Fjáraukalög 2006

Þriðjudaginn 14. nóvember 2006, kl. 16:05:47 (1524)


133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur mælt fyrir minnihlutaáliti fjárlaganefndar við 2. umr. fjáraukalaga og vísa ég til framsögu hennar hvað það varðar.

Hitt er kannski rétt í upphafi, frú forseti, að vekja athygli bæði þingheims og annarra á innkomu nokkurra framsóknarmanna og þingmanna hér inn í umræðuna þar sem verið er að ræða fjáraukalög til 2. umr. því þeir virðast rugla þessu saman og þetta sé einhver málfundur í framsóknarfélagi í Reykjavíkurkjördæmi suður eða norður. (HBl: Ekki ertu að líkja Alþingi við Framsóknarflokkinn?) Nei, ég verð að biðja að það verði aldrei svo, það er alveg hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, megi það aldrei verða svo að við förum að upplifa hér að einstakir þingmenn Framsóknarflokksins fari að reyna að gera þetta að slíkri málstofu. (HBl: Það væri nú nær að lesa upp ljóð eftir Jón Arason en að horfa í stefnuskrá Framsóknarflokksins.) Alveg hárrétt innskot hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og mæli hann manna heilastur, það væri nær.

Þó ætla ég að gera aðeins undantekningu á. (Gripið fram í: … ala upp …) Já. (Forseti hringir.) … svona smáuppeldishlutverk því ég held að þetta sé ekki til bóta og ég held að (Forseti hringir.) þeir hv. þingmenn sem hafa verið að ræða af hálfu Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) þeim sé rétt —

(Forseti (ÞBack): Hæstv. forseti óskar eftir því að hv. þingmenn gefi ræðumanni frið til þess að halda sína ræðu.)

Frú forseti. Ég kvarta ekki undan því að þurfa svara frammíköllum nokkurra þingmanna Framsóknarflokksins, en hitt er alveg hárrétt athugasemd að það á ekki að breyta þessu í einhvers konar málfund í einhverju framsóknarfélagi, það er alveg hárrétt.

Nú er það svo, bara svona örstutt til leiðbeiningar, að við erum að fjalla um fjáraukalög við 2. umr. Við höfum nokkuð sem heitir lög um fjárreiður ríkisins, sem ég vil biðja hv. þingmenn eins og hv. þm. Björn Inga Hrafnsson að lesa áður en hann kemur hingað inn með ábendingar um vinnulag annars vegar af hálfu fjárlaganefndar og hins vegar þingsins í meðferð fjáraukalaga. Lög um fjárreiður ríkisins kveða mjög skýrt á um hvernig fjárlög eru undirbúin og síðan fjáraukalög. Í lögum um fjárreiður ríkisins og einmitt hvað lýtur að fjárlagagerðinni er kveðið á um að hér skuli lagt fram frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár, lagt fram af ráðherra eða ríkisstjórn. Síðan fer það til fjárlaganefndar til meðferðar og úrvinnslu, hún skilar því til 2. umr. og það er þá aftur rætt hér og síðan er því aftur skilað til nefndar og síðan til 3. umr. og afgreitt sem lög.

Í fjárlögum á að taka til og kveða á um hver skuli vera fjárútgjöld til hinna einstöku stofnana og einstöku verkefna á næsta ári. Þar ber að fara eftir því bæði sem sannast og réttast er og einnig koma þar fram hinar pólitísku áherslur stjórnarflokkanna í fjárlögunum, hvernig skuli varið fjármagni til einstakra málaflokka. Um það er deilt á Alþingi og þar eru ólík sjónarmið flokka, t.d. í velferðarmálum, t.d. í málefnum elli- og örorkulífeyrisþega, í menntamálum o.s.frv., um þetta er deilt. Ríkisstjórnin í krafti meiri hluta síns á Alþingi keyrir samt fram sína stefnu. Minni hlutinn leggur fram sínar tillögur og ábendingar og kemur athugasemdum og ábendingum á framfæri líka til fjárlaganefndar en á Alþingi hefur raunin verið sú undanfarið að tillögur minni hlutans hafa verið felldar. Þetta er afgreiðslan á fjárlögum.

Síðan koma lögin um meðferð fjáraukalaga og þar gildir allt annað um og því ætla ég að koma hér að hvert hlutverk fjáraukalaga er.

Í lögum um fjárreiður ríkisins stendur í 43. gr., með leyfi forseta:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.“

Í 44. gr. stendur:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.“

Fjáraukalög eru einungis til að taka á þegar koma upp ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða einhver ný löggjöf sem krefur á um breytingar í þeim efnum. Það er skýrt kveðið á um það.

Ríkisendurskoðun hefur einmitt lagt mjög ríka áherslu á þennan þátt í athugasemdum sínum við vinnu ríkisstjórnarmeirihlutans sem nú situr, að hann hafi ekki virt eða farið á svig við þessar lagagreinar með þeim hætti að koma sér hjá því að samþykkja eða ganga frá eðlilegum og nauðsynlegum fjárheimildum, sem allir vissu um, á fjárlögum, en dragi það svo í land á fjáraukalögum.

