Stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 13:02:42 (1584)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur.

224. mál
[13:02]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Varðandi efnistöku á hrafntinnu í tengslum við viðgerðir á Þjóðleikhúsinu þá fáum við í Frjálslynda flokksins ekki annað séð og heyrt en að þar hafi verið staðið forsvaranlega að málum. Hér er náttúrlega um mjög sérstakt tilfelli að ræða. Þjóðleikhúsið hefur þurft á miklu viðhaldi að halda undanfarin ár, það hefur verið augljóst hverjum sem séð hefur það hús að kominn var tími til að gera það upp. Þjóðleikhúsið er musteri leiklistar í landinu. Þetta er mjög sérstakt tilfelli og hér verður að vega saman fórnarkostnað og ávinning. Það er skoðun mín, virðulegi forseti, að ávinningurinn í þessu tilviki sé miklu meiri en fórnarkostnaðurinn og því hafi verið rétt að fara út í þessa efnistöku á hrafntinnu og aðra þá efnistöku sem þarf til að endurgera þetta fallega og stórmerkilega hús með fullum sóma og þeirri virðingu sem því ber.