Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 18:25:49 (1157)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum nú sýnist mér vera lítið breytt frá fyrra frumvarpi en mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um það, hvort hann telji einhverjar líkur á því að það fari í gegnum þingið, vegna þess að ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann mæla með frumvarpinu, ekki einn einasta. Ég náði reyndar ekki alveg stuttri ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar um málið, en ég get ekki betur heyrt en að þetta frumvarp eigi sér nánast enga formælendur í þinginu nema hæstv. iðnaðarráðherra sem mælti fyrir því. Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hverjar líkur hann telji á því að málið fari í gegn.

Nú höfum við heyrt helsta talsmann Sjálfstæðisflokksins í þessu máli tala um að þetta sé sjúk stofnun sem verið sé að sameina tveimur heilbrigðum stofnunum. Ég lýsi furðu minni á því að þetta mál komi svo illa búið inn í þingið að það eigi sér enga formælendur nema hæstv. iðnaðarráðherra sem mælti fyrir því. Þetta er sjúkt og ekki gat annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins heldur mælt með þessu frumvarpi.

Annað sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um, það var ekki bara um líkurnar á þessu, er að nú get ég ekki séð betur en að verið sé að fella Byggðastofnun inn í tvær aðrar stofnanir. Telur hæstv. ráðherra að þetta sé ekki til marks um stefnu Framsóknarflokksins á umliðnum árum í því að draga úr vægi byggðamála? Það er verið að fella stofnunina inn í jafnvel alls óskylda starfsemi eða lítt skylda. Auðvitað má flækja alla hluti saman en ég get ekki séð að Byggðastofnun eigi endilega heima inni í þeim tveimur stofnunum sem talsmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, talaði um að væru heilbrigðar.

Ég er ekki sammála því heldur að Byggðastofnun eins og hún er rekin núna sé sjúk. Það er miklu frekar byggðastefna Framsóknarflokksins sem er sjúk, byggðastefna stjórnarflokkanna, og það er ekki hægt að bjarga henni með því að reka stofnun hversu vel eða illa sem það er gert. Byggðastefnunni verður ekki breytt með því heldur hafa almennar leikreglur sem Framsóknarflokkurinn hefur búið í lagaumgjörð á síðustu árum, einum og hálfum áratug, verið svo slæmar fyrir byggðir landsins að þær hafa grafið undan þeim. Það höfum við séð hvað varðar sjávarútveginn og einnig í fleiri málum sem Byggðastofnun hefur verið að fást við og átt að gefa álit um og jafnvel verið í vinnu við að útbúa, svo sem jöfnun flutningskostnaðar, að ég tali nú ekki um breytingar á raforkumarkaðnum sem hafa ekki komið hinum dreifðu byggðum vel, alls ekki. Það hefur verið sýnt fram á og þó ekki, ekki hefur verið skilað upplýsingum sem óskað var eftir varðandi það hvernig hækkunin á rafmagnsverðinu hefur orðið. Mér finnst ekki hægt að segja að Byggðastofnun sem slík sé sjúk heldur að stefna stjórnarflokkanna hafi gengið þvert á hagsmuni byggðanna.

Hæstv. iðnaðarráðherra var og er eflaust enn þá hugmyndafræðingur Framsóknarflokksins í byggðamálum og hefur gefið út rit eða ritað grein þar sem greindi skilmerkilega frá því að í rauninni væri orðið til borgríki á Íslandi. Mig langar að spyrja hvort hann líti svo á að þetta frumvarp sé staðfesting á því að verið sé að fella þessa stofnun, sem staðsett er norður á Sauðárkróki, inn í aðrar tvær stofnanir sem Pétur H. Blöndal gaf þá einkunn að væru heilbrigðar en Byggðastofnun sjúk, sem ég er ekki sammála. Við megum ekki fara fram hjá þessari umræðu um Byggðastofnun og byggðastefnuna. Og þó svo að hæstv. iðnaðarráðherra, sem nú er formaður Framsóknarflokksins, telji að íslenska sveita- og þorpasamfélagið sé úr sögunni og hér sé rekið nokkurs konar borgríki og það sé í rauninni ekki hægt að halda uppi byggð ef þar búa færri en 10–12 þúsund manns, þá eru ekki allir sammála því. Það er ekki svo og ég tel að það sé vel hægt að reka Byggðastofnun myndarlega á Sauðárkróki þó svo að Framsóknarflokkurinn hafi gefist upp á því, það er vel hægt að gera það.