Fjáraukalög sem við erum nú að samþykkja og komu fyrir þingið í byrjun september eru fjáraukalög fyrir árið 2006 og lúta einungis að þeim fjárheimildum sem má beita á því ári. Árið er að verða liðið. Þess vegna eru þau vinnubrögð ríkisstjórnarinnar gagnrýnd af okkur í minni hluta fjárlaganefndar og hér á Alþingi, að koma sér hjá því að leggja nauðsynlegt fjármagn til á fjárlögum en koma svo með skottið á milli fótanna, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir orðaði það svo vel, með vandræðin sem eru orðin uppsöfnuð og verður ekki undan vikist í fjáraukalögum. Þetta heitir að fara á svig við lögin.

Ekki er eðlilegt að koma með breytingartillögur við fjáraukalagafrumvarp á síðasta mánuðinum nema eitthvað af þeim tilvikum sem ég nefndi áðan, ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf kveði á um skyndilega afgreiðslu hvað það varðar. Ekki hefði staðið á minni hlutanum ef slík hefði verið ástæðan. En minni hlutinn fer aldrei að taka þátt í að fara á svig við lögin um fjárreiður ríkisins og koma með tillögur á fjáraukalögum sem eiga fyrst og fremst heima á fjárlögum, voru fyrirséðar og væri þá nær að taka tillit til við gerð fjárlaga á næsta ári.

Þegar menn taka þátt í þessari umræðu er mjög mikilvægt að menn geri það á efnislegum forsendum. Okkur getur greint á um pólitískar forsendur ýmissa mála en þetta er ekki málfundur, svo einfalt er það. Ég bið hv. þingmenn að hafa það í huga í sjálfu sér. Ekki er verið að víkjast undan því að takast hart á á pólitískum og efnislegum forsendum en menn verða þá að vita hvað er á dagskrá og það eru lögin um fjárreiður ríkisins og hvernig þau eru í framkvæmd í fjáraukalögum við 2. umr.

Ég hef einmitt flutt tillögur hér á Alþingi um að það mætti breyta þessu þannig að þetta væri öruggara. Alþingi ber jú ábyrgð á öllum greiðslum sem fara fram af hálfu ríkisvaldsins og ég hef því gagnrýnt þegar ríkisstjórnir eða einstakir ráðherrar gera skuldbindingar á árinu um greiðslur úr ríkissjóði sem ekki eru fjárheimildir fyrir og síðan koma þær inn á fjáraukalögum í árslok. Þetta er að fara á svig við lögin. Alþingi getur samþykkt á þingtímanum ýmis lög sem krefjast útgjalda og þá ber lögum samkvæmt að afgreiða um leið fjáraukalög hvað það varðar, vegna þess að enga greiðslu má inna af hendi úr ríkissjóði án þess að fyrir því sé samþykkt á fjárlögum.

Ég hef því, frú forseti, ítrekað lagt til að Alþingi sé skylt, ef nauðsyn ber til, að afgreiða fjáraukalög oftar, að afgreiða fjáraukalög t.d. að vori þegar Alþingi lýkur, fara þá yfir þær breytingar sem gætu hafa orðið, bæði hvað lög varðar og einnig hvað varðar breytingar í forsendum fjárlaga þannig að Alþingi þurfi að taka til þess og þá eigi að ganga frá fjáraukalögum að vori sem taka á þeim breytingum og síðan komi þá fjáraukalög aftur að hausti varðandi þær breytingar sem þá hafa orðið. En númer eitt í þessu sambandi eru ábyrg vinnubrögð af hálfu fjárlaganefndar og Alþingis við gerð fjárlaganna á hverjum tíma og það er það sem hér hefur skort á.

Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir minntist á þá fluttum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins breytingartillögur við fjárlagagerð í fyrra sem laut að framhaldsskólanum, að Landspítala – háskólasjúkrahúsi, að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og að rekstri og uppbyggingu elli- og hjúkrunarheimila. Þessar tillögur fluttum við allar við fjárlagaafgreiðsluna fyrir ári síðan. Þá voru þær felldar af meiri hlutanum hér á Alþingi. Það lá alveg ljóst fyrir að þessar upphæðir yrðu að koma inn, það var enginn vilji til þess að skera niður þjónustu á móti.

Nú koma inn upphæðir í fjáraukalögum sem hver og einn vissi að yrðu að koma inn ef ekki átti að koma til mikilla vandræða. Svona á ekki að beita fjárlagavinnunni, svona á ekki að beita lögunum um fjárreiður ríkisins. Fjárlögin eiga að spegla hina nauðsynlegu þörf og verkefni eins og þau eru á hverjum tíma — nema að tekin sé pólitísk ákvörðun um annað. Þessari meðferð á fjárlögum sem hefur viðgengist hér af meiri hluta ríkisstjórnarinnar hefur verið í mörgu mjög ábótavant, þar sem meira hefur verið hugsað um að láta fjárlögin hafa einhverja fallega ímynd meðan verið er að samþykkja þau og síðan dregið í land á fjáraukalögum haustið eftir og þá með orðskrúði eins og hv. formaður fjárlaganefndar Birkir Jón Jónsson viðhafði hér áðan um hluti sem var vitað fyrir ári síðan að yrðu að koma inn.

