Fjáraukalög 2006

Þriðjudaginn 14. nóvember 2006, kl. 15:58:01 (1520)


133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:58]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður er orðinn ýmsu vanur þegar kemur að Samfylkingunni, umræðum hennar um fjármál ríkisins og efnahagsmál almennt. Það er svo sem kunnara en frá þurfi að segja að einstakir talsmenn flokksins tala oft út og suður, sumir tala fyrir auknum ríkisútgjöldum og aðrir fyrir því að aðhalds sé gætt í rekstri ríkissjóðs og hann notaður sem stýritæki í efnahagslegu tilliti.

Það ber hins vegar óvenjuvel í veiði þegar það gerist á einum og sama fundinum á Alþingi að sami þingmaður Samfylkingar tali fyrir báðum sjónarmiðum. Ég verð að hæla hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur alveg sérstaklega fyrir að hefja mál sitt á að tala fyrir því að fjáraukalagafrumvarpið sé ákaflega dýrt og líklega það dýrasta í Íslandssögunni en telja síðan upp útgjaldatillögur sem hún telur að fari betur á að samþykkja í meðförum málsins í þinginu.

Er hv. þingmaður stuðningsmaður þeirra tillagna til útgjaldaauka sem gerðar eru í breytingartillögum 1. minni hluta í fjárlaganefnd eða telur hún að betur fari á því að menn haldi sig við upphaflegt fjáraukalagafrumvarp? Hvort vill hv. þingmaður, aukin ríkisútgjöld eða að nýta fjárlögin sem efnahagslegt stjórntæki? Hvernig stendur á því að það er hægt í sömu ræðunni að gagnrýna t.d. hv. formann fjárlaganefndar fyrir að gæta ekki nægilega mikið að hagsmunum Háskólans á Akureyri en tala síðan um að algjör lausung ríki í ríkisfjármálunum, að verið sé að setja peninga út og suður? Hvernig er þetta hægt í einni og sömu ræðunni? (Gripið fram í: Nú liggurðu í því, maður.)