Ég er ekki á því að það sé byggðamálunum endilega til framdráttar fara með Byggðastofnun inn í einhverja alls óskylda starfsemi, ég get ekki séð það. Mér finnst að með því að flækja málið og hræra saman stofnunum horfi menn fram hjá aðalatriðinu sem er að stjórnvöld hafa búið atvinnuvegum og byggðum landsins mjög slæm skilyrði, það markast m.a. í sjávarútvegi. Menn verða að gera sér grein fyrir því í þessari stöðu að málefni byggðanna verða ekki leyst með þessu frumvarpi heldur þarf að taka á þeim með almennum hætti, taka á þeim með reglum hvað varðar sjávarútveginn, tryggja m.a. útræðisrétt frá sjávarþorpunum, vegna þess að kerfið sem við búum við hefur engu skilað, bara tjóni fyrir þjóðina og mun eflaust gera það áfram ef það heldur eftir næstu kosningar, hvað sem verður um þetta frumvarp. Byggðirnar standa ekki og falla með því.

Sama á við um að taka á málum eins og að jafna flutningskostnað. Það gæti hjálpað atvinnugreinum sem eru staðsettar á landsbyggðinni. Mér finnst ekki hægt að líta fram hjá því. Að vísu hefur hæstv. iðnaðarráðherra reynt að skýra þetta út, að það sé eðlilegt að hægt sé að selja atvinnuréttinn í burtu frá byggðunum, þetta sé eitthvað sem fólk eigi erfitt með að skilja og eitthvað svoleiðis. Það er ekki svo. Það á ekki að vera þannig að hægt sé að selja atvinnuréttinn frá heilu byggðunum. Það hefur ekki skilað neinu. Mér finnst verða að ítreka það að nú sé komin upp sú staða að formaður Framsóknarflokksins hafi í rauninni blessað þá stefnu og talið hana þjóðfélaginu til framdráttar fyrir að hægt sé að braska með atvinnurétt landsbyggðarinnar. Það er í rauninni rót vandans. Mér finnst að við ættum kannski ekki endilega að verja allt of miklum tíma í þetta frumvarp heldur ræða rót vandans.

Hvað hefur það brask sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir í sjávarútvegi skilað miklu fyrir þjóðarbúið? Það hefur ekki skilað neinu. Útflutningstekjur sjávarútvegsins minnkuðu í fyrra miðað við árið á undan og ekki virðist sjávarútvegurinn standa betur í ár en fyrir tíu árum. Skuldirnar hafa aukist um á annað hundrað milljarða og það er ekki að sjá að tekjurnar hafi aukist á móti. Menn geta í rauninni ekkert farið fram hjá þeirri umræðu — við erum að ræða byggðamál, Byggðastofnun, staðsetningu stofnana — að fara yfir rót vandans en hann liggur alls ekki í þessum stofnunum. Það er í rauninni þannig að með því að flækja þessum ólíku stofnunum saman missa menn sjónar á vandamálinu og til þess er leikurinn kannski gerður, herra forseti, að þvæla hlutunum þannig að menn séu í rauninni ekki að ræða þann byggðavanda sem blasir við og það er mjög alvarlegt. Það er kannski rétt að hæstv. iðnaðarráðherra svari því einnig hvort það sé einn tilgangurinn með frumvarpinu að komast hjá því að ræða rót vandans.

Þó svo að Framsóknarflokkurinn leggi blessun sína yfir braskið með veiðiréttinn og atvinnurétt byggðanna þá finnst mér orðið tímabært, og ég er viss um að hv. þm. Pétur H. Blöndal getur tekið undir það með mér, að menn sýni fram á einhverja hagræðingu fyrir þjóðarhag af því braski, hvort það sé t.d. einhver skynsemi í því að geta flutt veiðiheimildir landshorna á milli, að menn geti t.d. flutt fiskinn af miðunum við Grímsey suður um land og alla leið út á Suðurnes, hvort menn telji einhverja skynsemi í því. Ég tel svo ekki vera. Kannski eru menn með þessu samkrulli öllu að breiða yfir þennan vanda í stað þess að taka á byggðamálunum með skynsamlegum hætti, skapa betri starfsskilyrði fyrir atvinnuvegina á landsbyggðinni og tryggja síðast en ekki síst að opinberum störfum fjölgi einnig á landsbyggðinni. Það má færa rök fyrir því að einmitt þetta frumvarp gerir það alls ekki. Með því að færa höfuðstöðvarnar, sem eiga að sjá um byggðamálin, mögulega eitthvert allt annað er hætt við að áherslurnar færist einmitt frá þeim stað sem höfuðstöðvarnar eru staðsettar í dag. Það væri ekki til þess að fjölga störfum á landsbyggðinni en við höfum einmitt séð að fjölgun í opinberum störfum þar hefur staðið í stað eða jafnvel minnkað meðan slíkum störfum hefur fjölgað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst eiginlega kominn tími til að halda ekki lengri ræðu að þessu sinni heldur gefa hæstv. iðnaðarráðherra kost á að svara því hverjar hann telji líkurnar á að þetta frumvarp fari í gegn þegar enginn hefur mælt með samþykkt þess nema hæstv. iðnaðarráðherra sjálfur.