Álversáform í Þorlákshöfn

Þriðjudaginn 14. nóvember 2006, kl. 14:23:53 (1497)


133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:23]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svörin þó að þau hafi í rauninni bara verið á einn veg: Ég veit ekkert og ég geri ekkert. Tímabili virkrar stóriðjustefnu er lokið.

Af hverju er þetta mál tekið hér upp? Hver er tilgangurinn? Er þetta afmarkað lítið mál?

Nei, þetta er hluti af mjög stóru máli sem er mjög brýnt að litið sé á heildstætt. Það er ekki verið að tala um atvinnu í sveitarfélaginu Ölfusi. Það er verið að tala um stóriðjustefnuna, um áhrif hennar á umhverfi okkar, á efnahagsmál okkar og atvinnumarkaðinn, það þenslufyllirí sem við erum í hér og sem menn ætla að fara að halda áfram, fá sér einn afréttara á Suðurlandi núna.

Við vorum að tala um forvarnir áðan. Ég held að menn ættu að líta til þeirra í þessu. Stóriðjustefnunni er lokið. Það á bara eftir að ræsa á Reyðarfirði, það á bara eftir að byggja á Húsavík, það á bara eftir að byggja í Helguvík, það á bara eftir að stækka í Straumsvík, það á bara eftir að stækka í Hvalfirði og svo á bara eftir að reisa svo sem eins og eitt álver við Þorlákshöfn. Þá allt í einu fara að renna grímur á menn vegna þess að þar er undir Markarfljót sem lenti neðst á lista í rammaáætlun yfir þá virkjunarkosti sem í boði voru. Það er líka verið að veifa Kerlingarfjöllum og það er verið að veifa Langasjó, og fyrrverandi iðnaðarráðherra ber á þessu hvað mesta sök, sú sem hér gekk hjá.

Sveitarfélagið sem hér um ræðir varð auðvitað við brýningu hennar á iðnþingi í fyrra þar sem hún sagði, virðulegur forseti: Það hefur tekið heil 50 ár að ná þessum árangri, að þrefalda álframleiðsluna. Endurspeglast þessi árangur hvað best í því að nú hafa sex heimsþekkt (Forseti hringir.) álfyrirtæki sýnt áhuga á að fjárfesta í nýjum álverum. Þetta eru afleiðingarnar, forseti.