Þetta var bara örstutt um það, frú forseti, á hvaða forsendum fjáraukalög og frumvarp til fjáraukalaga eru í rauninni rædd hérna í þinginu.

Ef litið er á helstu atriði sem fjárlaganefnd hefur verið að fjalla um gerði ég athugasemdir bæði í upphafi umræðunnar í dag og einnig í gær um vinnu fjárlaganefndar hvað varðaði fjáraukalagafrumvarpið eins og það kemur nú fram.

Síðastliðinn föstudag kom bréf inn til fjárlaganefndar frá fjármálaráðuneytinu, dagsett 10. nóvember, og í því stendur, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið fer þess á leit við Alþingi að í 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 verði gerðar eftirfarandi breytingar á sjóðsstreymi og lánsfjármálum ríkissjóðs árið 2006.“

Þar er farið fram á að í 3. gr. frumvarpsins verði gerðar eftirfarandi breytingar:

„að í stað orðanna „allt að 26,4 milljörðum kr.“ komi allt að 140,3 milljörðum kr. Í öðru lagi að í stað orðanna 45 milljarða kr. við 3. tölulið komi „allt að 50 milljarða kr., sem sagt hækkun um 5 milljarða.“

Þarna var verið að koma með breytingu inn í fjárlaganefnd upp á nærri 120 milljarða kr. á fjáraukalagafrumvarpinu. Þetta var ekkert kynnt í dagskrá og þegar ég innti eftir því í fjárlaganefnd hvaða forsendur lægju að baki þessum tölum og hvaða röksemdir væru fyrir þeim þá var heldur fátt um svör, og þegar ég bað um gögn sem væru á bak við tölurnar voru þau ekki heldur fyrir hendi. Ég fór svo fram á að afgreiðslu á þessu máli, þessu bréfi yrði frestað og að nefndin ynni þetta betur.

Hérna er t.d. verið að biðja um lánsfjárábyrgð, ábyrgð á lántöku á allt að einum milljarði evra eða sem nemur 87 milljörðum kr. miðað við gengið um þessar mundir. Lánið væri tekið í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisstöðu Seðlabanka Íslands. Jú, þetta er vafalaust hið þarfasta mál því að okkur er öllum ljóst að efnahagskerfi landsins er mjög viðkvæmt og þar má ekkert út af bera til þess að þar fari ýmislegt á flot og ég kem að því betur síðar.

Hefði nú ekki verið rétt að fjárlaganefnd hefði fengið greinargerð frá ríkisstjórninni eða frá Seðlabankanum inn í nefndina og rætt um þær efnahagslegu forsendur sem hér var verið að reyna að taka á með því að heimila Seðlabankanum að taka lán upp á 87 milljarða kr.? Hefði ekki verið ágætt að hafa umræðu um þetta?

Annað sem í þessum tölum er líka fólgið er heimild upp á 26,9 milljarða kr. lántöku vegna kaupa ríkissjóðs á eignarhlut sveitarfélaga í Landsvirkjun.

Svo stendur hér:

„Kaupverðið er samtals 30,3 milljarðar kr. Kaupverðið greiðist annars vegar með 26,9 milljarða kr. skuldabréfi til 28 ára sem er með jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og hins vegar það sem á vantar með 3,4 milljörðum kr. greitt í reiðufé.“

Þetta er í sjálfu sér ekkert smámál sem hér er á ferðinni. Hér er í rauninni verið að staðfesta eða verið að leita staðfestingar á kaupum ríkissjóðs á Landsvirkjun. Eina heimildin sem að öðru leyti er fyrir kaupum á Landsvirkjun er heimildarákvæði í frumvarpi til fjáraukalaga, þar inni er heimild þar sem segir í heimildargrein að heimilt sé að kaupa hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.

Er nú ekki verið að fara svolítið aftan að hlutunum að koma inn með þessum hætti? Ég gagnrýndi þetta. Ég vildi fá upplýsingar um hvað ríkissjóður væri að kaupa þarna. Hvert er verðmætið, hver mat verð Landsvirkjunar? Hvar liggur þessi kaupsamningur fyrir? Það er alveg ljóst að það er pólitískur ágreiningur um kaup á Landsvirkjun. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum því andvíg að ríkið sé að kaupa Landsvirkjun út með þessum hætti, það er augljóst að þetta er liður í einkavæðingarferli á Landsvirkjun og raforkugeiranum, það hefur legið fyrir um nokkurn tíma. Við höfum heyrt stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi orkufyrirtækin, hún er alveg klár. Það á að einkavæða og selja Landsvirkjun og önnur opinber orkufyrirtæki.

