönnum hér á árum áður og gerir jafnvel enn. En nú er það Sjálfstæðisflokkurinn sem er með bönnin og hin hörðu boð í hverju lagafrumvarpinu af öðru. En Samfylkingin vill gæta meðalhófs og takmarka afskipti hins opinbera af atvinnulífinu og tjáningarfrelsi og framtaki einstaklingsins, takmarka það við það sem sannarlega er nauðsynlegt vegna heildarhagsmunanna.

Ég segi það fyrir sjálfan mig að prósentureglur um eignarhald umfram venjulegar samkeppnisreglur eru ekki vænleg leið til að ná því markmiði sem við erum að reyna að ná með þessu. Prósentureglurnar skapa vanda, skapa jaðartilvik, geta þrengt að framþróun í fjölmiðlun, geta takmarkað fjárstreymi sem fjölmiðlun þarf á að halda og þar með þrengt að víðar, skemmt jafnvel eða skaðað framþróun og vöxt í skapandi atvinnugreinum sem nú er spáð að verði fjórða stoðin í atvinnulífi hinnar nýju aldar þekkingarsamfélagsins. Fjölmiðlarnir eru hluti af þessum skapandi atvinnugreinum. Í kringum fjölmiðlana aukast aðrar deildir í hinum skapandi atvinnugreinum sem þjóna þeim og eru í ýmiss konar samspili við þá.

Það þarf ekki að rekja að eignarhald hefur verið rætt mikið. Við fórum í gegnum hitt fjölmiðlafrumvarpið, það gamla, einkum með þá hluti hér í umræðunni. Við vitum að sú aðferð er notuð víða um lönd. Það er reyndar áberandi að reglurnar um hana eru afar ólíkar. Það eru engin heildareinkenni sem hægt er að sjá í þessum reglum um takmörkun á eignarhaldi. Víða er t.d. bönnuð krossmiðlun og var mikið stundað hér á fyrri öld. Það var í gamla frumvarpinu um fjölmiðla. Það er ekki gert núna. Við höfum fallið frá því núna.

Þegar maður lítur yfir ríkin, við tökum bara Evrópu, sést að þessar takmarkanir á eignarhaldi þar sem þær eru við lýði eru staðbundnar. Þær eru sérstakar. Þær eru fram settar til að leysa staðbundin vandamál. Þá er rétt að líta á okkar úrlausnarefni hér, og nú hef ég til þess 2 mínútur og 45 sekúndur. Hver eru þau? Ja, annars vegar erum við hér með samþjöppun í fjölmiðlun sem getur haft óheppileg áhrif og sumir segja að hún hafi haft það. Með eignarhaldssamþjöppun er ákaflega erfitt að koma í veg fyrir þau áhrif á almenn viðskipti umfram eftirlit samkeppnisyfirvalda. Það er athyglisvert að hér í frumvarpinu eru engar reglur, engin ákvæði sem leysa t.d. það mál sem hefur verið rætt um hér á síðustu vikum, um að fjölmiðill sem lýtur sömu eigendum og ýmis verslunarfyrirtæki birti með einhverjum hætti fleiri auglýsingar frá verslunarfyrirtækjunum, væntanlega vegna þess að þeim er gefinn sérstakur afsláttur og þar með hafi eigendurnir, eða að minnsta kosti systur og bræður í eignarskapnum, meiri möguleika til að auglýsa vörur sínar í fjölmiðlum.

Því miður tökum við ekkert á þessu í þessu frumvarpi. Það er slæmt. Eignarhaldstakmörkunin tekur ekkert á því. Ef maður á 24,5% í miðli með yfir 30% markaðshlutdeild nýtur hann góðs veðurs hjá auglýsingastjóranum. Alveg eins og sá sem á 26%. Um pólitískar og menningarlegar hættur er hægt að tala mikið. Þær eru fyrir hendi. Nú er hins vegar málum þannig háttað að margir kvarta yfir því að fjölmiðlarnir sem við búum við nákvæmlega núna séu ákaflega líkir, bæði að efnisframboði, sjónvörpin þrjú, dagblöðin þrjú, að efnisframboðið sé mjög líkt frá sjónvarpsstöð til sjónvarpsstöðvar, mjög líkt frá dagblaði til dagblaðs þannig að rætt sé nú um hina miðlana. Aðrir segja að pólitískur litur á þessum miðlum sé mjög svipaður. Þorsteinn Pálsson er hér. Styrmir Gunnarsson er þar. Ari Edwald er á þriðja staðnum og útvarpsstjóri menntamálaráðherra er þá á fjórða staðnum. Þetta er mjög sviplíkt þegar þessi nöfn eru nefnd.

Ég segi hér úr ræðustólnum áður en ég yfirgef hann: Guði sé lof fyrir Arnþrúði Karlsdóttur. Hún virðist vera eina undantekningin á þessu sem forstöðumaður á fjölmiðli. Hún er þó a.m.k. kona.

Ég vil svo segja þetta, á þeim skamma tíma sem eftir er, að það vantar í frumvarpið ákvæði um auglýsingaskyldur aðila og það vantar líka einhver ráð við vandamáli sem við vitum af sem eru einkaréttarsamningar á efni. Við þurfum auðvitað í menntamálanefndinni m.a. að rannsaka hvort Samkeppniseftirlitið getur leyst þessi vandamál fyrir okkur og hvort það gæti leyst fleiri vandamál fyrir okkur ef það væri nógu sterkt og hefði nægt fjármagn til að (Forseti hringir.) gera það.