Réttargeðdeild að Sogni

Miðvikudaginn 08. nóvember 2006, kl. 15:08:56 (1251)


133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

réttargeðdeild að Sogni.

162. mál
[15:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar og fagna að sjálfsögðu, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, þeim vilja hæstv. ráðherra að fara að tillögum þeirrar nefndar sem skilaði skýrslu um mitt sumar. En við verðum að sjá að með þessum góða vilja hæstv. ráðherra fylgi að gert verði ráð fyrir hönnunarkostnaði á fjárlögum næsta árs.

Þá vil ég einnig benda á, þar sem þetta er ekki fyrsta skýrslan sem við fáum og ekki fyrsta nefndin sem starfar um málefni réttargeðdeildarinnar á Sogni, að þar til að ný bygging rís sem getur tekið töluverðan tíma, bæði hönnunarkostnaður, hönnunarvinna og síðan uppbygging, þá liggi fyrir tillögur um úrbætur á núverandi húsnæði þar sem um er að ræða fjölgun sem getur nýst þannig að hægt sé að sinna a.m.k. brýnustu tilvikum fram að þeim tíma að ný bygging rís. Ætli það séu ekki orðin ein tvö, þrjú ár síðan tillögur þess efnis voru lagðar fyrir heilbrigðisráðuneytið og þá minnir mig að kostnaðurinn við þær breytingar hafi verið metinn á rétt rúmar 30 milljónir. Ég tel algera nauðsyn að meðan beðið er eftir úrbótum og við höfum ekki annað en viljayfirlýsingar frá hæstv. ráðherra, sem þó eru mikils virði, verði ráðist í endurbætur á húsnæðinu í samræmi við þær tillögur sem eru fyrirliggjandi og að ekki verði bara bætt úr hvað varðar húsnæðið heldur líka að stöðugildum verði fjölgað. Ekki hefur verið starfandi iðjuþjálfi við stofnunina í langan tíma, sem er þó alger nauðsyn.