Við höfum líka heyrt það frá Framsóknarflokknum að slíkt gæti staðið til. Þeir segja reyndar að það eigi ekki að vera núna. Er þá rétt að kaup á Landsvirkjun séu tekin inn með þessum hætti? Það eru til sérstök lög um Landsvirkjun, sérlög frá 1983. Í þeim er kveðið á um eignarhluta hinna ýmsu aðila sem eiga í Landsvirkjun og hún starfar og er til samkvæmt þeim. Ef það á að breyta þessu væri þá ekki rétt að inn kæmi lagafrumvarp og við ræddum hina lögformlegu hlið hér á Alþingi, áður en komið er með beiðnir um peninga til þess að borga hana? Er ekki verið að fara nokkuð rangt að? Jú, mér finnst það.

Þess vegna mótmælti ég þessum vinnubrögðum í fjárlaganefnd, að verið væri að leggja til að kaupa eitt stykki Landsvirkjun, málið afgreitt á tíu mínútum út úr nefnd og ekki komið fram neitt lagafrumvarp um að breyta eigi lögunum, mér finnst þetta vera hálfgerð lögleysa, frú forseti. Fyrir utan það að kannski væri rétt, áður en lengra er haldið, að hafa umræðu um þessa stefnu ríkisstjórnarinnar, einkavæðingarferilinn sem nú er hleypt í gang, kaupum ríkisins á Landsvirkjun af sveitarfélögunum Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Í beinu framhaldi af þessu hefur iðnaðarráðherra lýst því yfir að það eigi að leggja Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins eða Rarik hf. inn í þetta sama fyrirtæki. Allt þetta á bara að gera á einhverjum heimildarákvæðum.

Það er vanvirða við þingið að láta mál koma inn með þessum hætti og þó að pólitískur ágreiningur sé um þetta mál þá eigum við samt að láta það fara þingræðislega og lýðræðislega í gegnum Alþingi. Eða óttast menn, óttast ríkisstjórnarmeirihlutinn að taka þá pólitísku umræðu?

Í þessu bréfi frá ríkisstjórninni sem kom inn til fjárlaganefndar og var afgreitt þar út á örfáum mínútum án þess að nokkur gögn fylgi, stendur líka, með leyfi forseta:

„Hins vegar er hlutafélag Eignarhluti ehf.“ — að þarf að setja fjármagn inn í hann — „um eignarhald og umsýslu eignarhluta ríkisins í félögum og fyrirtækjum sem félaginu er falið að fara með og ráðgert er að leggja til félagsins lítinn hlut í Landsvirkjun.“

Hér er meira að segja verið að tala um að leggja fjármagn til hlutafélags sem á að yfirtaka hluti ríkisins í Landsvirkjun og kannski líka í Orkubúi Vestfjarða og Rarik. Eru menn ekki komnir býsna langt fram úr sér hér? Við höfum ekki enn tekið pólitíska umræðu um hvort það eigi að gera þetta. Ég veit a.m.k. að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru á móti frekari einkavæðingu í orkugeiranum, við erum á móti því að Landsvirkjun sé tekin svona upp og verið að búa hana út til að setja hana á markað. Við erum á móti því að Orkubú Vestfjarða sé bara sett inn í púkk Landsvirkjunar til þess að bæta eiginfjárstöðu hennar annars vegar og til þess að taka — ja, þar fara t.d. orkunýtingarréttindi Orkubús Vestfjarða — ef þetta gengur fram — þeim er steypt inn í Landsvirkjun, sömuleiðis er Rarik steypt inn í Landsvirkjun. Er þarna verið að tryggja hag neytenda? Er verið að tryggja að samkeppni í raforkumarkaðnum komi neytendum til góða? Nei. Ef þetta gengur fram er verið að keyra þessi þrjú ríkisfyrirtæki saman í eitt til að þægilegra síðan sé að einkavæða þau og selja. Það sér hver maður.

Af hverju tökum við þessa pólitísku umræðu ekki fyrst á Alþingi áður en hér er lagt til á fjáraukalögum hvernig skuli borga þessa hluti sem hér eru til umræðu? Ég mótmælti svona vinnubrögðum. Ég mótmælti svona gerræðislegum vinnubrögðum sem ríkisstjórnin er farin að beita bæði fjárlaganefnd og Alþingi, þ.e. að þetta eigi bara að fara í gegn umræðulaust og án þess að gögn fylgi. Áður en við afgreiðum þetta við 2. umr. vil ég fá gögn á bak við þessar upphæðir sem hér er verið að krefjast til að leggja inn í þetta púkk. Ég vil fá pólitíska umræðu um þetta. Er það vilji Alþingis að setja orkuverin öll, Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik, í einkavæðingarferli ríkisstjórnarinnar sem hún núna keyrir á? Hún á bara nokkra mánuði eftir. Af hverju á núna á síðustu mánuðum líftíma hennar að taka fleiri almannaþjónustufyrirtæki og setja þau á einkavæðingar- og markaðsvæðingarvagninn? Væri ekki nær að hún staldraði við og sæi að minnsta kosti til hvort hún fengi umboð til áframhaldandi einkavæðingar eftir næstu alþingiskosningar? Ég held að þjóðin sé búin að fá nóg af einkavæðingu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í almannaþjónustunni. Síminn, fjarskiptakerfið um allt land, er í uppnámi. Það átti aldrei að selja Símann. Þáverandi ráðherra gaf hátíðlega yfirlýsingu um það þegar hann var hlutafélagavæddur. En um leið var sett í gang söluferli Símans. Þannig fór um þau orð ráðherra. Eftir að almannaþjónustufyrirtækin eru komin á einkavæðingarvagninn er fátt sem stöðvar hann.

