Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 18:08:32 (1042)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:08]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var alveg skýrt fyrir síðustu kosningar og allir stjórnmálaflokkar, nema ef vera skyldi Vinstri grænir, gerðu ráð fyrir að verulegt svigrúm mundi skapast til skattalækkana á kjörtímabilinu. Deilan í kosningabaráttunni snerist ekki um það hvort forsendur væru til þess að lækka skatta heldur hvernig. Það sáu allir fram á að mikil tekjuaukning yrði í samfélaginu og svigrúm yrði til skattalækkana.

Nú er það reyndar rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að þetta svigrúm hefur reynst meira en spár gerðu ráð fyrir árið 2003. Uppgangurinn í samfélaginu hefur verið slíkur að jafnvel bjartsýnustu menn sáu það ekki fyrir. Tekjuaukinn í samfélaginu hefur orðið mjög mikill og það hefur orðið veruleg tekjuaukning og kaupmáttaraukning hjá öllum tekjuhópum í landinu. Það er auðvitað það sem skýrir að tekjuskattar skila meiru til ríkisins en áður var talið. Það eru í rauninni, eins og komið hefur verið inn á í þessu sambandi, gleðilegar fregnir að tekjuaukinn í samfélaginu hefur verið svona mikill. Kaupmáttaraukning eftir skatta hjá öllum tekjuhópum hefur verið mikil. Það er því ekki hægt að halda því fram, eins og mér fannst hv. þingmaður gera, að skattastefna ríkisstjórnarinnar hefði skert kjör einhverra í samfélaginu vegna þess að þegar tekið er tillit til verðlagshækkana og horft er á þann tekjuauka eftir skatta sem hefur komið fram hjá öllum tekjuhópum þá er hann verulegur.

Þegar við stóðum frammi fyrir því árið 2003 að velta fyrir okkur hvernig ætti að fara í skattalækkanirnar þá var þetta útspil Samfylkingarinnar. Ef ég man rétt var það á vorþingi Samfylkingarinnar í apríl sem því var slegið fram og gert að fréttaefni að Samfylkingin ætlaði að hækka skattleysismörkin um 10 þús. kr., vitandi það eins og við vissum raunar líka, að fyrirsjáanleg væri mjög mikil tekjuaukning í samfélaginu. Mér finnst því dálítið klént að koma hér eftir á og segja: (Forseti hringir.) Við vildum ekki hækka skattleysismörkin bara um þennan tíu þúsund kall sem við sögðum fyrir kosningar, (Forseti hringir.) heldur miklu, miklu meira.