Fjáraukalög 2006

Þriðjudaginn 14. nóvember 2006, kl. 15:51:12 (1517)


133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:51]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir merkilegt ef hv. þm. Birkir J. Jónsson, sem jafnframt er formaður fjárlaganefndar, trúir því að ríkisstjórnin hafi notað fjárlögin sem stýritæki í efnahagslífinu þegar staðreyndin er, eins og ég fór ítarlega yfir í ræðu minni, að 68% fjárlagaliða eru of- eða vanáætlaðir um 4% og þrír fjórðu hlutar meira að segja of- eða vanáætlaðir um 10%. Hvernig geta þá fjárlögin verið stýritæki í efnahagslífinu?

Í öðru lagi. Hvernig geta fjárlögin verið stýritæki í efnahagslífinu þegar það er staðreynd, eins og við sjáum í fjáraukalögum, að tekjurnar aukast um meira en 13% og gjöldin um 6%. Hvernig geta slík fjárlög verið stýritæki í efnahagslífinu?

Virðulegi forseti. Það verður að taka á umgengninni við fjárlög ríkisins. Fyrr en það hefur verið gert geta þau ekki orðið sá rammi sem þau eiga að vera um fjárreiður ríkissjóðs. Enn þá flæða of miklir peningar á milli ára. Að nefna frestun á nokkrum framkvæmdum, virðulegi forseti, það vita allir að það varð aldrei raunveruleg frestun á þessum framkvæmdum. Ég trúi því ekki að hv. þm. Birkir Jón Jónsson trúi því raunverulega að svo hafi verið og að það hafi skipt máli.