Svo hér að lokum í þessu bréfi er farið fram á 5 milljarða kr. heimild fyrir ríkisábyrgð á lántökum Landsvirkjunar vegna uppgjörs á ófyrirséðum kostnaði við aðalverktaka Kárahnjúkavirkjunar. Bíðum nú við. Er ekki eðlilegt að fjárlaganefnd fái einhverjar skýringar? Er ekki eðlilegt að Alþingi fái einhverjar skýringar á því hvers vegna allt í einu þurfi að veita heimild fyrir 5 milljörðum vegna Kárahnjúkavirkjunar? Ég leyfi mér að spyrja, frú forseti: Bíðum við, hvað eru komnar miklar ábyrgðir af hálfu ríkisins gagnvart Kárahnjúkavirkjun? Væri ekki ágætt að fá það upplýst hversu mikið er nú þegar komið af slíkum ábyrgðum áður en við förum hér bara að veita umræðulaust nánast viðbótarábyrgðir vegna Kárahnjúkavirkjunar?

Væri ekki líka eðlilegt að spyrja og ég spyr: Er þetta þá nóg? Hver er þessi staða með Kárahnjúkavirkjun úr því að núna þarf bara á örfáum mínútum að keyra inn í þingið beiðni um 5 milljarða vegna Kárahnjúkavirkjunar, vegna umframkostnaðar við Kárahnjúkavirkjun? Er þetta þá nóg? Hver er staðan? Er ekki eðlilegt að við séum upplýst um það hverjar séu ábyrgðir Landsvirkjunar, hverjar séu ábyrgðir ríkissjóðs, hverjar séu ábyrgðir Reykjavíkurborgar og hverjar séu ábyrgðir Akureyrarbæjar vegna Kárahnjúkavirkjunar? Eigum við ekki að fá það upplýst áður en við förum að afgreiða 5 milljarða? Við köllum forstjóra sjúkrahúsa eða skóla á fund fjárlaganefndar ef farið hefur verið umfram 1–3 milljónir. Þá köllum við þá inn og spyrjum: „Hvað, geturðu ekki stjórnað stofnuninni þinni?“ Og það vegna þeirrar ástæðu að ríkissjóður hefur látið hann hafa of litla peninga miðað við þau umsvif sem honum hafa verið falin. En þá köllum við hann fyrir. En þegar 5 milljarðar vegna viðbótarkostnaðar við Kárahnjúkavirkjun koma þá á bara að þegja það fram hjá.

Ég krefst þess hér að gerð verði nákvæm grein fyrir hver kostnaður við Kárahnjúkavirkjun sé orðinn, hverjar séu ábyrgðir ríkisins vegna Kárahnjúkavirkjunar og hvað sé enn ókomið inn af ábyrgðum og kostnaði sem mun geta fallið á ríkissjóð vegna Kárahnjúkavirkjunar. Það er alveg eðlilegt að þessar upplýsingar komi óháð því hvort við séum pólitískt með eða á móti þessari virkjun sem var náttúrlega fullkomið glapræði frá byrjun. En það er númer eitt að við höldum hér eðlilegu skikki og séum ekki að fela eða forðast að upplýsa hér um forsendur þess að hér sé beðið um 5 milljarða kr. vegna ófyrirséðs kostnaðar við Kárahnjúkavirkjun. Er það eitthvert feimnismál? Hvort sem svo er eða ekki þá eiga þær upplýsingar að vera hér inni. Ég krefst þess að þessi staða varðandi Kárahnjúkavirkjun, varðandi ábyrgðir ríkissjóðs og kostnað við hana komi inn í þingið áður en þetta er afgreitt. Þetta er jú hin efnislega umræða um fjáraukalögin, þ.e. 2. umræða, og þess vegna mikilvægt að það komi hér inn.

Frú forseti. Svo er nú ýmislegt annað. Ég minntist á það áðan í ræðu minni að verið er að fara fram á nærri 90 milljarða kr. framlag til þess að styrkja gjaldeyrisstöðu Seðlabankans og það er vel trúlegt að það sé nauðsynlegt. Það er vel trúlegt að það sé nauðsynlegt. En ég hefði talið eðlilegt að við ræddum það og það væri rætt hér hvers vegna það sé nauðsynlegt og hvort það sé nóg. Ég er með hér útskrift úr Morgunblaðinu 10. nóvember þar sem vitnað er í skýrslu eftirlits- og fjármálamatsfyrirtækisins Fitch. Fyrirsögnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ísland skuldar mest allra landa sem Fitch metur.“

Svo stendur, með leyfi forseta, að enn sé nokkuð langt í að jafnvægi náist í íslenska hagkerfinu, að mati matsfyrirtækisins Fitch Ratings. Stjórnvöld takist enn á við mikla heildareftirspurn og styrkingu krónunnar að nýju vegna skammtímainnflæðis á fjármagni vegna vaxtamunar við útlönd.

