Stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 13:03:53 (1585)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur.

224. mál
[13:03]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn í tveimur liðum. Ég vil aðeins koma að seinni liðnum varðandi efnistöku á hrafntinnu í Hrafntinnuskerjum, því að mér sýnist að þó svo að allt ferlið hafi verið samkvæmt lögum verðum við að horfa mjög alvarlega á þann lagaramma sem við höfum. Það er óeðlilegt að almenningur eða þeir sem telja sig málið varða og hafa á því skoðanir hafi enga aðkomu að málinu, geti ekki látið það í ljós, verið umsagnaraðilar, og það þurfi svo að fara í kæruferli og kæruleiðir séu mjög takmarkaðar. Það er í raun og veru búið að útiloka einstaklinga frá allri aðkomu að slíkum málum. Ég tel að út frá lýðræðislegum (Forseti hringir.) vinnubrögðum og náttúruvernd verðum við að endurskoða þessi málefni vel.