Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 18:54:59 (1363)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:54]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að í dag hafi komið fram áherslumunur í máli stjórnarandstöðunnar og því sem stjórnin telur rétt að gera samkvæmt því frumvarpi sem við fjöllum um. Við viljum ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir. Í frumvarpinu er margt til bóta, eins og komið hefur fram hjá okkur öllum. Að hluta mun kerfið einfaldað sem er mjög gott.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra um samstarfið við Landssamtök eldri borgara, sem hún vísaði til að væri mjög jákvætt. Árið 2002 var gert samkomulag um áframhaldandi samráð en það gekk ekki. Þetta samstarf var ekki virkt. Nú höfum við náð því sem eldri borgarar kalla yfirlýsingu frekar en samkomulag. Mun hæstv. ráðherra taka upp virkt samstarf við eldri borgara?

Það er ljóst að engin ánægja er meðal aldraðra með niðurstöðuna í yfirlýsingunni. Það þarf að ganga lengra. Við vitum það. Mun hæstv. ráðherra taka upp virkt samstarf við eldri borgara? Það þarf að hefjast nú þegar en ekki bíða þar til þessi lög, ef frumvarpið verður samþykkt, ganga úr gildi eftir fjögur ár. Það þarf að ganga lengra.

Einnig vil ég spyrja hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir lífskjarakönnun meðal aldraðra og gera úttekt á framfærslukostnaði þeirra.