Síðan segir að einkaneysla og fjárfesting hafi orðið mun meiri en ráð var fyrir gert. Og það eru ekki fjárfestingar ríkisins beint heldur eru það fjárfestingar fyrirtækja sem heyra undir ríkið eða opinbera aðila, fjárfestingar á vegum Landsvirkjunar, fjárfestingar á vegum Orkuveitu Reykjavíkur, opinberra aðila sem hér er verið einmitt að tala um að hafi verið miklu meiri en æskilegt væri, þ.e. stóriðjuframkvæmdirnar. Þarna er verið að vitna til þeirra.

Síðan segir í þessari grein í Morgunblaðinu um efnahagsástandið:

„Í matinu viðurkennir Fitch að hrein erlend skuldahlutföll séu lægri þegar tekið sé mið af hraðri eignamyndun erlendis en bendir á að þar sem skuldir námu 357% af erlendum tekjum þjóðarbúsins árið 2005 sé Ísland skuldugast af öllum löndum sem Fitch meti til lánshæfis.

„Þessi þrönga staða ...“ (GÓJ: Hvað sögðu þeir um bankana?) Ég get komið að því. Ég kem að því á eftir af því að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur áhuga á því.

En svo segir í þessari grein, með leyfi forseta:

„Þessi þrönga staða ásamt miklu ójafnvægi í hagkerfinu gerir landið berskjaldað fyrir ytri áföllum svo sem hækkun vaxta erlendis og/eða skyndilegum breytingum á viðhorfum fjárfesta. Slík framvinda og líkleg viðbrögð við þeim gæti valdið mun dýpri kreppu en því skammvinna samdráttarskeiði sem fylgdi í kjölfar svipaðrar fjárfestingaruppsveiflu á seinni hluta tíunda áratugarins með óhagstæðum afleiðingum fyrir heimili, fyrirtæki og banka sem eru mun skuldsettari nú en áður var.“

Það er alveg hárrétt að skýrslan kemur inn á að vel heppnuð endurfjármögnun bankanna hafi eytt vissri óvissu Hins vegar er jafnframt bent á hve stór hluti fjármálakerfis bankanna sé orðinn af því heildarfjármagni sem er í gangi á vegum íslenska þjóðarbúsins, (Gripið fram í.) sem þýðir það líka að þá eru þeir enn þá viðkvæmari fyrir sveiflum á þeim vettvangi. Þeir vara einmitt við þessari stöðu. Ef hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur lesið þessa skýrslu þá veit hann að þeir vara einmitt við því hversu ástandið getur verið veikt. (GÓJ: Er ekki lausnin að reka þá úr landi?)

Í Morgunblaðinu 3. nóvember síðastliðinn er vitnað í Davíð Oddsson seðlabankastjóra og meira að segja hann varar við mikilli undirliggjandi þenslu og ójafnvægi í íslensku atvinnulífi.

Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það léttir hins vegar ekki þeirri skyldu“ — þ.e. þó að ýmislegt hafi gengið vel — „af stjórnvöldum að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr ójafnvægi í þjóðarbúskapnum.“

Það á ekki að gera lítið úr þessum viðvörunum. Þess vegna er verið að leggja til hér að tekin verði um 90 milljarða kr. sérstök fjárveiting til þess að styrkja gjaldeyrisstöðu Seðlabankans, einmitt til þess að styrkja stöðu efnahagskerfisins, ekki síst gagnvart útlöndum.

Mér finnst fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna skauta óvenjulétt og af ábyrgðarleysi yfir þessa skuldastöðu og ójafnvægi í þjóðarbúinu. Þó að ríkissjóður sjálfur standi nokkuð vel þá er það náttúrlega bara ein sneið af allri þjóðarkökunni þannig að þegar upp er staðið snýst málið um fjárhagsstöðu þjóðarbúsins og heimilanna. Það er til dæmis áhyggjuefni, frú forseti, að í lok síðasta árs voru skuldir heimilanna 1.082 milljarðar (Gripið fram í: En eignir?) og höfðu aukist úr 813 milljörðum um mitt ár 2004. (Gripið fram í: En eignirnar?) Ef litið er til skulda heimilanna sem hlutfalls af landsframleiðslu þá jukust þær úr 89% í júní 2004 í 1.003% sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2005.

