Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 16:16:10 (1342)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:16]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi nú alls ekki sagt það áðan að þjónustuþátturinn hafi verið notaður sem svipa. Alls ekki. Ég sagði að samkomulagið gekk út á tvö atriði eða tvo stólpa. Þar var þjónustuþátturinn, þ.e. ný hjúkrunarrými, heimaþjónusta o.s.frv. Síðan var fjallað um lífeyrismál, þ.e. greiðslur til ellilífeyrisþega.

Í frumvarpinu og í samkomulaginu er tekjutengingin minnkuð mjög verulega. Bæði er skerðingarprósentan minnkuð, sem hefur áhrif á bæturnar auk þess að setja inn frítekjumark. Þetta er það sem um samdist. Þetta er niðurstaðan í samkomulaginu.

Mér er kunnugt um málið sem hv. þingmaður hefur nefnt, þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar. Hún felur í sér aðrar tölur í þessu sambandi enda kostar sú tillaga í kringum 6–7 milljörðum meira á ári samkvæmt heildarútreikningum en samkomulagið kveður á um. Mér er kunnugt um þá tillögu. Hún var rædd hérna um daginn.

Varðandi það hvernig heilbrigðisnefnd Alþingis heldur á málinu þá tel ég að hún verði að ákveða það sjálf. Ég legg a.m.k. áherslu á að málið verði unnið þannig að við getum afgreitt það þannig að samkomulagið taki gildi frá og með áramótum. Það eru ákveðin atriði inni í samkomulaginu sem þurfa að koma til framkvæmda þá þegar. Það er því brýnt að þingmenn fari í að vinna þetta mál.

Ég hefði gjarnan viljað koma með það fyrr inn í þingið en það eru miklir útreikningar sem liggja þarna að baki. Ég vona að þingmenn taki vel í að vinna málið vandlega í heilbrigðisnefnd.