Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

Mánudaginn 13. nóvember 2006, kl. 15:02:24 (1381)


133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sl. föstudag kom fjáraukalagafrumvarpið inn til fjárlaganefndar til lokaafgreiðslu fyrir 2. umr. Tilkynnt var í fundarboði að einungis væri um lokaafgreiðslu fjáraukalaga að ræða fyrir 2. umr. Þá kemur á þennan fund bréf frá fjármálaráðuneytinu þar sem nefndin er beðin að afgreiða beiðnir upp á tæplega 120 milljarða kr. sisona, útbýtt á liðlega einu A-4 blaði og átti að afgreiða nánast umræðulaust. Þarna var um að ræða lán á vegum ríkissjóðs til handa Seðlabanka Íslands til að styrkja gjaldeyrisstöðuna. Þarna var líka beiðni um lánsfjárheimild til að greiða sveitarfélagahlutann í kaupum á Landsvirkjun. Þarna var líka ein beiðni upp á 5 milljarða kr. ríkisábyrgð á lántöku Landsvirkjunar vegna uppgjörs á ófyrirséðum kostnaði við aðalverktaka Kárahnjúkavirkjunar. Samtals voru þetta tæpir 120 milljarðar kr.

Ég fór fram á það í nefndinni að fá skýringar, að inn kæmu verðmat á Landsvirkjun og samningur um kaup á henni, skýring á því hvers vegna það þyrfti 5 milljarða kr. til viðbótar núna vegna Kárahnjúkavirkjunar. Er það ríkissjóður einn sem á að bera þá ábyrgð, eða hvað? Engin gögn lágu fyrir vegna allra þessara beiðna.

Ég fór fram á að afgreiðslu frumvarpsins út úr nefnd til 2. umr. yrði þá frestað þannig að þetta gæti fengið eðlilega eða a.m.k. einhverja vinnu í nefndinni. Því var hafnað þannig að tæplega hálftíma eftir að þetta bréf barst inn á fundinn var nefndin búin að afgreiða það til 2. umr. gagnalaust, aðeins þetta litla A-4 blað. Ég mótmælti svona vinnubrögðum. Ég mótmælti því að þarna væri gengið gjörsamlega á svig við eðlilega vinnu Alþingis og (Forseti hringir.) ég skora á forseta að koma í veg fyrir að frumvarp til fjáraukalaga komi hér á dagskrá, svo illa undirbúið til 2. umr.