Vissulega hafa nokkrar eignir aukist þarna á móti. (Gripið fram í: Jæja?) Engu að síður, í góðu búi, reynum við að styrkja eignastöðu okkar frekar en að gera hana veikari (Gripið fram í: Og bæta reksturinn.) og bæta reksturinn og geta borgað af skuldunum. Ég held að í þeirri stöðu sem við nú erum í með þessum gríðarlega háu vöxtum — stýrivextir eru upp á 14% — með verðbólgu upp á á milli 7–8%, eins og hún virðist ætla að verða yfir þetta ár þrátt fyrir spá um annað, og háum vöxtum á öllum lánum, þá er alveg ljóst að fjárhagur heimilanna er settur á ystu nöf til að geta staðið í skilum. Það vita allir.

Bara aðeins til þess að átta sig á þessari alvarlegu stöðu vil ég ítreka að áðan vitnaði ég í matsfyrirtækið Fitch sem sá ástæðu til þess að breyta mati sínu á horfum um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar.

Sérfræðingar Fitch benda á að erlendar skuldir þjóðarbúsins muni hækka í 360% af vergri landsframleiðslu á árinu, sem er meira en þreföld skuldastaða þjóðarbúsins á árinu 2000. Skuldir nema nú 357% af erlendum tekjum þjóðarbúsins og er Ísland því skuldugast af öllum löndum sem Fitch metur til lánshæfis.

Hér hefur orðið gríðarleg skuldaaukning á skömmum tíma en árið 2000 stóðu erlendar skuldir þjóðarbúsins í 100% af vergri landsframleiðslu. Skuldir þjóðarbúsins hafa því ríflega þrefaldast miðað við verga landsframleiðslu sem þó hefur aukist mikið á tímabilinu. Greinendur Fitch meta þetta þannig, eins og ég sagði áðan, að þessi þrönga staða ásamt ójafnvægi í hagkerfinu geri landið berskjaldað fyrir ytri áföllum. Erlend staða þjóðarbúsins er nú neikvæð sem nemur þrettánföldum útflutningstekjum og hefur hríðversnað á skömmum tíma eins og þeir leggja áherslu á í skýrslunni. Á árinu 2000 hefði þurft fjórfaldar útflutningstekjur til að greiða upp neikvæða erlenda stöðu og um mitt síðasta ár um það bil sjöfaldar. Það skal því engan undra að erlendir lánadrottnar og matsstofnanir líti málið alvarlegum augum. Það er annað en ríkisstjórnarmeirihlutinn hér gerir.

Það hefði því verið fullkomlega eðlilegt að verða við kröfu minni um að við færum í gegnum forsendur, ástæður og stöðu ríkisbúskaparins, þegar verið er að reyna að treysta gjaldeyrisstöðu Seðlabankans um 90 milljarða, í stað þess að fjárlaganefnd afgreiði hana á tíu mínútum til þingsins nánast umræðulaust. Þetta eru ekki ábyrg vinnubrögð. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hver staðan er og hvernig við getum saman tekið á því máli.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram þingmál sem lýtur einmitt að því og heitir Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Við gerum okkur grein fyrir að þrátt fyrir mikla peninga í umferð, þrátt fyrir að margir telji sig hafa það gott, þá stendur efnahagslífið mjög veikum fótum. Það hefur verið nefnt í því sambandi ógnarjafnvægi í efnahagsmálum.

Ég tel eitt brýnasta málið að taka á þessu. Við höfum lagt fram okkar tillögur, í fyrsta lagi mikilvægi þess að verðbólgan nái sem fyrst niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans, sem eru um 2,5%, í öðru lagi að stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur.

Þegar forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss kom á fund fjárlaganefndar og lýsti fjárhagsstöðunni og við hvað þar væri að glíma, og hv. formaður fjárlaganefndar, Birkir Jón Jónsson, gerði að umtalsefni hér, þá gat formaðurinn þess ekki hvað forstjórinn lagði mesta áherslu á. Hann sagði að að óbreyttu ástandi yrði mönnunarvandinn mesta vandamál sjúkrahússins. Hvaðan er sá vandi kominn? Hann hefur legið fyrir. (Gripið fram í: Eru hjúkrunarfræðingarnir á Kárahnjúkum?) Frá 2003 hefur ríkt gríðarlega mikil þensla hér á landi í kjölfar stóriðjuframkvæmdanna sem settar voru í gang þá. Já, Guðjón Ólafur Jónsson, hv. þm. Framsóknarflokksins, hristir höfuðið, enda er stóriðja og áliðja nánast eins og trú fyrir Framsóknarflokknum. Stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan og síðan hér á Grundartanga, framkvæmdir á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í virkjunum, er náttúrlega það sem hleypt hefur þessari miklu þenslu af stað. Það vita allir. Á það benti fyrrverandi seðlabankastjóri, Birgir Ísleifur Gunnarsson, á sínum tíma. Þetta hefur legið fyrir. Fyrir utan náttúrlega skattalækkanir á hátekjufólkið sem hefur verið þessari ríkisstjórn einstaklega hugleikið.

