Fjáraukalög 2006

Þriðjudaginn 14. nóvember 2006, kl. 18:32:45 (1551)


133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:32]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður heldur áfram á sinni venjulegu leið. Það er vissulega að sumu leyti nokkuð til í því sem hv. þingmaður segir varðandi það að við höfum að sjálfsögðu varað við þeirri þensluleið sem ríkisstjórnin hefur farið. Við höfum varað við því að láta útgjöldin vera nær stjórnlaus.

Við höfum hins vegar klárlega þá stefnu að auka eigi jöfnuð í landinu. Þar skilur á milli. Það er augljóst mál að ríkisstjórnin hefur keyrt alveg þveröfuga leið í þeim efnum. Við höfum t.d. talið að nota eigi bæði launastefnu og skattkerfi til að auka jöfnuð í landinu. Við teljum að ekki eigi að nota skattkerfið eins og ríkisstjórnin hefur gert, þ.e. að fara þá leið að auka hlut þeirra sem meira hafa og skerða hlut þeirra sem minna hafa. Þetta er leið sem við erum algjörlega á móti.

Við erum einnig á móti því að sýna það agaleysi sem er í ríkisfjármálum. Við teljum að nauðsynlegt sé að nota ríkisfjármálin til þess að hafa áhrif í efnahagslífinu. Við teljum að við eigum að beita öllum aðferðum sem við höfum til að koma í veg fyrir að verðbólga vaxi í landinu. Ég endurtek það sem ég hef sagt hér áður, að sú verðbólga sem við sitjum uppi með á þessu ári er að sjálfsögðu alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Ekki skorti aðvörunarorðin fyrir ári þegar flestir sáu í hvað stefndi.

En hv. þingmaður gerði eins og fyrrum, þrátt fyrir að koma oft með ágæt aðvörunarorð, þá endaði það á því að hv. þingmaður fylgdi ráðherralínunni og greiddi atkvæði með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.