Fjáraukalög 2006

Þriðjudaginn 14. nóvember 2006, kl. 17:00:57 (1527)


133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:00]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason er að þessu sinni óvenjuviðkvæmur fyrir gagnrýni á ræður hans. Hins vegar komst hann fimlega hjá því að svara spurningum mínum. Það liggur nefnilega fyrir að hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur lýst því yfir að bankarnir mættu fara úr landi hans vegna, atvinnugrein sem skilar tugum milljarða í skatta í þjóðarbúið þannig að við getum sinnt velferðarmálum.

Axla bankarnir ekki samfélagslega ábyrgð sína með þeim hætti, með skattgreiðslum í ríkissjóð? Þetta eru fyrirtæki sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætla að flytja úr landi. Það verður fróðlegt að sjá þegar þingsályktunartillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika — jafnhlægilegt og það heiti er — kemur til umræðu, hvort hv. þingmaður og aðrir í flokki hans ætla að fylgja eftir þeim hugmyndum þingflokksformanns Vinstri grænna.

Ég spyr hv. þingmann öðru sinni og ég skal vera mjög skýr og vænti þess að fá skýr svör frá hv. þingmanni: Styður hv. þingmaður Jón Bjarnason þá hugmynd þingflokksformanns Vinstri grænna að senda bankana úr landi?