Það er þessi stefna sem nú er að setja atvinnulífið í mikinn vanda. Erlent vinnuafl er jú sótt í mikilli þenslu en því ekki eru einu sinni búin viðhlítandi kjör, hvorki félagsleg launakjör né almenn mannsæmandi kjör hvað varðar aðgengi að íslensku samfélagi, en jafnframt er algjör skortur á fólki, sérstaklega í umönnunarstörfum. Tökum Landspítalann, elliheimilin, hjúkrunarheimilin, leikskólana. Hvað var í fréttum í gær? Leikskólastjórar ná ekki að manna sína leikskóla vegna skorts á fólki.

Þess vegna leggjum við til að stöðva þessa þenslu, bæði með tilliti til þeirra efnahagslegu áhrifa sem hún hefur og ég greindi hér frá, að Ísland er orðið skuldugasta land í heimi, og einnig til að koma á jafnvægi svo aðrar atvinnugreinar fái að njóta sín og fái eðlilegt starfsumhverfi. Því að auðvitað hafa ruðningsáhrif þessara stóriðjuframkvæmda komið hart niður á öðrum atvinnugreinum.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum að gefin verði út yfirlýsing nú þegar af ríkisstjórninni um að stöðvaðar verði frekari stóriðjuframkvæmdir og undirbúningur undir frekari stóriðjuframkvæmdir. Eins og nú er er allt á fullu við undirbúning að nýju álveri við Húsavík, allt á fullu við undirbúning að stækkun álversins í Straumsvík, allt á fullu við undirbúning á álveri við Helguvík, allt á fullu við að stækka og meira að segja hefur stækkunum verið flýtt á álverinu við Grundartanga og nú í dag ræddum við um möguleika á álveri í Þorlákshöfn.

Mun þessi umræða eða sú vinna sem þarna er í gangi auka á stöðugleikann í efnahagsmálum? Nei. Þess vegna verður nú þegar að stöðva frekari áform um stóriðjuframkvæmdir. Það gerist kannski ekki nema skipt verði um ríkisstjórn því að Framsóknarflokkurinn hefur þetta sem sitt aðalmál. Allir eru sammála um að þetta verði að gera til að koma aftur á jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er þetta sem mér finnst einna brýnast. Það er þetta sem ég hefði viljað ræða í fjárlaganefnd þegar verið er að fara fram á lán upp á einn milljarð króna til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans í ljósi þessa ógnarjafnvægis eða gríðarlegu áhættu sem íslenskt efnahagslíf hefur fundið fyrir og ég hefði viljað ræða betur.

Frú forseti. Það hefði verið hægt að koma hér með fleiri atriði. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur boðað að ákveðnir þættir sem lúta að fjáraukalögunum, eins og heilbrigðisstofnanirnar, skólarnir og fleiri stofnanir sem við vitum að eiga í miklum fjárhagslegum vanda í ár vegna rangra fjárlaga sem samþykkt voru fyrir ári síðan, verði skoðaðir milli 2. og 3. umr. og ég fagna því. Betra er seint en aldrei við að koma til móts við brýnan og alvarlegan rekstrarvanda þessara stofnana og reyndar fleiri sem þarf að taka á.

Ég ítreka það, frú forseti, að mér finnast þessi vinnubrögð af hálfu fjárlaganefndar og meiri hlutans á Alþingis að ætla að keyra í gegn umræðu og afgreiðslu á heimild til að kaupa Landsvirkjun, á heimildum til að slá saman Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða og Rarik í eitt fyrirtæki, fara í gegnum svona heimildagreinar án þess að taka efnislega og pólitíska umræðu á Alþingi um það, vera mikill yfirgangur og alls ekki í takt við lýðræðisleg vinnubrögð, óháð þeirri pólitísku skoðun sem við höfum. Ég ítreka einnig að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur alla tíð varað við markaðsvæðingu raforkukerfisins. Sú markaðsvæðing og einkavæðing sem nú er komin í gang hefur ekki skilað landsmönnum rafmagni á lægra verði eða öruggari afhendingu. Þær aðgerðir sem núna er verið að fara í með einkavæðingu, með því að setja Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik á einkavæðingarvagninn, eru að mínu mati alveg örugglega ekki í þágu landsmanna og væri mikilvægt að við tækjum þá umræðu áður en farið er út í að láta málið fara hér í gegn með þessum hætti.

Svo ítreka ég aftur spurningar mínar um það hvernig vera megi að hér sé bara í einni og hálfri línu komið inn heimild fyrir ríkisábyrgð upp á 5 milljarða kr. vegna uppgjörs á ófyrirséðum kostnaði til aðalverktaka Kárahnjúkavirkjunar. Ættum við ekki að fá allar upplýsingar um það í raun hvernig staða þess máls er áður en við förum að samþykkja gagnalaust 5 milljarða kr. viðbót vegna umframkostnaðar við Kárahnjúkavirkjun? Óháð því þótt um hana sé pólitískur ágreiningur verður slíkt að vera efnislega unnið. Hvað liggur á bak við 5 milljarða kr. viðbót vegna umframkostnaðar á Kárahnjúkavirkjun? Er það nóg? Hverjar eru heildarábyrgðirnar? Mér finnst frumskilyrði að þetta komi fram hér áður en við ljúkum 2. umr., frú forseti.