Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 18:38:10 (1158)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Það hefur greinilega komið í ljós við þessa umræðu að menn eru ekki á einu máli. Umræðan hefur reyndar farið út um víðan völl og rætt hefur verið um mjög mörg önnur mál en þau sem beinlínis eru í þessu frumvarpi og ég mun kannski leiða það að einhverju leyti hjá mér. En að því leyti sem rætt hefur verið um frumvarpið sjálft vil ég þakka fyrir margar ágætar ábendingar og athugasemdir sem hafa komið fram, sem ég veit að verða teknar til skoðunar í iðnaðarnefnd.

Ég tek undir það sem kom fram hjá nokkrum hv. alþingismönnum að byggðamálin eru eðlilegur og sjálfsagður þáttur í framþróun samfélagsins. Við eigum ekki alltaf að líta á þau sem einhvers konar vandamál, einhvers konar slys, einhvers konar vandræðamál heldur getum við líka horft á þau jákvætt, sem sjálfsagðan þátt í eðlilegri þróun og í þeim metnaði sem við viljum hafa sem þjóð að allir landsmenn í öllum byggðum landsins geti haft eðlilega og góða samleið.

Ég vil líka taka fram að frumvarpið sem hér er til umræðu byggist alls ekki á því að það hafi verið samþykktir einhverjir illa grundaðir palladómar um Byggðastofnun á liðnum tíma.

Út af því sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði get ég nefnt að ef brugðið er upp mynd af þróuninni á sviði byggðamála þá getur verið að ýmsum þyki sú mynd dökk og ískyggileg, einkum ef myndin sýnir aðeins óheft markaðsöfl án opinberrar stefnu og aðgerða. Margir hafa einmitt í þessu sambandi talað um nokkurs konar svokallað borgríki í þessu sambandi, þ.e. að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar safnist saman á eitt landshorn. Ég gerði það sjálfur á ráðstefnu í Borgarnesi fyrir nokkrum árum á vegum samtaka þar í héraði og það erindi var síðan birt í Borgfirðingariti sem er ársrit Borgfirðinga.

Það vill svo einkennilega til að nokkrir alþingismenn virðast hafa misskilið þessa lýsingu mína þannig að ég hafi verið að lýsa stefnuviðhorfum eða einhverri æskilegri framvindu eða atburðarás sem ég teldi alveg sérstaklega æskilega fyrir landsbyggðina en ég var þvert á móti að reyna að bregða upp slíkri mynd á skýran, hlutlausan og raunsæjan hátt.

Ég tók það fram að framvindan leiddi til margvíslegra vandamála og erfiðleika víða á landsbyggðinni og að framtíðin yrði miskunnarlaus og kröfuhörð. En ég tók líka fram að byggðaþróunin er margþætt ferli og hún felur líka í sér ýmis ný tækifæri og ný viðfangsefni, a.m.k. á sumum svæðum. Meðal annars lýsti ég kröfum fólksins í byggðunum um greiðar samgöngur og stærri og fjölmennari nærsamfélög á þeim grundvelli. Mér fannst skylt að nefna þessar horfur til að benda á valkosti og sýna fram á að bölsýni og vonleysi eiga ekki við að öllu leyti á öllum svæðum, enda er orðið byggðarmetnaður einmitt í heiti þeirrar greinar sem áður var nefnd og hér var minnst á.

Í umræðunum núna hefur mér virst svolítill misskilningur um efnissvið frumvarpsins sem við erum að ræða. Efnissviðið er opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, með öðrum orðum efnissviðið er meira en aðeins Nýsköpunarmiðstöðin. Meðal annars hefur komið fram svolítill misskilningur í því að þó að þróunarsvið Byggðastofnunar hverfi undir Nýsköpunarmiðstöðina þá er Byggðasjóður sérstök stofnun með sérstökum framkvæmdastjóra og sérstakri stjórn. Það er nauðsynlegt að halda þessu til haga. Þarna er verið að koma til móts við margar ábendingar sem við höfum fengið, bæði frá iðnaðarnefnd síðastliðið vor og frá fleiri aðilum. Ég ætla ekki að elta ólar við það sem hér hefur verið sagt um fyrrverandi iðnaðarráðherra og tel að það hafi ekki verið á rökum reist.

Þegar talað er um skipun forstjóra fyrir Nýsköpunarmiðstöðina vil ég taka fram að það er í samræmi við þróun í stjórnsýslunni að forstjóri er skipaður beint og þá er verið að reyna að nálgast að það sé einmitt ekki pólitísk skipting í einhvers konar stjórn en þarna er að vísu gert ráð fyrir ráðgjafarnefnd og í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir nefnd til að skoða framtíðarskipulag og réttarform stofnunarinnar. Ég vil benda á sérstaklega líka 11. gr., e-lið, þar sem gert er ráð fyrir að Byggðasjóður gæti tekið frumkvæði um samninga við banka. Hér var aðeins talað um samskipti við atvinnuþróunarfélögin og við gerum einmitt ráð fyrir því að efla þau.

Ég tel að eitt sem er sterkast og mest heillandi í þessu frumvarpi sé einmitt að reyna að tvinna saman nýsköpun og byggðamál, eins og ég gerði grein fyrir í frumræðu minni. Að öðru leyti þakka ég fyrir ágætar umræður.